Áfram aðhald hjá nýrri bæjarstjórn

-Ný bæjarstjórn á fyrsta fundi í Reykjanesbæ. Kjartan Már áfram bæjarstjóri

Ný bæjarstjórn Samfylkingar og óháðra, Framsóknarflokks og Beinnar leiðar tók við stjórnartaumum í bæjarstjórn Reykjanesbæjar sl. þriðjudag en þá fór fram fyrsti fundur eftir sveitarstjórnarkosningar. Nýr forseti bæjarstjórnar, Jóhann Friðrik Friðriksson, oddviti Framsóknarflokks, stýrði fundinum sem var fjörlegri og lengri en margir áttu von á en fulltrúar minnihlutans ræddu ýmis mál sem mætti fara í en viðbrögð bæjarstjóra og formanns bæjarráðs voru þannig á fundinum að halda yrði áfram fast um budduna.

Friðjón Einarsson verður áfram formaður bæjarráðs og hann sagði eftir að Sjálfstæðismenn og Gunnar Þórarinsson frá Frjálsu afli höfðu sagt að það þyrfti að skoða betur ýmis mál eins og strætókerfi og íþróttamannvirki að mikilvægt væri fyrir nýja bæjarstjórn að framfylgja aðlögunaráætlun. Í henni sé ekki mikið svigrúm til framkvæmda sem ekki hefur verið gert ráð fyrir. Í aðlögunaráætlun þurfi að vera búið að koma skuldaviðmiði niður í 150% fyrir árslok 2022.

„Það er ekki mikið svigrúm því í aðlögunaráætlun er búið að gera ráð fyrir meira en 90% af tekjum bæjarins. Þess vegna verðum við að fara varlega,“ sagði Friðjón.

Fulltrúar minnihlutans ræddu einnig um að fasteignaskattar væru háir í Reykjanesbæ en svar meirihlutans var á þá leið að svo væri ekki og  framundan væri t.d. 300 milljóna króna lækkun fyrir bæjarsjóð þegar útsvar lækkar um næstu áramót.

Umræður voru annars góðar og bæjarfulltrúar sem fóru í pontu sammála um að það væri nokkuð mikill samhljómur í áherslum allra framboða. Guðbrandur Einarsson, oddviti Beinnar leiðar og reyndasti bæjarfulltrúi þessarar bæjarstjórnar greindi frá því að kosningaþátttaka hafi verið minnst í Reykjanesbæ eða 57%. Guðný Birna Guðmundsdóttir, bæjarfulltrúi (S) sagði að það væri eitt af málum sem framtíðarnefnd, ein af þremur nýjum nefndum bæjarins, muni skoða auk fleiri mála eins og málefna í Helguvík.

Nýr meirihluti hefur samið við Kjartan Má Kjartansson, bæjarstjóra, um áframhaldandi störf. Á þessum fyrsta fundi var kosið í nefndir. Stærsta nefndin er bæjarráð og í henni eru þrír fulltrúar úr meirihlutanum, þeir Friðjón Einarsson, Samfylkingu, Guðbrandur Einarsson, Beinni leið og Jóhann Friðrik Friðriksson, Framsóknarflokki. Frá Sjálfstæðisflokki kemur Margrét Sanders og fimmti í ráðinu er Gunnar Þórarinsson, Frjálsu afli. Jóhann Friðrik var kjörinn forseti bæjarstjórnar og mun sinna því fyrstu tvö árin en Guðbrandur Einarsson mun taka við næstu tvö ár á eftir. Fyrsti varaforseti var kjörin Guðný B. Guðmundsdóttir og annar varaforseti Baldur Þ. Guðmundsson.

Víkurfréttir sýndu beint frá fyrsta fundinum á Facebook síðu VF þar sem hægt er að sjá upptökuna en einnig er hægt að sjá hana á vf.is.

Þrír nýliðar í bæjarstjórn, f.h. Jóhann Friðrik, Díana og Styrmir sem er yngsti bæjarfulltrúi Reykjanesbæjar frá upphafi, aðeins 26 ára. Til hliðar við hann er Guðný Birna Guðmundsdóttir sem sigur nú sitt annað kjörtímabil í röð.

Jónína Sanders, oddviti Sjálfstæðisflokksins, á sínum fyrsta fundi.

Gunnar Rúnarsson sem var í 2. sæti Miðflokksins sat fundinn í fjarveru Margrétar Þórarinsdóttur. Næstur honum við borðið er Gunnar Þórarinsson, oddviti hjá Frjálsu afli.

Sjálfstæðismenn eru með 3 bæjarfulltrúar, f.v. Margrét Sanders, Baldur Þ. Guðmundsson og Anna Sigríður Jóhannesdóttir.