Fréttir

Reykjanesið vinsælt undir gagnaver
Fimmtudagur 22. febrúar 2018 kl. 06:00

Reykjanesið vinsælt undir gagnaver

Jóhann Snorri Sigurbergsson, forstöðumaður viðskiptaþróunar hjá HS orku segir að gagnaver á Reykjanesi gætu tekið fram úr heimilum landsins á þessu ári þegar kemur að orkunotkun. Jóhann segir þetta í samtali við Vísir. Mikill uppgangur er í gagnaveituiðnaði hér á landi og eru fjölmörg fyrirtæki sem hafa sérhæft sig í svokölluðum námugreftri rafmynta leitast eftir því að byggja gagnaver hér á landi. Þar eru fyrirtækin að sækjast eftir grænni orku, náttúrulegri kælingu og góðri þjónustu.

Fjölmiðlar á borð við BBC og AP fréttaveitunnar hafa sýnt uppbyggingunni mikinn áhuga og hefur Jóhann rætt við þá miðla nýverið.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

„Útgáfa rafmynta á borð við Bitcoin og Ether byggir á hinni svokölluðu kubbakeðjutækni (e. blockchain technology). Um er að ræða eins konar dreifða skrá þar sem hægt er að sannreyna að allar upplýsingar innan hennar séu sannar og réttar. Þeim sem útvega nauðsynlegan tækjabúnað, eða eins og í tilfelli Genesis mörg þúsundir skjákorta og annan tölvubúnað, með mikla reiknigetu til að leysa flóknar stærðfræðiformúlur, er launað með nýjum rafmyntum fyrir aðstoð við útgáfu nýrra skráa.“ segir í frétt Vísis.

Uppbygging gagnaveranna er mjög ör að sögn Jóhanns og giskar hann á að þau verði komin upp í um hundrað megavatta aflnotkun í lok árs. Þetta sé þó gróflega reiknað og segir hann einnig að aukningin sé gríðarlega mikil og hefur þetta allt gerst mjög hratt. Það sé mikill áhugi fyrir gagnaverum á Íslandi og hefur áhuginn sprungið á síðustu mánuðum en HS orka tekur til að mynda við fjölmörgum fyrirspurnum um gagnaver. Uppbygging gagnaveranna hefur nánast verið öll á Suðurnesjum og þeim fylgja mörg störf. Núna fari að myndast sérhæfð og skapandi störf í kringum þessa starfsemi.

Ástæðan fyrir áhuganum á Reykjanesi segir Jóhann vera að HS veitur hafi einfaldlega staðið sig mjög vel í því að sinna þessum aðilum og hafa fundið lausnir sem henta þeim. Gott kynningarstarf Kadeco, þróunarfélags Keflavíkurflugvallar hefur einnig skilað árangri.