Fréttir

Einar eða Kjartan næsti bæjarstjóri Reykjanesbæjar
Þriðjudagur 29. júlí 2014 kl. 11:04

Einar eða Kjartan næsti bæjarstjóri Reykjanesbæjar

Ákvörðun tekin í vikunni

Næsti bæjarstjóri Reykjanesbæjar verður annaðhvort Einar Hannesson eða Kjartan Már Kjartansson. Samkvæmt áræðanlegum heimildum Víkurfrétta eru oddvitar í meirihluta að gera upp við sig um hvor þeirra skuli hljóta stuðning nýkjörins meirihluta fyrir fund bæjarráðs á fimmtudag.

Ekki liggur fyrir ákvörðun samkvæmt því sem Víkurfréttir komast næst, en ákvörðunin ætti að liggja fyrir í dag eða á morgun en gerð opinber á fundi bæjarráðs á fimmtudag. Þeir Guðbrandur Einarsson oddviti Beinnar leiðar, Friðjón Einarsson oddviti samfylkingar og Gunnar Þórarinsson oddviti hjá Frjálsu afli liggja núna undir feld og ráða ráðum sínum ásamt sínu fólki. Víkurfréttir hafa verið í sambandi við oddvitana en þeir segja líklegt að málið leysist innan skammst.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Einar Hannesson er með B.Sc. gráðu í iðnaðartæknifræði frá Tækniháskóla Íslands og MBA gráðu frá Háskóla Íslands með áherslu á fjármál og rekstrarstjórnun. Kona Einars er frá Reykjanesbæ en fjölskyldan hefur verið búsett hér síðustu tíu ár. Einar er útibússtjóri Landsbankans á Suðurnesjum en áður var hann sparisjóðsstjóri SpKef og forstöðumaður hjá IGS í flugstöð Leifs Eiríkssonar.

Kjartan Már Kjartansson frá Reykjanesbæ. Framkvæmdastjóri Securitas á Suðurnesjum. Fyrrum bæjarfulltrúi í Reykjanesbæ og starfsmanna- og gæðastjóri. Hann skipaði fyrsta sæti lista Framsóknarflokksins í Reykjanesbæ fyrir bæjarstjórnarkosningar árið 2002. Fyrrum forstöðumaður verslanasviðs Samkaupa. Kjartan Már lauk MBA prófi frá Háskóla Íslands árið 2002.