Fréttir

Sumarnótt Antons
Fimmtudagur 30. júlí 2015 kl. 08:39

Sumarnótt Antons

-Grindvíkingur gefur út sitt fyrsta lag

Grindvíkingurinn Anton Guðmundsson gaf út sitt fyrsta lag á dögunum en hann byrjaði að gutla á gítar 10 ára gamall og þakkar það föður sínum sem hvatti hann áfram.

„Ég hef alltaf haft gaman að tónlist, allri tónlist og 12 ára gamlir stofnuðum við félagarnir skólahljómsveitina Bigalow en hún starfaði í 5 ár. Eftir það lágu leiðir okkar í sitthvora áttina en ég hef verið að fitka við að semja tónlist síðan þá," segir Anton og eru lögin hans orðin 40 talsins.

„Ég hef verið að semja tónlist í frítíma mínum og dunda við textasmíðar en þess má geta að afi minn var Guðmundur Böðvarsson skáld frá Kirkjubóli í Hvítársíðu. Ég las ljóðin hans sem barn og þar kviknaði áhugi minn á textasmíði.

Tónlist Antons er á íslensku og í þjóðlagastíl þar sem hann notar gítar og munnhörpu. Hann hefur fengið hvatningu til þess að taka lögin upp og setur Anton stefnuna á það að koma lögunum á framfæri. 

Fyrsta lagið heitir Sumarnótt og nú er hægt að nálgast það hér á tonlist.is.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024