Eru leiðandi í heiminum í ræktun á örþörungum

- Aðstæður á Íslandi hentugar fyrir örþörungaræktun

Líftæknifyrirtækið Algalíf er fyrirtæki sem ræktar örþörunga og úr þeim er búið til fæðubótaefni sem kallað er Astaxanthin. Algalíf hóf starfsemi sína árið 2013 á Ásbrú en fyrirtækið hefur verið að stækka frá fyrsta degi og er við það að ná fullri stærð. Nú hefur Algalíf fest kaup á núverandi húsakynnum fyrirtækisins á Ásbrú í Reykjanesbæ en áður leigði félagið húsakostinn af Þróunnarfélagi Keflavíkurflugvallar. Með kaupunum kemur til Íslands ný erlend fjárfesting upp á 350 milljónir en norskir eigendur fyrirtækisins hafa þegar fjárfest rúmlega þremur milljörðum króna í fyrirtækinu. Kaup á húsnæðinu festir starfsemi fyrirtækisins á Íslandi enn frekar í sessi en Algalíf er leiðandi í heiminum í ræktun á örþörungum og framleiðslu virkra efna úr lífmassa þeirra.

Kuldinn er kostur
Hjá Algalíf fer ræktunin fram innandyra þar sem hægt er að stjórna öllum mikilvægustu ræktarskilyrðunum og er framleiðslan í gangi allan sólahringinn, allt árið um kring. Ræktunarkerfin þeirra eru sérsmíðuð og lögð er mikil áhersla á gæðamál og smitvarnir en fyrirtækið er líftækniverksmiðja með lyfjaframleiðsluviðmið. Við hittum Orra Björnsson framkvæmdastjóra Algalíf og fengum hann til að segja okkur frá fyrirtækinu. „Það eru 34 starfsmenn hjá okkur eins og er og ætli að meirihlutinn sé ekki sérfræðingar, þeir sem eru í framleiðslunni hjá okkur eru líka sérfræðingar því þetta er það flókið ferli“, segir Orri. Hugmyndin að fyrirtækinu kemur frá Noregi en Orri segir að efnið sé þannig séð þekkt en að hugmyndin hafi alltaf verið frá upphafi að fara til Íslands, vegna þess að hér eru aðstæður nokkuð góðar fyrir ræktunina og að Ísland sé ákjósanlegur staður fyrir slíka ræktun vegna kuldans. „Það er gott að hafa tiltölulega lágt hitastig og frekar jafnt, það er kannski plús tuttugu mínus tíu á meðan í Skandinavíu þá förum við í mínus og plús þrjátíu. Hér er mun þægilegra að stýra hitanum.“

Húsnæði Algalíf á Ásbrú.

Nálægðin við flugvöllinn mikilvæg
Vegna hitans eða kuldans, mætti segja lifa færri þörungar hér á Íslandi, þó svo að þeir séu hér í loftinu eins og alls staðar annars staðar, þeir eru bara í minna magni hér. Algalíf er eins og áður hefur komið fram nýsköpunarfyrirtæki í líftækni, fyrirtækið hefur verið að búa til nýja hluti, finna upp nýjar aðferðir og ætlar að halda því áfram. Þegar Orri er spurður að því hvers vegna fyrirtækið sé staðsett á Ásbrú, segir hann að fyrir fimm árum hafi verið nægt pláss á Ásbrú. „Okkur bauðst til þess að koma inn í þessar byggingar og gera langtímaleigusamning og það skiptir miklu máli. Við erum líka nálægt flugvellinum sem er gott, við flytjum allar vörur okkar með flugi og það tekur ekki nema fimm mínútur að keyra efninu upp í flugvél sem er mikill kostur. Við fengum líka forkaupsrétt á bygginguna sem er mjög gott en það er erfitt að flytja þegar það er búið að byggja verksmiðjuna og við vorum að ganga frá kaupum á húnsæðinu fyrir stuttu síðan.“

Reksturinn gengur vel
Algalíf er með stutt kolefnaspor, en til að rækta þörunginn fyrir fæðubótarefnið Astaxanthin þarf hreint vatn, hreint loft, mikið af áburði, koltvísýring og ljós, Orri segir að ferlið sé því svipað og að rækta plöntur. Við spurðum Orra hvort að Ísland uppfylli öll þau skilyrði sem þarf til að rækta þörunginn. „Já aðstæður eru góðar fyrir okkar þörung, hitastigið og hreinleikinn í loftinu í umhverfinu er jákvæður hlutur. Vatnið er líka mjög gott.“ Reksturinn hefur gengið vel hjá Algalíf en það hefur þó gengið á ýmsu að sögn Orra en í dag gengur vel, salan er góð ásamt framleiðslunni.

Hvað er framundan hjá ykkur?
„Það er næsti þörungur, við erum byrjuð að rækta á mjög litlum skala tvær nýjar tegundir og innan tveggja til þriggja ára vonast ég til þess að við getum hafið framleiðslu sem við getum svo selt.“

Er þetta framtíðin?
„Fyrir marga er þetta framtíðin, þetta er ein ný grein sem getur orðið að stórri grein á Íslandi og aukið fjölbreytni í atvinnulífinu.“