Flugger
Flugger

Viðskipti

Ræturnar liggja djúpt
Bergur Daði Ágústsson hefur verið ráðinn sérfræðingur í fjármálum og reikningshaldi hjá Samkaupum.
Fimmtudagur 19. október 2023 kl. 09:34

Ræturnar liggja djúpt

Samkaup hefur lengi verið ein meginstoða atvinnulífs á Suðurnesjum og hefur haft það að leiðarljósi að vera bakhjarl mannlífs og menninga á Suðurnesjum. Heiður Björk Friðbjörnsdóttir, framkvæmdastjóri fjármála- og rekstrarsviðs hjá Samkaupum, segir að ástæðuna vera djúpar rætur fyrirtækisins á svæðinu.

„Kaupfélag Suðurnesja er stærsti einstaki hluthafi fyrirtækisins og þess vegna er það stefna okkar að halda höfuðstöðvunum hér, svo dæmi sé tekið. En fleiri kaupfélög eru líka hluthafar í Samkaupum og ég held að arfleifð kaupfélaganna og þeirrar samfélagshugsunar sem þau endurspegluðu hafi ennþá áhrif á okkur sem störfum hjá Samkaupum.“

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Ábyrgur samfélagsþegn

Samkaup leggja áherslu á samfélagslega ábyrgð í allri starfseminni sem endurspeglar metnað fyrirtækisins til að vera traustur og virkur þátttakandi í samfélaginu.

„Hluti af starfsmannastefnu Samkaupa er að ráða starfsfólk okkar úr nærumhverfi verslana og höfuðstöðvum félagsins, því það er mikilvægt að skapa atvinnutækifæri í nærsamfélaginu. Margir af stjórnendum Samkaupa hafa byrjað á verslanagólfinu. Hjá Samkaupum hefur myndast sú menning að hæglega er hægt að vinna sig upp með því að standa sig vel. Félagið er í dag skipað mjög færu fólki, meðalstarfsaldur er langur og algengt að fólk vinni hjá félaginu í tugi ára í ólíkum stöðugildum. Samkaup býður upp á tækifæri fyrir starfsfólk sitt að þróast í starfi innan félagsins í samræmi við metnað, hæfni og kunnáttu.“

Nefnir hún sem dæmi nýjustu ráðninguna inn á skrifstofu Samkaupa, en Bergur Daði Ágústsson hefur verið ráðinn sérfræðingur í fjármálum og reikningshaldi hjá Samkaupum. Hann mun vinna náið með starfsfólki fjármálasviðs í höfuðstöðvum fyrirtækisins í Reykjanesbæ. Bergur er þó ekki að stíga sín fyrstu skref hjá fyrirtækinu, því hann hefur síðustu þrjú sumur, eða frá árinu 2021, unnið sem bókari í sumarstarfi hjá Samkaupum. Þá er Bergur Keflvíkingur í húð og hár og starfar einnig sem dómari í bæði fót- og körfubolta.

Fólk fær stuðning

„Við erum því mjög ánægð með ráðningu Bergs Daða að geta haldið góðum Suðurnesjamanni áfram á Suðurnesjum. Við höfum verið mjög ánægð með störf hans í bókhaldinu og það er mikill fengur að fá Berg Daða inn sem fastráðinn starfsmann á fjármálasvið og við erum spennt að sjá hann dafna í starfi,“ segir Heiður Björk.

Samhliða störfum mun Bergur klára nám í fjármálaverkfræði í Háskólanum í Reykjavík með stuðningi frá Samkaupum til að sinna náminu á vinnutíma með fullum sveigjanleika. „Samkaup leggja ríka áherslu á að styðja starfsfólk sitt áfram til starfsþróunar og er eitt af megin markmiðum fyrirtækisins að starfmenn Samkaupa fái tækifæri til að stunda nám samhliða vinnu sem opnar á tækifæri til frekari starfsþróunar. Við erum stolt af þessari stefnu okkar og af þeirri staðreynd að Samkaup er vinnustaður sem fólk líður greinilega vel hjá og vill starfa lengi hjá okkur.“