Fréttir

Elenora Rós er maður ársins 2017 á Suðurnesjum
Elenora Rós Georgesdóttir er maður ársins 2017 á Suðurnesjum að mati Víkurfrétta. Víkurfréttamynd: Sólborg Guðbrandsdóttir
Miðvikudagur 24. janúar 2018 kl. 08:51

Elenora Rós er maður ársins 2017 á Suðurnesjum

Elenora Rós Georgesdóttir er maður ársins 2017 á Suðurnesjum að mati Víkurfrétta. Elenora er 17 ára gömul og er bakaranemi við Menntaskólann í Kópavogi en hún byrjaði að baka kökur og selja þær þann 6. desember 2016. Elenora Rós helgaði árið 2017 því verkefni að baka kökur og selja. Ágóðann af sölunni, um hálfa milljón króna, afhenti hún Barnaspítala Hringsins í lok síðasta árs. 
 
Elenora er sjálf með meðfæddan sjúkdóm og hefur því dvalið töluvert á Barnaspítala Hringsins í gegnum tíðina. Vegna þessa vildi hún gefa til baka. „Það tók mig eitt ár að safna þessum pening og ég labbaði út af spítalanum með tárin í augunum. Mér finnst Barnaspítalinn svo innilega hlýr staður og ég get ómögulega lýst tilfinningunni þegar ég knúsaði Hringskonur með bros á vör og þær þökkuðu mér fyrir.“ 
 
Páll Ketilsson, ritstjóri Víkurfrétta, sagði þegar hann tilkynnti Elenoru um tilnefninguna að hún væri glæsileg fyrirmynd ungs fólks, léti drauma sína rætast um leið og hún léti gott af sér leiða.
 
Í Víkurfréttum í þessari viku er viðtal við Elenoru og hún er einnig viðfangsefni okkar í Suðurnesjamagasíni sem sýnt verður á fimmtudagskvöld á Hringbraut og vf.is kl. 20:00.

 
Elenora Rós og Páll Ketilsson, ritstjóri Víkurfrétta.  Þetta er í 28. sinn sem Víkurfréttir velja mann ársins á Suðurnesjum.
Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024