Optical Studio - 7. júlí
Optical Studio - 7. júlí

Viðskipti

Kári á Fish House opnar tvo nýja staði
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
mánudaginn 20. maí 2024 kl. 06:24

Kári á Fish House opnar tvo nýja staði

„Það þýðir ekkert að leggjast í kör og grenja, maður verður bara að bjarga sér,“ segir veitingamaðurinn Kári Guðmundsson, oftast kenndur við stað sinn Fish house í Grindavík. Það er lítið að gera í Grindavík, þess vegna ákvað Kári að opna stað í Reykjavík með sama nafni og svo bauðst honum að taka við rekstri annars staðar í Mosfellsbæ sem heitir Bankinn. Eftir að hafa rekið staðinn í smá tíma ákvað hann að kaupa reksturinn.

„Ég veit ekkert hvenær við getum hafið rekstur aftur í Grindavík og það borgar mér enginn laun á meðan. Félagi minn benti mér á húsnæði í Pósthússtræti í Reykjavík og ég stökk á það, gat loksins opnað staðinn í apríl. Ég var að vonast eftir að geta hafið rekstur í febrúar en að koma leyfinu í gegn var ansi flókið, kerfisbáknið í Reykjavík er stórt og mikið. Þetta verður fínni veitingastaður, getur tekið rúmlega 40 manns í sæti og ég mun láta hann heita sama nafni og staðurinn í Grindavík, Fish house. Þegar ég var í miðjum framkvæmdum var mér svo bent á þennan stað í Mosfellsbæ, Bankann. Ég hitti eigendurna á fundi og ég gat eiginlega ekki sagt nei við þessu tækifæri, staðurinn var búinn að vera í flottum rekstri og það var ekkert annað fyrir mig að gera en labba inn 1. janúar og taka við rekstrinum. Ég leigði reksturinn til að byrja með en er nýlega búinn að festa kaup á honum. Ég verð með hlaðborð í hádeginu alla virka daga, það eru mörg fyrirtæki í nágrenninu svo þetta passar vel við það en svo koma auðvitað líka inn gestir af götunni, ætli Íslendingar séu ekki u.þ.b. 90% kúnna. Þegar boltinn er í gangi er frábær aðstaða til að sýna leikina, ég get verið með allt að þrjá leiki í gangi í einu á stórum skjám og svo er hægt að halda tónleika hér og böll þess vegna. Hljómburðurinn hér inni er mjög góður, Stebbi Jak var einmitt með tónleika um daginn, í kvöld er ég með konukvöld svo það verður nóg að gera held ég.“

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024
Fish House í Reykjavík.

Hvernig er annars staðan á húsnæði Fish house í Grindavík og hvernig sér Kári framtíð bæjarins fyrir sér?

„Það eru skemmdir á húsnæðinu og þarf að laga þær áður en ég gæti opnað aftur, það var hluti ástæðunnar fyrir að opna þessa nýju staði. Það mun taka einhvern tíma að laga húsnæðið í Grindavík ef eða þegar við getum opnað þar aftur. Ég sá ekki ástæðu til að mæta á fundinn sem haldinn var um daginn með atvinnurekendum, það var meira fyrir fyrirtækin sem eru að fara hefja starfsemi. Það er ekki verið að fara hleypa túristum strax inn í Grindavík, þeir voru langstærsti hluti minna viðskiptavina. Ég hef ekki trú á að það muni gerast á næstunni, svæðið er stórhættulegt, ég sé breytingar á mínu húsi nánast í hvert skipti sem ég kem heim. Stóru sprungurnar eru að breytast, allt svæðið er á hreyfingu og meðan svo er held ég að það verði ekki hleypt inn í bæinn. Ég og mín fjölskylda erum að leigja í Fossvoginum, ég geri ráð fyrir að við göngum að þessu tilboði ríkisstjórnarinnar og seljum húsið en hvar við munum setjast að erum við ekki búin að ákveða á þessum tímapunkti. Það er nóg að gera í þessu hjá mér núna og verður á næstunni, tala nú ekki um fyrst ég er búinn að opna Fish house í Pósthússtræti. Ég hlakka til að taka á móti Grindvíkingum þar og í Mosfellsbæ, ég lít framtíðina björtum augum,“ sagði Kári að lokum.