Viðskipti

Matorka flytur vinnsluna vegna skemmda á húsnæðinu
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
fimmtudaginn 30. nóvember 2023 kl. 09:33

Matorka flytur vinnsluna vegna skemmda á húsnæðinu

„Við viljum komast aftur til Grindavíkur, hér er gott að vera,“ segir Árni Páll Einarsson, framkvæmdastjóri sölu og vinnslu hjá Matorku, en þegar blaðamann og ljósmyndara Víkurfrétta bar að garði í vinnslusal fyrirtækisins í Grindavík stóðu flutningar yfir. Húsnæðið er talsvert mikið skemmt en sem betur fer höfðu Árni og samstarfsmenn hans snar handtök og vinnsla var í undirbúningi í húsnæði í Hafnarfirði.

Árni Páll Einarsson, framkvæmdastjóri sölu og vinnslu hjá Matorku, virðir fyrir sér sprungu sem gengur í gegnum starfstöð fyrirtækisins í Grindavík.

Árni sagði að það hefði verið mikið verk að flytja vinnsluna. „Við höfum verið að framleiða bleikju hér í þessum vinnslusal, höfum framleitt um 1.400 tonn á þessu ári. Því miður er húsnæðið talsvert skemmt og við höfum verið að flytja tæki og tól til Hafnafjarðar. Þar munum við hefja vinnslu að nýju tímabundið því við ætlum okkur aftur til Grindavíkur, hér er gott að vera. Það er búið að vera mikið verk að færa flökunar-, beinhreinsi- og aðrar vélar til Hafnafjarðar en það hefur gengið upp. Við erum með sjálft fiskeldið vestur af Grindavík og það varð fyrir smá tjóni sömuleiðis en sem betur fer er það 90% í lagi svo okkur er ekkert að vanbúnaði að hefja vinnslu á ný. Þar er fiskeldi á fullu og fiskur sem þarf að vinna og flytja út. Það vinna um 45 manns hjá Matorku, langflestir hér í Grindavík og flestir starfsmanna bjuggu hér líka. Hvenær við komumst aftur með vinnsluna til Grindavíkur er ómögulegt að segja til um, bæði megum við ekki vera hér en svo er húsnæðið það mikið skemmt að við mættum ekki vinna hér,“ sagði Árni Páll.

Optical Studio
Optical Studio

Nánar er rætt við Árna í spilaranum hér að neðan.