Fréttir

Skoðað að einkavæða flugstöðina
Miðvikudagur 24. maí 2017 kl. 14:23

Skoðað að einkavæða flugstöðina

-Forstjóri Isavia segir óráðlegt að einkavæða einungis hluta rekstursins

Í áliti meirihlutans á fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar kemur fram að meirihluti fjárlaganefndar Alþingis vilji skoða hvort rétt sé að selja flugstöðina í Keflavík að hluta og nota peningana í endurbætur á vegakerfinu.

Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia, segir óráðlegt að einkavæða einungis hluta af rekstri Keflavíkurflugvallar eins og hugmyndir eru nú uppi um að gera. Hann segir betra að stíga skrefið til fulls eða að sleppa þessu með öllu, er fram kemur á Vísi. „Ef við horfum til útlanda getum við séð að Kaupmannahafnarflugvöllur er til dæmis einkavæddur og í eigu kanadískra aðila. Sumir setja svona flugvelli á markað og selja hlutabréf í honum. Þetta er dæmi um það sem menn hafa verið að gera. Ég ætla ekki að taka afstöðu til þess hvernig eigandi ætlar að stjórnar því,“ segir Björn.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Þá sagði Haraldur Benediktsson, formaður fjárlaganefndar, í þættinum Víglínan á Stöð 2 að ekki stæði til að einkavæða allan reksturinn í Keflavík. „Við erum bara að horfa á þetta verslunarhúsnæði í flugstöðinni sem ríkið hefur þarna ákveðið að reka. Getum við talað um að taka þá fjármuni sem þarna eru bundnir og breyta þeim í vegi og hafnir?“ sagði Haraldur.