Hafna allt að sjötíu 44-66 fermetra íbúðum

Umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar hefur hafnað fyrirspurn um hvort heimilt sé að fjölga íbúðum við Tjarnabraut 2-4 í Innri Njarðvík. Jafnframt vildu umsækjendur minnka íbúðirnar og bjóða upp á 44-66 fermetra íbúðir.

147 ehf. lagði inn fyrirspurn um heimild til að breyta skipulagi lóðanna Tjarnabraut 2-4 á þann hátt að þar verði byggð fjölbýlishús með minni íbúðir, 44-66 fermetrar í bland, í stað þeirra bygginga sem samþykktar voru árið 2006. Áætlað er að samtals verði byggðar 60-70 íbúðir á lóðunum í þriggja hæða húsum.

Jafnframt er óskað eftir því að færa byggingarreit þremur metrum innar á lóðina til að hægt verði að fjölga bílastæðum þannig að a.m.k. eitt stæði verði fyrir hverja íbúð. Húsin eru samkvæmt deiliskipulagi af gerðinni D1 með 14-15 íbúðum og D2 með 10-11 íbúðum. Alls 24-26 íbúðir í 2-3 hæða fjölbýlishúsum við lífæð. Gert er ráð fyrir 1,8 bílastæðum á íbúð í skipulagi með möguleika á innbyggðum bílageymslum fyrir allt að helming íbúða.

Skipulag kveður ekki á um stærðir íbúða en leyfilegt byggingamagn og fjöldi íbúða sem óskað er eftir leiðir af sér að allar íbúðir yrðu á bilinu 50-60m2.

Umhverfis- og skipulagsráð segir í afgreiðslu sinni að það veiti ekki heimild til svo mikillar fjölgunar íbúða á lóð og byggingu fjölbýlishúsa af svo einsleitri íbúðagerð. Erindinu var því hafnað.