Bláa Lónið fær gríðarlegt magn skilaboða í gegnum samfélagsmiðla

-Ferðaþjónustuaðilar nýta sér samfélagsmiðla í miklum mæli

Samfélagsmiðlar eru í verulegu hlutverki í markaðssetningu ferðaþjónustufyrirtækja á Suðurnesjum. Atli S. Kristjánsson í markaðsdeild Bláa Lónsins segir að þessir miðlar séu afar mikilvægir fyrir fyrirtækið sem útlendingar sækja heim að lang mestu leyti.
Atli var með erindi á fræðslufundi Atvinnuþróunarfélagsins Heklunnar og Kaupfélags Suðurnesja nýlega ásamt Gunnari Herði Garðarssyni frá Markaðsstofu Reykjaness en fundarefnið var hvernig þeir nota samfélagsmiðla í starfi sínu og hvaða árangri það hafi skilað.

Atli sagði að starfsmenn í markaðsdeild Bláa Lónsins fylgist vel með öllum helstu samfélagsmiðlum en baðstaðurinn er gríðarlega vinsælt viðfangsefni fólks sem sækir staðinn en aukin áhersla hefur verið lögð á þjónustu. „Við fáum gríðarlega mikið magn skilaboða og spurninga í gegnum samfélagsmiðla og reynum að bregðast við þeim hratt og vel,“ sagði Atli.

Gunnar Hörður tók yfir samfélagsmiðla Markaðsstofu Reykjaness fyrr á þessu ári auk þess að sinna markaðsverkefnum sem snúa að ferðaþjónustu. Markaðsstofan sem sinni ýmsum málum fyrir ferðaþjónustuna á Suðurnesjum notar m.a. samfélagsmiðla til að koma svæðinu á framfæri þó markaðsfé sé af skornum skammti. Það sé m.a. gert þannig að spjótunum er beint að vissum hópum, til dæmis vinsælum „instagrömurum“. Gunnar sagði að áhugi ferðamanna fyrir Reykjanesinu hafi aukist verulega og aukning heimsókna þeirra væri nokkur.

Gunnar H. Garðarsson frá Markaðsstofu Reykjaness.