Talning ekki í samræmi við lög

Framkvæmd talningar atkvæða við kosningar til sveitarstjórnar í Reykjanesbæ þann 26. maí 2018 var ekki í samræmi við ákvæði í 1. málsgrein 76. greinar laga nr. 5/1998 um kosningar til sveitarstjórna. Þetta kemur fram í úrskurði vegna kæru Pírata á framkvæmd talningar í sveitarstjórnarkosningum í Reykjanesbæ.

Kæran er dagsett þann 31. maí 2018 og er borin fram af umboðsmönnum framboðslista Pírtata í Reykjanesbæ, þeim Albert Svan Sigurðssyni og Þórólfi Júlían Dagssyni. Í kærunni er vísað í bókun umboðsmanns fyrir hönd Pírata í gerðabók yfirkjörstjórnar Reykjanesbæjar þar sem segir að ekki hafi verið farið að lögum á kjörstað í Reykjanesbæ við umræddar kosningar. Ekki eru settar fram efnislegar kröfur í kærunni.

Þá er ekki byggt á því að talning atkvæða hafi ekki sýnt réttar niðurstöður. Af þeim sökum, og með vísan til 94. greinar laga nr. 5/1998 til sveitarstjórna, tekur nefndin ekki til athugunar hvort ógilda beri kosningarnar.

Einnig er tekið fram að jafnvel þó aðfinnslur yrðu mögulega gerðar við umrædda framkvæmd telji yfirkjörstjórn útilokað að þær gætu leitt til óglildingar kosninganna, sbr. 94. grein laganna.