Viðskipti

Nýir stjórnendur hjá  verslunum Samkaupa
Helga Dís, Bjarki og Oliver.
Laugardagur 29. apríl 2023 kl. 06:19

Nýir stjórnendur hjá verslunum Samkaupa

Helga Dís Jakobsdóttir er nýr markaðs- og upplifunarstjóri Nettó og Iceland verslananna. Þá er Bjarki Snær Sæþórsson nýr sölustjóri Nettó og Iceland verslana og Oliver Pétursson nýr sölustjóri Krambúða og Kjörbúða.

Helga Dís hóf störf hjá Samkaupum í febrúar 2021, þá sem þjónustu – og upplifunarstjóri Nettó. Áður starfaði hún á fjármálasviði Bláa lónsins og Hjá Höllu við umsjón veitingastaðar á Keflavíkurflugvelli. Helga Dís útskrifaðist með BS-gráðu í viðskiptafræði með áherslu á stjórnun og forystu  og MS- gráðu í þjónustustjórnun frá Háskóla Íslands.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Bjarki hóf störf hjá Samkaupum árið 2008 og hefur víðtæka reynslu og þekkingu á öllum vörumerkjum samsteypunnar. Þá hefur hann starfað í Nettó búðum um allt land, bæði sem aðstoðarverslunarstjóri og verslunarstjóri. Áður en hann tók við sem sölustjóri Nettó og Iceland verslanna starfaði hann sem sölustjóri Krambúða og Kjörbúða. Samhliða störfum sínum stundar Bjarki nám í viðskiptafræði með áherslu á þjónustu við Háskólann á Bifröst.

Oliver hefur starfað í verslunargeiranum frá árinu 1996. Hann hefur reynslu af stjórnun vöruhúsa, verkefnastýringu í uppsetningu búða og erlendum innkaupum.  Hjá Samkaupum hefur Oliver verið verkefnastjóri á verslunarsviði varðandi vörustýringu, uppsetningu á verslunum og vöruflokkum og innkaupastjóri á frystivöru. Nú síðast starfaði hann í vörustýringu á innkaupasviði og við innleiðingu á nýju vörustýringarkerfi.

„Með þessum breytingum erum við að styrkja enn frekar vöruúrval, upplifun og þjónustustig verslana okkar. Helga Dís hefur verið á frábærri vegferð að ná utan um upplifun viðskiptavina Nettó og hlakka ég til að sjá hana takast á við markaðsmálin sömuleiðis. Þá búa Bjarki og Oliver yfir miklli og þekkingu á verslunum okkar um land allt.  Mannauðurinn er verðmætasta auðlind okkar og eru þessar breytingar í takt við stefnu okkar um að gefa fólki tækifæri til að vaxa í starfi. Ég hlakka til samstarfsins,“ segir Gunnur Líf, Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðs- og samskiptasviðs Samkaupa.


Hjá Samkaupum starfa alls um 1.300 manns í tæplega 700 stöðugildum. Samkaup reka um 60 verslanir víðsvegar um landið. Helstu verslanamerki Samkaupa eru Nettó, Kjörbúðin, Krambúðin og Iceland.