Fréttir

Heyrnarlaus drengur fær ekki skólavist
Föstudagur 8. júní 2018 kl. 09:57

Heyrnarlaus drengur fær ekki skólavist

Ásmundur Friðriksson, alþingismaður, vakti í vikunni athygli Alþingis á stöðu drengs í Reykjanesbæ, Andra Fannars Ágústssonar, sem er heyrnarlaus og fær ekki skólavist.
 
„Heyrnarlaus drengur í Reykjanesbæ sem fermdist í vor fær hvergi skólavist næsta haust. Hann hefur stundað nám í Holtaskóla frá 1. bekk með litlu námsefni. Í fyrrahaust gat hann valið um eina nýja námsbók. Hann kann ekki íslensku. Nú er svo komið að enginn táknmálskennari fæst í skólann. 
 
Móðir drengsins hefur fundað með skólastjóra og fulltrúa Reykjanesbæjar og niðurstaða þeirra samtala var að best væri að senda drenginn í Hlíðaskóla í Reykjavík. Þegar haft var samband við Hlíðaskóla kom í ljós að drengurinn passaði ekki inn í módelið hjá þeim og best væri að hann kláraði sína skólagöngu í heimabyggð þar sem engan kennara er að hafa. 
 
Agndofa móðirin hafði sambandi við Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og viðraði þá hugmynd að hún sæi um að starfrækja þar lítinn skóla fyrir heyrnarlaus börn, hugsanlega fimm til átta börn sem eru á aldrinum átta til níu ára. Þar er fagfólk til staðar og faglærðir kennarar. Þar er fólk sem býr til námsefni og er besti kosturinn í stöðunni. Hugmyndinni var vel tekið en þau eru ekki í stakk búin og að sjálfsögðu þurfa svona mál að fara í gegnum menntamálaráðuneytið og Jöfnunarsjóður sveitarfélaga leggur til pening. En það vantar meira. 
 
Það er staðreynd að skólakerfið og við hér í þinginu höfum brugðist þessum hópi barna. Þau eru illa stödd námslega, lestrarlega og eru algjörlega félagslega einangruð í skólum sínum. Mörg þeirra skilja ekki íslensku og geta ekki lesið texta á sjónvarpi eða í bókum. Eins og staðan er í dag mun nýfermdur drengur í Reykjanesbæ ekki hefja skólagöngu veturinn 2018–2019. Skólar ýmist vilja ekki eða geta ekki tekið við honum. Þrátt fyrir góðan vilja menntamálaráðherra í þessum málum eru enn heyrnarlaus börn sem kunna ekki móðurmál foreldra sinna á Íslandi. Það er skömm okkar allra,“ sagði Ásmundur Friðriksson á alþingi í vikunni.
Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024