Karlakórinn
Karlakórinn

Aðsent

  • 500-600 þúsund í laun
  • 500-600 þúsund í laun
Mánudagur 26. maí 2014 kl. 12:22

500-600 þúsund í laun

– Árni Sigfússon skrifar

Í 12 ár hef ég barist fyrir vel launuðum störfum í Reykjanesbæ. Ekki bara einhverjum störfum heldur þeim störfum sem gefa af sér góð laun. Þess vegna gefst ég ekki upp við að tala fyrir þeim verkefnum í Helguvík sem færast nær raunveruleikanum með hverri vikunni sem líður. Kísilver, vatnsútflutningur, álver, dekkjaframleiðsla og grænir efnagarðar. Allt eru þetta verkefni sem geta orðið að veruleika og munu gefa af sér meðallaun sem liggja á bilinu 5-600 þúsund á mánuði. Alls staðar þar sem sambærileg verkefni hafa náð landi hafa meðallaun samfélagsins hækkað mikið.

Um hvað er samstaðan
Ég hef fengið gagnrýni síðustu daga fyrir að gefa vonir um vel launuð störf og að rjúfa einhverja samstöðu sumra vinnuveitenda á viðkvæmum tímum kjarasamninga. Ef það hefur einhvern tíma staðið til að mynda samstöðu um slíka stefnu þá hef ég ekki komið að þeirri stefnumótun. Alla tíð hef ég talað fyrir mikilvægi fjölbreyttrar atvinnustarfsemi sem gefi af sér háar tekjur fyrir starfsfólkið. Um leið og tekjur íbúanna aukast hækka samhliða tekjur sveitarfélagsins. Samstaða um lág laun er ekki mín samstaða.

Álver vs. tómataræktun
Stundum hafa skotið upp kollinum hugmyndir um að nýta byggingu álversins í Helguvík t.d. til ræktunar tómata. Ég hef í raun aldrei tekið slíkum hugmyndum alvarlega og frekar talið að þær væru settar fram í gríni. Meðallaun í álverum á Íslandi eru um 600 þúsund á mánuði en þær áætlanir sem ég hef séð um ræktun tómata á Íslandi hafa miðað við að starfsfólk fái 200-250 þúsund á mánuði fyrir störf sín. Ég fagna allri atvinnuuppbyggingu í sveitarfélaginu en styð ekki hugmyndir sem ganga út á að lækka meðallaun samfélagsins enn frekar þegar aðrar og betri leiðir eru færar. Við eigum alltaf að setja markið á að hámarka þau tækifæri sem við höfum í höndunum. Hluti þeirra tækifæra felast í lífrænni ræktun. Ég hef unnið að því að grípa þessi tækifæri þegar þau hafa boðist, Stolt Seafarm, Algalíf og fleiri verkefni bera vitni um það. Þar er verið að nýta styrkleika Reykjanessins til að búa til verðmæta vöru.

Klárum málin
Barátta síðustu ára hefur skilað miklum og góðum árangri. Fjölmörg störf hafa orðið til á Ásbrú þar sem stærsta frumkvöðlasetur landsins er staðsett. Gagnaver, örþörungaverksmiðja, hjúkrunarheimili, fyrirtæki í fullvinnslu sjávarafurða, ferðaþjónustufyrirtæki og fiskeldi eru allt dæmi um verkefni sem orðið hafa að veruleika á þessu kjörtímabili. Fyrirtæki sem nú skapa hundruðir starfa í samfélaginu. Með sama hætti geta verkefnin í Helguvík orðið að veruleika en til þess þarf einurð og stefnufestu í bæjarstjórn eins og hefur verið síðustu ár. Samsuða 4-5 flokka í bæjarstjórn getur ekki náð slíkri samstöðu.

Ég bið um stuðning þinn við D-lista Sjálfstæðisflokksins í kosningunum á laugardaginn til að vinna áfram og klára málin.

Árni Sigfússon
bæjarstjóri

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024