Fótbrotinn tveggja og hálfs árs sendur heim af HSS með teygjusokk

-„Héðan í frá fer ég ekki á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja,“ segir móðir drengsins

Hinn tveggja og hálfs árs gamli Gabriel var sendur heim af bráðamóttöku Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja fyrr í vikunni, en móðir hans hafði leitað þangað í kjölfar þess að Gabriel datt þegar hann var að dansa með systur sinni. Gabriel var fótbrotinn en var sendur heim með teygjusokk um fótinn.

„Ég fór með hann á HSS um kvöldmatarleyti. Þar þurftum við að bíða svolítið lengi svo ég ákvað að bíða með þetta til morguns, þar sem hann kvartaði ekkert og grét ekki. Morguninn eftir var fóturinn orðinn mun bólgnari svo við fórum strax á bráðamóttökuna. Þar leit læknir á hann sem sagði að það væri ólíklegt að hann væri brotinn, honum var gefinn teygjusokkur og við send heim,“ segir móðir Gabriels, Beata Turowska.


Fæturnir á Gabriel þegar hann var sendur heim af HSS með teygjusokk.

Hún ákvað í kjölfarið að fara með hann til Reykjavíkur á Landspítalann þar sem Gabriel var sendur beint í röntgenmyndatöku og í ljós kom sprunga í beini. Hann var þá settur í gips sem hann á að hafa næstu tvær vikurnar.

„Ég væri ekki svona reið ef þetta væri ekki að gerast í annað sinn,“ segir Beata, en í fyrra lenti hún í svipuðum aðstæðum á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Þá handleggsbrotnaði Gabriel, en læknirinn þar taldi það ólíklegt að hann væri handleggsbrotinn þar sem hann kveinkaði sér ekki. Engin röntgenmynd var tekin þá heldur. Þau leituðu svo aftur á spítalann tveimur dögum síðar og þá kom það í ljós að Gabriel var í raun og veru handleggsbrotinn og var settur í gips í sex vikur. „Ég vona að það séu ekki fleiri sem lenda í svona. Héðan í frá fer ég ekki á HSS.“