Viðskipti

Margir halda tryggð við sinn bílasala
Sigurður Guðjónsson, bílasali.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
laugardaginn 4. nóvember 2023 kl. 06:14

Margir halda tryggð við sinn bílasala

Hóf bílasölurekstur í faraldri. Vill stækka hlutdeild BL vörumerkjanna á Suðurnesjum. Mikil sala í rafmagnsbílum.

Sigurður stofnaði Bílasölu Suðurnesja árið 2020 í glerhúsi Bílabúðar Benna á Fitjum í Njarðvík. Hann langaði að færa bílasöluna og úr varð að hann keypti Bílasölu Reykjaness við Holtsgötu í Njarðvík, rekur hana undir því nafni og selur bíla frá BL bílaumboðinu. Siggi byrjaði sinn starfsferil reyndar ekki sem bílasali, heldur menntaði hann sig sem rafeindavirki og fylgdi í fótspor afa síns, Sigurðar Jónssonar.

„Ég er borinn og barnfæddur Keflvíkingur. Ég ólst upp í vesturbænum í Keflavík, gekk í grunnskólann og fór svo í Iðnskólann, hafði áhuga á rafmagni en lærði til rafeindavirkja. Afi heitinn átti Sónar, ég byrjaði að vinna hjá honum og fann að þetta átti vel við mig. Ég vann við iðnina og gekk svo inn í fyrirtækið Tæknivík árið 2000 en það hafði verið stofnað árið 1994 en við seldum það svo árið 2010. Ég vann áfram hjá fyrirtækinu en fann svo að mig langaði til að fara gera eitthvað annað og söðlaði um. Ég vissi ekki hvað mig langaði að gera, ég byrjaði í sumarafleysingum í Fríhöfninni uppi á flugvelli og fannst það fínt, að stimpla sig bara inn og út á móti því að vera með hugann við reksturinn allar sólarhringinn. Þeir sem hafa starfað sjálfstætt fara held ég oft aftur í þann bransa og ég fann að það togaði í mig. Ég og Júlíus Steinþórsson kynntumst, þá var hann að reka Heklu umboðið í Reykjanesbæ og ég gerðist bílasali. Þetta átti strax vel við mig en ég flutti mig síðan yfir í Bílabúð Benna, áfram að selja bíla og þaðan tók ég skrefið í að fara út í sjálfstætt. Ég valdi reyndar ekki rétta tímann, COVID var nýskollið á og því var ansi lítið að gera til að byrja með. Við stofnuðum Bílasölu Suðurnesja, ég og Erlingur Örn Karlsson en hann leitaði svo á önnur mið sem varð til þess að ég hélt áfram einn. Ég var með reksturinn þar sem Bílabúð Benna var, á Njarðarbrautinni en vegna kostnaðar fórum við að huga að nýrri staðsetningu og fórum að kíkja í kringum okkur. Við nálguðumst Bjarka Má Viðarson sem átti Bílasölu Reykjaness og úr varð að hann seldi okkur reksturinn. Við sameinuðum bílasölurnar og þar sem Bílasala Reykjaness var með samninga við BL, ákváðum við að notast við það nafn áfram.“

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

 

Holtsgata 52 í Njarðvík.

Rafmagnið

BL hefur lengi verið einn stærsti aðilinn á íslenskum bílamarkaði og er með mörg bílamerki á sínum snærum. „Við eru með umboð fyrir Nissan, Subaru, Dacia, Hyundai, Renault, Land Rover, BMW, Jaguar, Isuzu og svo er ég með umboð fyrir æðislegan bíl frá Kína, MG. Þetta eru rafmagnsbílar í millistærð, á mjög hagstæðu verði. Nissan og Hyundai hafa alltaf verið vinsælir bílar, við seljum mest af þeim. Það er greinilegt að þjóðin er að rafmagnsvæðast, við seljum lang mest af rafmagnsbílum í dag en svo erum við auðvitað líka með notaða bíla en það er lítið af þeim í rafmagni, hefur þó verið að aukast með meira framboði af nýjum rafbílum á markaðnum. Við erum mjög öflugir í notuðum bílum og viljum stækka hlutdeild BL vörumerkjanna hér suðurfrá. Við erum þrír að selja, ég stend á gólfi og sel en þarf líka að halda utan um reksturinn, því er frábært fyrir mig að vera með tvo mjög öfluga sölumenn, þá Aron Kristinsson og Kristján R. Guðnason,“ segir Sigurður.

Ævisamband

Siggi segir að margir haldi tryggð við sinn bílasala. „Fólk kynnist sínum bílasala og virðist halda tryggð við hann um aldur og ævi ef ánægja ríkir. Margir af mínum viðskiptavinum frá því að ég byrjaði sem bílasali, hafa elt mig og svo er það oft þannig að börn og ættingjar þeirra vantar að selja eða kaupa bíl og þá er leitað til okkar þegar viðkomandi er í bílahugleiðingum. Svona er þetta og mun líklega alltaf verða, það myndast traust en við höfum alltaf lagt okkur 100% fram í að þjónusta okkar viðskiptavini mjög vel. Sem betur fer erum við að jafna okkur eftir COVID en Úkraínustríðið er vissulega ennþá aðeins að tefja fyrir afhendingu. Þetta er samt miklu betra í dag en fyrir ári, lagerstaðan er góð og ef þú vilt sérpanta nýjan bíl í dag, ættirðu að vera kominn undir stýrið á honum eftir 12-14 vikur. Svo er þetta alltaf þannig að það eru bílar í pípunum, það eru bílar á leiðinni og oft gerist það að viðskiptavinur vill ekki  bíða eftir sérpöntuðum bíl og fær sér frekar bíl sem er til á lager.

Aron og Kristján, bílasalar.

Annars er framtíðarplanið bara að hafa áfram gaman af lífinu, við hjónin eigum þrjú börn á aldrinum tólf til átján ára og við reynum að gera hluti saman. Við dveljum mikið í sumarbústað okkar í Skorradal, þar er alltaf hægt að finna sér eitthvað að gera. Þegar ég var gutti gekk ég í skátana og var svo í björgunarsveitinni, það er ekki svo langt síðan ég var í aðgerðarstjórn og hef gengt trúnaðarstörfum fyrir skátahreyfinguna og björgunarsveitir en það hefur bara verið svo mikið að gera í bílasölunni að ég hef ekki haft tíma í að sinna þeim áhugamálum. Ég er virkur í Rótarýklúbbi Keflavíkur og Round table, hef verið lengi í sóknarnefnd Keflavíkurkirkju og er mjög stoltur af því starfi. Ég hef verið í bæjarpólitíkinni undanfarin ár, hef verið í áttunda sæti Framsóknar og sit í stjórn hafnarinnar og er í atvinnu- og hafnarráði. Ég hef stutt við íþróttalífið hér í bæ og þótt ég sjálfur hafi ekki stundað íþróttir, veit ég hversu mikilvægt það starf er og líður vel með að styðja við bakið á því. Hvað varðar framhaldið og framtíðina, ég vil byggja þessa bílasölu upp, okkur hefur gengið vel og ég vona að það haldi áfram í stækkandi samfélagi hér á Suðurnesjunum.“ sagði Sigurður að lokum.

Sigurður starfaði með í Björgunarsveitinni Suðurnes.
Úti í náttúrunni með veiðistöngina.