Fréttir

Grænuborgarhverfi í Vogum byggt upp á 10 árum
Horft yfir hluta byggðarinnar í Vogum. Götur í Grænuborgarhverfi í baksýn. VF-mynd: Hilmar Bragi
Föstudagur 19. janúar 2018 kl. 09:54

Grænuborgarhverfi í Vogum byggt upp á 10 árum

- Þrotabú hefur samþykkt kauptilboð í byggingalandið

Svo gæti farið að svokallað Grænuborgarhverfi í Vogum byggist upp á næstu árum. Fyrir liggur samþykkt kauptilboð í Grænuborgarsvæði og hafa kaupendur lagt fram drög að samkomulagi við Sveitarfélagið Voga varðandi uppbyggingu og deiliskipulag svæðisins.
 
Bæjarráð Voga hefur tekið jákvætt í fyrirliggjandi samningsdrög, og fellst almennt á þær hugmyndir sem þar koma fram um breytingu á deiliskipulagi og áfangaskiptingu uppbyggingarinnar. Hefur bæjarstjóra og lögmanni sveitarfélagsins verið falið að vinna áfram að málinu, í samstarfi aðila. 
 
Grænuborgarsvæðið hefur verið í eigu þrotbús, en fyrirtækið sem átti byggingalandið á sínum tíma fór í þrot. Byrjað var á gatnagerð á árunum fyrir hrun. Engar lagnir voru komnar, einungis búið að jarðvegsskipta.

„Nú eru aðilar komnir til sögunnar sem hafa gert kauptilboð í landið, og þrotabúið hefur samþykkt. Þessa dagana standa yfir viðræður þessara kaupenda og sveitarfélagsins um hraða uppbyggingarinnar, sem og breytingu á deiliskipulaginu, einkum er gert ráð fyrir að fjöldi íbúða og samsetning íbúðategunda breytist. Áformin eru um að byggja þetta upp á 10 árum,“ segir Ásgeir Eiríksson, bæjarstjóri í Vogum, við fyrirspurn Víkurfrétta. Hann telur málið muni skýrast nú í janúar en fundað verður um málið á næstu dögum.
Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024