Fréttir

Vel heppnuð umbreyting á varnarstöð
Föstudagur 30. september 2016 kl. 16:21

Vel heppnuð umbreyting á varnarstöð

- Var meira áfall gagnvart atvinnu en nokkurt sveitarfélag á Íslandi hafði upplifað, segir Árni Sigfússon

„Í lok mars mánaðar 2006 hafði öllum íslenskum starfsmönnum Varnarliðsins verið sagt upp störfum og aðeins 6 mánuðum síðar, þann 30. september, flaug síðasta flugvélin með hermenn frá yfirgefinni herstöð á Miðnesheiði. Varnarstöðin á Miðnesheiði, þar sem fjögur þúsund manns bjuggu og störfuðu, varð á aðeins sex mánuðum yfirgefinn bær – „draugabær“, sögðu sumir,“ segir Árni Sigfússon en hann var bæjarstjóri Reykjanesbæjar þegar Varnarliðið fór frá Keflavík, - með manni og mús.

Og Árni segir: „Um 2800 hermenn og fjölskyldur þeirra höfðu yfirgefið íbúabyggðina á Keflavikurflugvelli  á þessum sex mánuðum. Nú ríkti þögn á heimilum, í leikskólum, skemmtistöðum, kvikmyndahúsi, grunnskóla, framhaldsskóla og verslununum. Engin störf í skrifstofu-  byggingar- og viðhaldsstörfum hvað þá flókinni öryggis- og tækniþjónustu við flugherinn.

1100 íslenskir starfsmenn misstu störf sín. Þeir voru fyrirvinnur fjölskyldna, höfðu margir starfað áratugum saman í þjónustu við Varnarliðið og tengda aðila því þetta hafði verið góður og öruggur vinnustaður. Af þessum fjölda voru tæplega 600 íslenskir starfsmenn beint undir Varnarliðinu. Flestir þeirra voru á aldrinum 40-60 ára. Að auki misstu um 300 starfsmenn íslenskra verktakafyrirtækja og annarra þjónustufyrirtækja störf sín. Viðskipti fjölskyldna og stofnana af Vellinum voru tíð í bænum okkar. Um 150-200 margvísleg tengd þjónustustörf hurfu eitt af öðru á skömmum tíma.  Þetta var því meira áfall gagnvart atvinnu en nokkurt sveitarfélag á Íslandi hafði upplifað, allavega frá því að síldin hvarf á 7. áratug síðustu aldar.
Um 900 rúmgóðar fjölskylduíbúðir, með amerísku ísskápana og öll stóru heimilistækin, auk 1100 fullbúinna einstaklingsíbúða,  stóðu auðar.  Alls 210 þúsund fermetrar af íbúðarhúsnæði.
Það  atvinnuhúsnæði sem nú stóð autt á varnarsvæðinu samsvaraði í fermetrum allri verslunarmiðstöðinni Smáralind og að auki Hörpu, menningarhúsi þjóðarinnar.
Hvað var til ráða? Áttum við að leggja hendur í skaut og lýsa yfir neyðarástandi?  Áttum við að líta á brotthvarf hersins sem áhugavert nýsköpunartækifæri í íslensku samfélagi?  
Við völdum síðari kostinn. Plógjárn skyldu smíðuð úr sverðunum!

Í dag, 10 árum síðar, hefur herstöð verið breytt í nýsköpunar- og skólasamfélag. Hér búa um 2000 manns og yfir 700 manns starfa að Ásbrú.  
Í sprengjugeymslum æfa ungir Íslendingar ballett og danslist.  Í gömlum flugskýlum og viðgerðarverkstæðum hafa verið gerðar kvikmyndir og haldnar tónlistarhátíðir. Þau hýsa einnig vélbúnað Landhelgisgæslu og nýjan flugskóla Keilis, þar sem nemendur frá mörgum þjóðum sækja nám.

Húsnæði menntaskóla hersins hefur verið breytt í miðstöð vísinda,  fræða og atvinnulífs, undir nafni Keilis.  Reykjanesbær endurvakti grunnskólann og gaf honum heitið Háaleitisskóli. Tveir leikskólar eru reknir á svæðinu, Háaleiti og Völlur. Íbúðarhúsnæði hersins hefur einnig verið breytt í gististaði og hótel af bestu gerð. Vöruhús hersins hýsa nú m.a. rafræn gagnaver. Hér er risið þörungagróðurhús og um 50 frumkvöðlafyrirtæki eiga nú athvarf á svæðinu.  
Uppgangur þessa svæðis er erlendis tekinn sem dæmi um vel heppnaða umbreytingu  á varnarstöð, þar sem mörg önnur samfélög hafa staðið ráðþrota í sömu sporum. Við getum verið stolt af þessu nýjasta hverfi í Reykjanesbæ.“

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024