Rétturinn atvinna
Rétturinn atvinna

Viðskipti

Vatnsnesið allt verði upplifunarsvæði og bænum til sóma
Horft yfir hluta af Vatnsnesveginum. Fremst er Vatnsnesvegur 16 sem Hótel Keflavík hefur keypt. Þá er það sjálft hótelið og fjær má sjá Vatnsneshúsið sem er að taka miklum stakkaskiptum um þessar mundir. VF/Hilmar Bragi
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
föstudaginn 22. september 2023 kl. 06:19

Vatnsnesið allt verði upplifunarsvæði og bænum til sóma

Hótel Keflavík kaupir Vatnsnesveg 16 í Keflavík af Olís

Hótel Keflavík hefur skrifað undir kaupsamning vegna kaupa á húsnæði og lóð Olís að Vatnsnesvegi 16 í Keflavík, oft kallað Básinn. Steinþór Jónsson, hótelstjóri Hótels Keflavíkur, segir að hann hafi lengi haft augastað á lóðinni og fasteigninni og hann og faðir hans heitinn, Jón William Magnússon, gerðu fyrstu drög að stækkun hótelsins í átt að Olís-lóðinni árið 1995, svo þetta skref tók sinn tíma. Steinþór hefur þegar látið til sín taka á lóðinni. Bílastæði við Vatnsnesveg 16 hafa verið merkt fyrir gesti og viðskiptavini Hótels Keflavíkur og þá hefur húsnæði og lóð verið snyrt.

„Framtíðarsýnin er skýr og er nú loksins komin á fulla ferð með kaupum á þessari stóru lóð á besta stað í bænum. Framkvæmdir í Vatnsneshúsinu og KEF SPA heilsulind ganga báðar mjög vel og nýjar byggingar á þessari lóð því næsta skrefið í okkar uppbyggingu og framtíð,“ segir Steinþór Jónsson í samtali við Víkurfréttir.

Vatnsneshúsið hefur tekið miklum stakkaskiptum á undanförnum misserum. VF/Hilmar Bragi

Skrefin í dag bæði stærri og hraðari

„Það er eðlileg þróun að nýjar kynslóðir taki við hugmyndum foreldra sinna, eins og hér er gert, og það er vonandi það sem gerist með dætur mínar eftir minn dag. Skrefin í dag eru þó bæði stærri og hraðari en svona uppbygging tekur aldrei enda að mínu mati,“ segir Steinþór.

„Við erum með mörg járn í eldinum og samhliða núverandi uppbyggingu er vinna strax hafin við forhönnun á öllu svæðinu frá Hafnargötu niður fyrir Vatnsneshúsið. Við erum einnig með auga á fleiri eignum og lóðum til að fullkomna heildarmyndina. Þar erum við að tala um miklar framkvæmdir sem myndu hugsanlega kalla á bæði nýja fagfjárfesta og alvöru hlutafjáraukningu en sú vinna verður unnin samhliða fyrstu skrefum. Við höfum hingað til fjármagnað okkur sjálf og erum því á mjög góðum stað að keyra hratt áfram þó efnahagslegt umhverfi sé alls ekki hagstætt í augnablikinu – en svona ástand felur líka í sér tækifæri,“ segir Steinþór.

Tækifæri að stækka Hótel Keflavík og Diamond Suites

Steinþór segir fjárfestingu á Olís-lóðinni gefa tækifæri að stækka Hótel Keflavík og Diamond -Suites og það sé forgangsmál eigenda hótelsins. Hugmyndin er að í framtíðinni verði hótelið með allt að 220 herbergjum auk gistiheimilisins, Gistiheimili Keflavík, sem mun einnig stækka í framtíðinni í allt að þrjátíu herbergi. Þá telur Steinþór einnig nauðsynlegt að auka við veitingarýmið í takt við þessa stækkun hótelsins.

„Í okkar hugmyndum er gert ráð fyrir að KEF Restaurant stækki til muna og við bætast fleiri veitingastaðir. Umhverfið gæfi jafnvel möguleika á að sjá ekta smurbrauðsstað tengdan kósý kaffihúsi með bakaríi og ísréttum og gæða asískan og ítalskan veitingastað og svo mætti lengi telja. Við gerum að sjálfsögðu ráð fyrir litlum SPA Restaurant í nýju heilsulindinni og í Vatnsneshúsinu verður einhver gömul rómantík sem bæjarbúar eiga vonandi eftir að vera stoltir af. Þetta yrði ekki ný mathöll eins og flestir þekkja en við erum að vinna með hugtakið matvöll, svæði sem hefur marga veitingastaði, lúxus spa og líkamsrækt, boutique-verslun, veislusali og svo framvegis sem mynda eitt upplifunarsvæði, okkar miðbæ.“

Frá framkvæmdum við heilsulindina í kjallara Hótels Keflavíkur. Mynd: Hótel Keflavík

Öll áherslan á uppbyggingu heilsulindar

Steinþór segir að í dag sé öll áherslan á uppbyggingu KEF SPA heilsulind með tengdri líkamsræktarstöð sem hann vill að eigi sérstöðu hér á landi. Heilsulindin sjálf verður um 800 fermetrar auk útisvæðis sem kemur síðar en líkamsrækin verður 1.200 fermetrar með nýjustu tækjum frá Technogym Artis og nýjustu tækni en þar af yrði 100 fermetra líkamsrækt sem yrði opin allan sólarhringinn í tengslum við heilsulindina. „Okkar von er að bæjarbúar verði okkar aðalgestir eins og raunin er núna á KEF Restaurant.“

Á myndinni eru Steinþór Jónsson, eigandi Hótel Keflavíkur, Pétur Jónsson, stjórnarformaður, Frosti Ólafsson, forstjóri Olís, Þorvaldur Þorláksson og Finnur Oddson.


Er samstarfsverkefni

Í þessari vegferð að stækka hótelið eru fjölmörg fyrirtæki í bæjarfélaginu sem hafa fylgt uppbyggingu Hótels Keflavíkur um áraraðir, s.s. Trésmíðaverkstæði Stefáns og Ara, Nesraf, Tækniþjónusta SÁ, Rörvirki, Lagnaþjónusta Suðurnesja, Younes ehf, SB málun, ásamt frábærum verktökum og starfsmönnum en JeES arkitektar bætast nú í hópinn með drög að frumdrögum um möguleika svæðisins. „Í mínum huga er þetta því samstarfsverkefni. Við höfum aldrei verið eins spennt fyrir framtíðinni og nú,“ segir Steinþór Jónsson, hótelstjóri Hótels Keflavíkur.