Vilja ná til ungra vélhjólakappa

Allir eru velkomnir sem áhuga hafa á mótorhjólum

Bifhjólaklúbburinn Ernir stendur fyrir forvarnardegi við félagsheimili sitt á Ásbrú nk.  laugardag kl. 10. Markmið dagsins er að vera með forvarnir og fræðslu um öryggismál. „Nú eru hjólin að koma út á göturnar eftir veturinn og því skiptir það miklu máli að vera með fræðslu um forvarnir á þessum tímapunkti,“ sagði Óskar Húnfjörð formaður Arna. „Við leggjum mikla áherslu á að ná til unglinga og þeirra sem eru á minni hjólunum og benda þeim á að búnaðurinn skiptir máli. Allir eru velkomnir sem áhuga hafa á mótorhjólum og ég vil hvetja þá til að taka félaga sína með sér,“ sagði Óskar.

Lögreglan á Suðurnesjum og Brunavarnir Suðurnesja taka þátt í deginum.
Þá styðja VÍS, Íslandsbanki, og Innness viðburðinn. Víkurfréttir er samstarfsaðili klúbbsins á Forvarnardeginum.
Klúbburinn hefur það markmið að auka öryggi hjólafólks og vilja klúbbmeðlimir sýna gott fordæmi og reyna að ná til yngri hópanna sem vafalaust verða hjólamenn framtíðarinnar. Sjúkraflutningamenn sýna viðbrögð við komu að slysi bifhjólamanns og sett verður upp æfingabraut þar sem hægt er að æfa akstur á hjólunum. Sýnt verður nýjasta öryggisvestið fyrir hjólamenn.
Í hádeginu verður boðið upp á grillaðar pylsur og gos í boði Atlantsolíu.
„Þetta verður skemmtilegt og fræðandi fyrir alla sem vilja koma til okkar á laugardaginn sagði,“ Óskar að lokum.