Optical Studio
Optical Studio

Viðskipti

Konur eru miklu yngri í dag
Laugardagur 15. desember 2018 kl. 13:50

Konur eru miklu yngri í dag

-segir Rúna Reynisdóttir sem hefur rekið tískuverslunina Galleri Keflavík síðan 1994

Rúna er búin að vinna í kringum tískuvörur síðan hún var sextán ára, byrjaði að sýna tískuföt úti um allt kornung og opnaði svo verslun árið 1994 við Hafnargötu og er í eigin húsnæði. Galleri Keflavík er glæsileg tískuverslun fyrir dömur en þannig vill Rúna, eða Guðrún Reynisdóttir, hafa hana – „hómí og notalega,“ eins og hún segir sjálf. Galleri Keflavík er í samtökunum Betri bær.

Konur hafa yngst
„Við erum duglegar að breyta til hjá okkur og viljum hafa það notalegt og „hómí“ hérna inni. Ekki bara fyrir viðskiptavininn heldur einnig fyrir okkur þrjár sem vinnum hérna. Ég ákvað snemma að festa kaup á húsnæðinu til að tryggja staðsetninguna og öryggi. Ég byrjaði á því að kaupa eitt bil í gamla Stapafelli, byggingarvöruversluninni sem var hérna áður, en bætti svo smátt og smátt við kaupin. Núna erum við með mjög gott pláss og getum haft mikið úrval af flottum tískufatnaði fyrir konur á öllum aldri. Hingað koma ungar stúlkur að kaupa sér tískuföt og einnig eldri konur en aldur er svo afstæður í dag. Þú sérð eldri konur í dag vera í skvísufötum sem klæðir þær. Hugarfarið er allt annað núna en áður þegar fólk átti að klæða sig á ákveðinn hátt þegar það náði vissum aldri. Þetta er ekki svona í dag. Konur eru miklu yngri í dag og það er ekki lengur þessi pressa á þeim, meira frjálsræði. Við bjóðum dömuföt fyrir breiðan aldurshóp og fáum konur hingað á öllum aldri,“ segir Rúna.Jólastemningin að byrja
„Já, við finnum að það er komin svona stemning. Konur eru að kaupa fyrir jólahlaðborðin og svo er þetta vinsæll mánuður hjá fyrirtækjum að hittast og svona. Bara geggjað. Það er ekki þannig í dag að þú sért bara að nota flíkina einu sinni. Jólafötin eru notuð mun oftar. Í ár er það glimmer. Þær eru að kaupa kjóla, samfestinga, víðar mussur og leggings. Við erum með úrval af skóm, svo mikið að stelpurnar mínar spurðu mig um daginn hvort ég ætlaði ekki að fara að hætta að kaupa inn en það er bara svo gaman að vera með allskonar skó. Stígvél frá Ilse Jacobsen fást hérna og einnig regnkápur frá henni. Allt í bland, merkjavara frá In Wear og Companys en merkjavaran kemur frá Gallerý 17. Svo flyt ég sjálf rosalega mikið inn. Allt öðruvísi sem ég flyt inn sjálf, breiðari lína og allskonar verð. Hérna fást einnig fylgihlutir, skart, veski, úlpur, kápur, húfur og vettlingar.“

Hvað með jólin þín Rúna?

„Þá vil ég hvíld og notalegheit, vera með krökkunum mínum, vinum og fjölskyldu. Ég vinn mikið frá miðjum nóvember og fram að jólum. Um jólin vil ég hafa það huggulegt. Jólin eru til að njóta finnst mér, njóta og slaka á. Þá vil ég hafa það náðugt.“

Ljósmyndastofa Oddgeirs
Ljósmyndastofa Oddgeirs