Fréttir

Sandgerðingar furða sig á niðurstöðu Rögnunefndar
Þriðjudagur 30. júní 2015 kl. 21:03

Sandgerðingar furða sig á niðurstöðu Rögnunefndar

Bæjarráð Sandgerðisbæjar fundaði fyrr í dag og fjallaði m.a. um skýrslu starfshóps um flugvallarkosti á höfuðborgarsvæðinu, svo kallaðrar Rögnunefndar.
 
„Það vekur furðu bæjarráðs Sandgerðisbæjar að sameiginlegur stýrihópur ríkis, Reykjavíkurborgar og Icelandair Group hafi ekki haft núverandi millilandaflugvöll á Miðnesheiði sem einn þeirra valkosta sem var metinn við skoðun á flugvallarkostum á höfðuborgarsvæðinu.

Bæjarráð telur rétt að ef flytja á innanlandsflug úr Vatnsmýrinni liggi beint við að næst verði gerð nákvæm úttekt á því að flytja innanlandsflugið á núverandi alþjóðaflugvöll í stað þess að fara strax í að fullkanna flugvallarskilyrði í Hvassahrauni eins og stýrihópurinn leggur til.

Það er eðlileg krafa að slík úttekt sé gerð áður en hafist er handa við að reisa nýjan flugvöll frá grunni á svæði sem er einnig að hluta til á Suðurnesjum og einungis í um 15 mínútna akstursfjarlægð frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar í Sandgerði. Bæjaryfirvöld eru tilbúin til að eiga aðkomu að slíkri úttekt, enda stærstur hluti alþjóðaflugvallarins í landi Sandgerðisbæjar.

Bæjarráð telur rétt að fela starfandi bæjarstjóra að kalla eftir kynningu á efni skýrslu stýrihópsins fyrir sveitarstjórnarfólk í Sandgerðisbæ,“ segir í bókun bæjarráðs Sandgerðis.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024