Fréttir

  • Áhersla á gróða og arðsemi
  • Áhersla á gróða og arðsemi
Fimmtudagur 17. apríl 2014 kl. 20:08

Áhersla á gróða og arðsemi

- misstu sjónar af upprunalegu hlutverki Sparisjóðanna

Umfangsmikil skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls sparisjóðanna kom út í síðustu viku. Skýrslunnar hafði verið beðið lengi og með nokkurri eftirvæntingu, enda vonuðust margir til þess að skýrslan myndi varpa ljósi á þá atburði sem urðu sparisjóðunum að falli. Þegar skýrslan er skoðuð kemur bersýnilega fram að ýmsar brotalamir hafi verið í áhættustýringu sparisjóðanna og hafi henni í raun verið ábótavant. Áhættusókn hafi í raun leitt til falls sparisjóðanna. Ljóst er að sparisjóðirnir töpuðu gríðarlegum fjármunum á kostnað skattgreiðenda, eða hátt á fjórða tug milljarða króna. Langstærsti hlutinn af því kemur til vegna Sparisjóðsins í Keflavík.

Í skýrslunni er farið yfir helstu niðurstöður rannsóknarinnar, þar á meðal starfs- og lagaumhverfi sparisjóðanna, útlán, fjárfestingar, stofnfjáraukningar, arðgreiðslur og fjárhagslega endurskipulagningu þeirra. Flestum ber saman um að skýrslan hafi ekki boðið upp á neinar afgerandi niðurstöður aðrar en þær að 21 mál mun fara fyrir ríkissaksóknara. Þau ákvæði sem málin snerta geta öll varðað fangelsisrefsingu. Rannsóknarnefndin tók þá ákvörðun að nafngreina ekki viðkomandi aðila né fara nánar út í atvik mála í skýrslunni. En það mun væntanlega koma fram síðar.

Þegar umsvif Sparisjóðsins í Keflavík voru mest, í lok árs 2008, hafði hann 17 afgreiðslustaði víðs vegar um landið; sex á Suðurnesjum að höfuðstöðvum meðtöldum, átta á Vestfjörðum og einn á Hvammstanga, á Ólafsvík og í Borgartúni í Reykjavík. Sparisjóðurinn virðist hafa fjarlægst upphaflegt hlutverk sitt, sem var að efla atvinnulíf og ávaxta sparifé almennings á Suðurnesjum. Hagnaður virtist hafa verið hafður að leiðarljósi og eftirlit með starfsemi sjóðsins í algjöru lágmarki á síðustu starfsárunum.



Eftirlit stjórnar í algjöru lágmarki og stjórnun sparisjóðsins í höndum sparisjóðsstjóra

Í skýrslunni er fjallað um ýmis félög og einstaklinga sem áttu stórtæk viðskipti við Sparisjóð Keflavíkur. Einnig er greint frá lánveitingum sem veitt voru til starfsmanna, en í skýrslunni er umfjöllun um stærstu lántakendur Sparisjóðsins í Keflavík frábrugðin umfjöllun um aðra sparisjóði sem teknir voru yfir af Fjármálaeftirlitinu, en þar liggja ekki fyrir upplýsingar um mat á útlánum við fall þeirra. Þegar Fjármálaeftirlitið tók yfir Spkef árið 2010 voru heildarútlán starfsmanna 1.520 milljónir króna, þar af milljarður í erlendri mynt. Þeir tíu starfsmenn sem skulduðu mest hjá Spkef skulduðu samtals tæplega 1,1 milljarð króna eða 72 prósent af öllum lánum til starfsmanna. Það vekur athygli að hjá Sparisjóðnum í Keflavík voru ekki til neinar skriflegar viðmiðunarreglur um fríðindi starfsmanna né eftirlit með þeim. Vettvangskönnun Fjármálaeftirlitsins árið 2008 leiddi í ljós að í Sparisjóðnum í Keflavík voru ekki til neinar formlegar innri reglur eða ferlar varðandi áhættustýringu, svo sem áhættuviðmið, skilgreining á verkefnum áhættustýringar, verklag vegna lána í tapsáhættu, verklag ef frávik eru á tryggingum útlána og verklag við tengingar milli lánþega í tengslum við stórar áhættuskuldbindingar. Jafnframt voru engar innri reglur til um álagspróf, gerð þeirra, tíðni, úrvinnslu eða eftirfylgni. Niðurstöður skýrslu Fjármálaeftirlitsins voru á þá leið að frumkvæði og eftirlit stjórnar virtist vera í algjöru lágmarki og stjórnun sparisjóðsins að mestu í höndum sparisjóðsstjóra.

Breyttar línur í arðgreiðslum

Sparisjóðurinn í Keflavík greiddi stofnfjárhöfum arð af stofnfé þeirra milli áranna 2001–2007. Arðgreiðslurnar námu samtals rúmum 3,9 milljörðum króna, þar af voru 2,8 milljarðar króna vegna ársins 2007. Greiðsla arðs á þessu tímabili var í samræmi við reglur Tryggingasjóðs sparisjóða, en hin háa greiðsla vegna 2007 kallar á sérstaka umfjöllun, að því er kemur fram í skýrslunni.
Í skýrslunni segir að ljóst hafi verið að ný stefna hvað snerti arðgreiðslu hafi verið tekin upp árið 2007. Á stjórnarfundi í  nóvember 2007 var lagt til að hagnaði ársins yrði varið til greiðslu arðs og nýttar verði aðrar heimildir eftir því sem lög og reglur leyfa. Á fundi stofnfjáreigenda skömmu síðar lagði Þorsteinn Erlingsson, stjórnarformaður Sparisjóðsins í Keflavík, til að stjórn sparisjóðsins skyldi stefna á að auka stofnfé fyrir áramót og greiða hærri arð en áður. Þannig myndi hlutdeild stofnfjáreigenda í heildar eigin fé aukast.

Á sama fundi gerði Geirmundur Kristinsson sparisjóðsstjóri grein fyrir tillögu stjórnar um að henni yrði veitt heimild til að auka stofnfé umtalsvert. Samþykkt var að leggja fram á aðalfundi tillögu um arðgreiðslu til stofnfjáraðila upp á kr. 3,3 milljarða. Það jafngildir um það bil 25% arði á stofnfé. Þessi tillaga var svo ítrekuð og samþykkt á næsta stjórnarfundi. Aðstoðarforstjóri Fjármálaeftirlitsins hafði samband við sparisjóðsstjóra símleiðis í kjölfarið og óskaði eftir upplýsingum um útreikning á arðgreiðsluhlutfallinu. Þar kom m.a. fram að samkvæmt lauslegum útreikningum Fjármálaeftirlitsins var raunarðsemi ársins 2007 hjá sparisjóðnum 8,2%. Beðið var um skýringar á því hvernig 25% arðgreiðsluhlutfallið var fundið. Ekki hvíldi lagaleg skylda á Fjármálaeftirlitinu að hafa eftirlit með arðgreiðslum sparisjóða. Þetta var eina skiptið sem Fjármálaeftirlitið hafði afskipti af arðgreiðslu hjá sparisjóði og um frekari eftirfylgni eða aðgerðir var ekki að ræða.

Óhófleg bjartsýni í útlánum og hirðuleysi við innheimtu

Í september 2008 lagði Fjármálaeftirlitið fram skýrslu um útlánaáhættu, markaðsáhættu og eftirlit með peningaþvætti hjá Sparisjóðnum í Keflavík. Í niðurstöðum skýrslunnar sagði að útlánasafn sparisjóðsins væri almennt nokkuð vel dreift en gæði þess væru vafasöm. Vanskil væru í lágmarki en væru þó að aukast, lán til venslaðra aðila væru umtalsverð og 90% útlána með veði í hlutabréfum væru tryggð með veði í óskráðum hlutabréfum. Fyrirséð væru útlánatöp vegna ofmats á verðmæti félaga, óhóflegrar bjartsýni í útlánum og hirðuleysi við innheimtu lána. Tryggingaþekja sparisjóðsins vegna lána með veði í hlutabréfum Icebank hf. og stofnfjárbréfum sparisjóðsins var talin óviðunandi. Þá væru veð sparisjóðsins í fasteignum í mörgum tilvikum léleg og haldbærar tryggingar almennt of lágar. Var það meðal annars talin afleiðing þess að regluverk sjóðsins væri í ólestri og þá sérstaklega hvað varðaði áhættustýringu. Einnig var bent á að mikilvægt væri að settar yrðu reglur um mat á afskriftum og skjalfest stefna um hlutfall útlána til einstakra atvinnugreina. Þá virtist Fjármálaeftirlitinu sem stjórn sparisjóðsins hefði ekki sinnt eftirlitshlutverki sínu með rekstri sjóðsins á fullnægjandi hátt.

Starfsmenn fóru út fyrir lagaheimildir

Frá miðju ári 2005 og fram til ársins 2007 var ekki að finna ítarlega umfjöllun innri endurskoðanda um útlán Sparisjóðsins í Keflavík í fundargerðum stjórnar sjóðsins. Rannsóknarnefndin fékk ekki afhentar skýrslur innri endurskoðunar fyrir árin 2005 og 2006. Á fundi stjórnar sparisjóðsins í október 2007 fór innri endurskoðandi yfir þau útlán sem námu meira en 70 milljónum króna á fyrstu sex mánuðum ársins 2007. Í fjögur skipti af 21 hafði starfsmaður farið út fyrir lánaheimildir sínar án þess að fyrir lægi skýring í afgreiðslukerfi sparisjóðsins þó að skýringar hefðu fengist við eftirgrennslan. Þá var hlutverk lánanefndar óljóst en aðeins fjögur af 21 láni umfram 70 milljónir króna hafði farið fyrir lánanefnd. Skoðun á útlánum með veði í hlutabréfum sýndi að heildarstaða þeirra væri um 3.473 milljónir króna en þar af væri tryggingavöntun 761 milljón króna. Þá vakti innri endurskoðun athygli á hversu lítill hluti vanskila væri kominn í lögfræðiinnheimtu. Einstakir aðilar voru jafnframt taldir vera með mjög slæma tryggingarstöðu.

Innra eftirlit ómarkvisst

Fyrrum forstöðumaður innri endurskoðunar Sparisjóðsins í Keflavík, Eyrún Jana Sigurðardóttir, segir í skýrslu sinni fyrir rannsóknarnefndinni að verkefni deildarinnar hafi verið óljós er hún hóf störf. Hún var reglulega kölluð á stjórnarfundi og sat sparisjóðsstjóri þá fundi er hún kynnti niðurstöður sínar. Taldi hún óeðlilegt að sparisjóðsstjórinn Geirmundur Kristinsson sæti alla stjórnarfundi og ekki hafi verið nægjanlegur aðskilnaður milli starfa sparisjóðsstjóra og eftirlitshlutverks stjórnar. Tilkynnt var um ætluð brot á reglum sparisjóðsins á stjórnarfundi, þar sem sparisjóðsstjóri fékk að koma sínum sjónarmiðum að, en hvorki fengust viðbrögð frá stjórninni, né vissi forstöðumaðurinn til þess að stjórn hefði unnið eitthvað með athugasemdirnar. Annar forstöðumaður innri endurskoðunar í Sparisjóðnum, Halldóra Guðrún Jónsdóttir, segir aðspurð um viðhorf stjórnenda og stjórnar til innra eftirlits árið 2007, að áhugaleysi hafi ríkt um innri endurskoðun og regluvörslu. Ekki hafi verið áhugi á að ráða inn öflugt fólk til að efla þessi starfssvið. Taldi hún að veikleikar hefðu verið í eftirlitsumhverfi sparisjóðsins. Stjórn sparisjóðsins hefði ekki sinnt eftirlitshlutverki sínu, ekki spurt réttra spurninga og stjórnarmenn hafi verið misjafnlega hæfir til stjórnarsetu. Hún taldi að forstöðumenn hefðu haft mikið svigrúm til sinna starfa og skort hafi eftirlit með störfum þeirra. Áherslur í starfi stjórnar hafi ekki verið í takt við tímann og hafi ekki haldið í við breytingar á regluverki síðustu ára.

Skýrslan er afar umfangsmikil og hér að ofan er stiklað á stóru um málefni Sparisjóðsins í Keflavík. Við lestur skýrslunnar má sjá að óvarlega var farið og eftirlit og gagnsæi nánast ekkert undir það síðasta. Ekki er ólíklegt að af 21 máli sem ratað hefur á borð sérstaks saksóknara, snúi einhver þeirra að starfsmönnum, stjórnarmönnum eða stjórnendum Sparisjóðsins í Keflavík. Þannig verður fall þessa hornsteins í samfélagi Suðurnesjamanna krufið til mergjar að lokum. Sparisjóðirnir voru farnir að haga sér eins og hinir einkareknu bankarnir. Þeir áttu erfiðara með að fóta sig í því alþjóðlega starfsumhverfi og regluverki sem hinir viðskiptabankarnir voru að fylgja. Ljóst er að draga má lærdóm af skýrslunni en svo virðist sem ótal viðvörunarbjöllur hafi hringt áður en staðan varð eins slæm og raun bar vitni. Á þær var hins vegar ekki hlustað.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024