JS Campers
JS Campers

Aðsent

Lokaorð Örvars Þórs Kristjánssonar- Gleðilegt vor
Föstudagur 11. maí 2018 kl. 06:00

Lokaorð Örvars Þórs Kristjánssonar- Gleðilegt vor

Af hverju í andskotanum erum við Íslendingar með sumardaginn fyrsta í lok apríl? Þegar þetta sumar okkar byrjar sjaldnast fyrr en eftir 17. júní votviðrið. Vor/sumarhretin okkar koma manni þó sjaldnast á óvart en alltaf eru það sömu vonbrigðin þegar snjórinn fer að setjast á grængult grasið og börnin okkar þurfa að arka í skólann í kraftgallanum, í sannkölluðum sumarbyl. Það kætast afar fáir nema þá helst þeir aðilar sem eru að selja sólarlandaferðir enda rjúka þær út eins og heitar lummur þessa stundina. Meira að segja lögreglan frestar því og frestar að sekta ökumenn fyrir notkun nagladekkja enda hjákátlegt að sekta einhvern um 20.000 kall á dekk, þegar það er hálka og snjóþekja á veginum. Hvar eru gróðurhúsaáhrifin? Þau hafa a.m.k ekki náð til Íslands! En það er óþarfi að gráta þetta tíðarfar of mikið því ekki er nema rétt rúmur mánuður í alvöru sumartíð (9-11 gráður og rigningu), í millitíðinni er þó margt að gerast sem ætti að kæta fólk á meðan það bíður eftir sumrinu. Knattspyrnuvertíðin er til dæmis byrjuð. Við á Suðurnesjunum eigum tvö flott lið í efstu deild og afar frambærileg lið í neðri deildunum. Hvet fólk til þess að fjölmenna á vellina í sumar, klæða sig bara vel, mjög vel!

Eurovision er svo í vikunni en við sendum að þessu sinni lag sem er meira að segja verra en veðurfarið undanfarna daga en við grillum samt og dettum í það á laugardaginn, höldum bara með Svíum, þeir eru alltaf drullu seigir í þessari keppni. Óska samt Ara góðs gengis, flottur strákur með afleitt lag en hver veit, kannski kemur hann öllum á óvart en líklegra er að það verði 22ja stiga hiti og sól á laugardaginn. Segi það sama og í fyrra, við náum ekki árangri fyrr en við sendum Valdimar í keppnina.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Nú svo er að styttast í kosningar, þær eru reyndar ansi tíðar hér á landi en nú er kosið til sveitastjórnar og það höfum við ekki gert í fjögur ár. Kosningabaráttan hefur verið ákaflega róleg hingað til í Reykjanesbæ og ekki sama „fútt“ og var í þessu fyrir 4 árum. Talsverð endurnýjun hefur átt sér stað hjá sumum framboðunum og að mínu mati hafa Framsóknar og Sjálfstæðismenn ásamt Pírötum verið sýnilegustu framboðin til þessa. Baráttan ætti þó að harðna á næstu vikum og nú síðastir til þess að bætast í hópinn voru Miðflokkurinn, alveg ágætisfólk þar á ferð. Vöfflur, grillmeti, mjöður og alls kyns veitingar má svo nálgast á kosningarskrifstofum flokkanna í þessum maímánuði og hvet ég fólk til þess að fjölmenna, helst á alla staðina og drekka (í bókstaflegri merkingu) í sig stemminguna. 

Í nágranna sveitarfélögunum er þetta einnig á rólegu nótunum, sameinaðir Garðsmenn & Sandgerðingar þurfa reyndar að kjósa fyrst um nafn á nýja sveitarfélagið – finn talsvert til með ykkur sem þurfið að velja úr þessum kostum sem eru í boði, ætla að spá yfir 50% auðum seðlum. Annars finnst mér þetta nýja sveitarfélag eigi auðvitað að heita eftir einni ástsælustu söngkonu Sandgerðinga, Leoncieville. Gleðilegt sumar!