Langbest
Langbest

Viðskipti

Opnaði nýja gleraugnaverslun á stórum tímamótum
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
laugardaginn 27. ágúst 2022 kl. 06:19

Opnaði nýja gleraugnaverslun á stórum tímamótum

Reykjanes Optikk við Aðaltorg í Reykjanesbæ hefur fengið glimrandi móttökur.

„Ég er hrærð yfir því hvað móttökurnar hafa verið ótrúlega góðar. Það er frábært þegar maður er að hefja fyrirtækjarekstur og ég vil þakka Suðurnesjamönnum sérstaklega fyrir það,“ segir Jóna Birna Ragnarsdóttir, sjóntækjafræðingur, en hún opnaði Reykjanes Optikk 9. júní í húsakynnum Courtyard By Marriott við Aðaltorg í Reykjanesbæ.

„Þetta var nú frekar óvænt að ég ákvað að skella mér út í djúpu laugina og vildi svo skemmtilega til að þetta var á stórum tímamótum því í sömu viku og ég opnaði voru liðin tuttugu ár frá því ég lauk námi í Noregi,“ segir Jóna sem er Keflvíkingur í húð og hár. Foreldrar hennar, Ásdís og Ragnar voru umsvifamikil í rekstri á ármu áður en þau ráku Ragnarsbakarí til áratuga sem margir muna eftir.

Stjórnendafélag Suðurnesja
Stjórnendafélag Suðurnesja

 Jóna hefur starfað við iðn sína í tuttugu ár, þar af fyrstu þrjú árin í Noregi en hún lauk námi þar í sjóntækjafræðum og tók svo mastersnám til viðbótar þar sem hún stundaði sérnám í augnsjúkdómum og í sjónþjálfun. Áður en hún fór í sjóntækjafræði lauk hún stúdensprófi frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja.

Standa sig vel

Skömmu áður að hún kom heim breyttust reglur varðandi sjónmælingar og sjóntækjafræðingar fengu leyfi til þess að sjónmæla en áður máttu augnlæknar eingöngu mæla sjón fólks. Jóna er formaður Sjóntækjafræðingafélags Íslands og meðal baráttumála hjá félaginu er að sjóntækjafræðingar fái réttindi til að skoða augu fólks enn meira en nú er, m.a. augnbotna, skima og stunda frekara eftirlit. Biðtími hjá auglæknum er langur í dag og þetta myndi leysa það að einhverju leyti en augnlæknastéttin er að eldast. „Sjóntækjafræðingar eru að standa sig mjög vel í sínu fagi. Áður en þeir fengu leyfi til sjónmælinga var ákveðin vantrú meðal augnlækna en þetta hefur gengið mjög vel og við erum að mæla sjón fólks og ráðleggja með val á gleraugum,“ segir Jóna en hvað með sjón fólks, fer henni að hraka með aldrinum?

„Já, upp úr fertugu eykst aldursfjarsýni. Þá fer fólk að huga að því að koma í sjónmælingu. Nærsýni hefur aukist, ekki síst hjá ungu fólki og unglingum. Þar er talið að notkun snjalltækja og lítil útivera hafi áhrif. Þá hefur tölvuvinna aukist mikið á síðustu áratugum og þá blikkar maður minna og þannig verður meiri þurrkur í augum.“

Gleraugu er líka tískuvara

Jóna jánkar því þegar hún er spurð hvort það hafi ekki orðið miklar breytingar í greininni á undanförnum árum. „Úrvalið á gleraugum hefur aukist gríðarlega mikið og það er alltaf skemmtilegt að finna réttu gleraugun á fólk. Nú eru gleraugu vinsæl með umgjörð úr þynnri málmum og glerin lituð eða skyggð. Það er mjög algengt að fólk skipti um gleraugu á 2-3 ára fresti. Sjónin á það til að breytast með hærri aldri en svo vilja margir líka bara fá ný gleraugu. Það má segja að gleraugu séu ákveðin tískuvara, og þá sérstaklega sólgleraugu. Svo hefur líka orðið mikil þróun í augnlinsum, hönnun á þeim er orðin miklu betri sem og efnið í þeim betra. Það er talsvert af yngra fólki og ekki síst þeir sem eru í íþróttum sem vilja fá linsur,“ segir Jóna.

Áratuga reynsla og þekking

 Þegar Reykjanes Optikk opnaði tók Jóna í notkun nýtt tæki, nokkurs konar staðsetningartæki fyrir augnpunktinn sem er mældur áður en glerið er gert. Þetta tæki mælir staðsetninguna nákvæmlega á margskiptum glerjum sem dregur úr bjögun í glerinu og breikkar lespunktinn. „Við leggjum mikinn metnað í að vera með framúrskarandi gler og er þetta tæki nauðsynlegt til að ná því takmarki,“ segir Jóna.

Góð þjónusta mikilvæg

Þegar Jóna ákvað að opna nýja gleraugnaverslun fylgdu henni tvær fyrrverandi samstarfskonur, þær Linda Ólafsdóttir og Sigrún Sigvaldadóttir. „Það skiptir ofsalega miklu máli að hafa gott fólk með sér því ekki gerir maður þetta einn. Við erum tríó sem með áratuga reynslu og þekkingu úr faginu og það er auðvitað ómetanlegt.“

Jóna er ánægð hvernig til tókst við uppsetningu verslunarinnar. Hún naut hjálpar Lindu við hönnun verslunarinnar og fleiri komu að því að koma henni upp og hjálpuðu til í framkvæmdum. 

Jóna er ánægð með staðsetninguna í nálægð við hótelið á Aðaltorgi. Aðgengi er gott og frekari uppbygging fyrirhuguð á svæðinu. En hvað segir Jóna svo um vörurnar sem boðið er upp á í nýju verslun hennar?

„Við erum með mjög vönduð og góð merki á hagstæðu verði og við höfum fengið mjög góð viðbrögð við þeim. Svo er bara aðal málið að veita góða og faglega þjónustu,“ sagði Jóna að lokum en fram að Ljósanótt verður 30% afsláttur af öllum vörum nema 15% af linsum.

Úrvalið á gleraugum hefur aukist gríðarlega mikið oað er alltaf skemmtilegt að finna réttu gleraugun á fólk. Nú eru gleraugu vinsæl með umgjörð úr þynnri málmum og glerin lituð eða skyggð ...

Þær stöllur hafa unnið saman mjög lengi en sameinast nú í nýrri verslun, f.v. Sigrún Sigvaldadóttir, Jóna Birna Ragnarsdóttir og Linda Ólafsdóttir. VF-myndir: pket

Reykjanes Optikk er í sömu byggingu og Marriott hótelið við Aðaltorg í Keflavík. Til hliðar er Jóna Birna Ragnarsdóttir í nýju gleraugnaversluninni.