Ökumenn í slæmum málum

Óhætt er að segja að mennirnir tveir sem lögreglan á Suðurnesjum hafði afskipti af í vikunni hafi verið með ýmislegt óhreint í pokahorninu. Annar þeirra ók bifreið sem dró aðra bifreið og undir stýri í hinni síðarnefndu sat svo hinn maðurinn. Fyrir það fyrsta mældust þeir aka á allt of of miklum hraða. Þá höfðu báðir verið sviptir ökuréttindum áður. Enn fremur  voru þeir sterklega grunaðir um að hafa verið undir áhrifum áfengis og fíkniefna. Þeir voru því handteknir og færðir til sýnatöku á lögreglustöð.

Einn ökumaður til viðbótar var handtekinn og færður á lögreglustöð vegna gruns um fíkniefnaakstur.

Þá varð árekstur varð á Hringbraut í Keflavík í vikunni, þegar bifreið var ekið í veg fyrir aðra með þeim afleiðingum að þær enduðu á ljósastaur, gangbrautarljósum og vegvísi. Ökumennirnir voru einir í bifreiðunum og sluppu án meiðsla.

Áður hafði orðið umferðarslys á Njarðvíkurvegi þegar bifreið var ekið inn á frárein með þeim afleiðingum að hún hafnaði á ljósastaur. Ökumaðurinn slapp ómeiddur.