Logi Þormóðsson látinn

Logi Þormóðsson, fyrrverandi fiskverkandi og frumkvöðull, lést 20. okt. sl. 66 ára að aldri. Logi var atkvæðamikill atvinnurekandi á Suðurnesjum á sínum yngri árum og vakti athygli fyrir frumkvæði og nýjar hugmyndir í fiskvinnslu.

Logi Þormóðsson var fæddur 14. mars 1951. Hann fæddist í Málmey í Skagafirði og voru foreldrar hans síðustu ábúendur í eynni. Logi flutti ungur með foreldrum sínum til Keflavíkur og ólst þar upp sem einn af Bítlakynslóðinni. Logi varð mikill Keflvíkingur og unni bænum sínum og Suðurnesjunum mikið.

Hann fékkst við almenn störf til sjós og lands á Suðurnesjum, var talsvert til sjós á unglingsárum og vann í frystihúsum. Árið 1972 settist hann á skólabekk í Fiskvinnsluskólanum í Hafnarfirði og útskrifaðist árið 1975.

Logi stofnaði árið 1977 fyrirtækið Ístros með Eiríki Hjartarsyni en fjórum árum síðar, eða árið 1981, stofnaði hann fiskvinnslu- og útflutningsfyrirtækið Tros í Sandgerði sem hann rak í tuttugu ár með Bjargeyju Einarsdóttur, þáverandi konu sinni. Logi var einn af frumkvöðlum í útlflutningi á ferskum fiski.

Samhliða fyrirtækjarekstri tók Logi þátt í hinum ýmsu verkefnum og ber þar hæst stofnun og mótun Fiskmarkaðs Suðurnesja og Reiknistofu Fiskmarkaðanna.

Logi átti mörg áhugamál og lét ungur til sín taka í félagsmálum í bænum. Hann byrjaði snemma að spila bridge með góðum árangri. Á seinni árum áttu laxveiði og golf hug hans allan. Hann var stoltur meðlimur í Golfklúbbi Suðurnesja og lagði mikið að mörkum í uppbyggingu klúbbsins. Logi var félagi í Rotarýklúbbi Keflavíkur.

Árið 2000 fékk Logi alvarlegt tilfelli heilabólgu sem olli miklum heilaskaða. Eftir veikindin tók líf Loga miklum breytingum, bæði vinnulega og félagslega og var líf hans ákveðin þrautarganga eftir það.

Það var svo í nóvember 2016 sem hann greindist með lungnakrabbamein. Síðustu árum ævi sinnar eyddi hann með vinum og fjölskyldu í ágætis yfirlæti. Logi lést af völdum lungnakrabba á heimili sínu að Skógarbæ í Reykjavík 20. október s.l.

Logi var kvæntur Bjargeyju Einarsdóttur (skilin 2006) og saman áttu þau þrjú börn, Guðbjörgu Glóð, Gunnar og Ljósbrá. Fyrir átti Logi einn son, Steinbjörn.

Logi var kjörinn af Víkurfréttum „Maður ársins á Suðurnesjum“ árið 1996. Hér að neðan má sjá viðtali við Loga í Víkurfréttum í tengslum við þá útnefningu.

Viðtal við Loga í VF 1996.