Fréttir

Enn er bið eftir loðnu í Helguvík
Loðnuskip í Helguvík síðasta vetur. VF-mynd: Hilmar Bragi
Mánudagur 12. febrúar 2018 kl. 12:12

Enn er bið eftir loðnu í Helguvík

Lítill loðnukvóti veldur því að menn halda að sér höndum við veiðar og vinnslu á loðnuafurðum. Enn hefur engin loðna borist til Helguvíkur á þessari vertíð en undanfarin ár hefur loðnubræðsla hafist í Helguvík um og uppúr 20. febrúar.
 
Eggert Ólafur Einarsson, verksmiðjustjóri Síldarvinnslunnar í Helguvík, segir lítið um að vera í verksmiðjunni í Helguvík þessa dagana og þar bíði menn bara átekta. Loðnan er núna við Stokksnes þar sem örfá íslensk skip eru að veiðum. Norsku skipin eru svo norður af Langanesi á loðnuveiðum.
 
Loðnugangan var mæld 850.000 tonn en útgefinn kvóti er aðeins 285.000 tonn. Það þýðir að menn bíða með veiðar þar til hrognafylling er orðin nægileg þannig að sem mest verðmæti fáist út úr vertíðinni.
 
Eggert Ólafur sagði að hann hefði viljað sjá kvótann í 400.000 til 450.000 tonnum miðað við mælingar.

Þegar loðnubræðslan fer í gang í Helguvík sé hún yfirleitt starfrækt í rétt rúman mánuð við framleiðslu á lýsi og mjöli.
Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024