Viðskipti

Ígulkerjahrogn  og makrílsneiðar  í sushi
Stjórn Royal Iceland er samtals með um 100 ára reynslu í fisksölu á erlendum mörkuðum. F.v.: Kristján Hjaltason, Jón Magnús Kristjánsson og Lúðvík Börkur Jónsson.
Föstudagur 17. apríl 2020 kl. 13:22

Ígulkerjahrogn og makrílsneiðar í sushi

Fyrirtækið Royal Iceland í Njarðvík stundar veiðar og vinnslu á tegundum sem fæstir Íslendinga leggja sér yfirleitt til munns en þykja ómissandi lostæti í asíska eldhúsinu. Má þar nefna ígulker og sæbjúgu en líka beitukóng og makríl. Fyrirtækið er stærsti kaupandi þorskhrogna á landinu. Fyrirtækið opnaði á síðasta ári sérhæfða verksmiðju í bænum Znin í Póllandi þar sem framleiddar eru vörur inn á asíska markaðinn í Evrópu.

Lúðvík Börkur Jónsson, framkvæmdastjóri og stjórnarformaður Royal Iceland, segir starfsemina hérna heima markast mjög af vertíðum. Hrognavinnsla úr bolfiski stendur yfir í um þrjá mánuði meðan á vetrarvertíð stendur. Fyrirtækið er í föstum viðskiptum við um 40 báta en kaupir líka hrogn á fiskmörkuðum. Alls er unnið úr 300–500 tonnum af hrognum á ári. Mikill hluti þess fer í hrognamassa sem seldur er að stórum hluta til kavíarframleiðenda í Svíþjóð og Noregi, eins og Kalles og Mills. Framleiðslan er þó mun fjölbreyttari en svo og skiptist í tíu vöruflokka og marga undirflokka. Dæmi um afurðir er mentaiko fyrir japanskan markað, tarama smurálegg fyrir grískan markað, þorskhrognapulsur og reykt þorskhrogn.

Stórir í vinnslu á makríl

Vinnsla á grásleppuhrognum tekur við af þorskhrognavertíðinni. Royal Iceland gerir út bát á grásleppuveiðar. Fyrirtækið er ennfremur stór aðili í vinnslu á makríl á Íslandi. Hráefnið er eingöngu krókamakríll. Fyrirtækið gerir út eigin báta á þessar veiðar og kaupir hráefni af öðrum líka. Makríllinn er flakaður og fluttur út frystur. Hluti af makríl-vinnslunni fer einnig fram í nýju verksmiðjunni í Póllandi.

Royal Iceland er eina fyrirtækið hér á landi sem stundar veiðar og vinnslu á beitukóngi. Í fyrra veiddust 360 tonn af beitukóngi sem er soðinn í skelinni í vinnslunni í Njarðvík og seldur að stærstum hluta til Kína og vesturstrandar Bandaríkjanna.

Kílóið á 20.000 kr.

Eftir beitukóngsvertíðina fer bátur Royal Iceland á ígulkerjaveiðar í Breiðafirðinum. Fyrirtækið hefur sérhæft sig í hrognavinnslu úr ígulkerjunum fyrir sushi-markaðinn. Lífi er haldið í ígulkerjunum alveg fram að vinnslu sem er flókin og vandasöm en það er eftir miklu að slægjast því ígulkerjahrogn eru dýrasta sjávarafurðin sem seld er frá Íslandi. Þau eru unnin í margvíslegar pakkningar eftir stærð og lit hrognanna. Dýrasta varan fer á sushi-markaðinn og kostar nálægt 20.000 krónum kílóið. Úr hverju ígulkeri fást hins vegar ekki nema örfá grömm af hrognum.

Þetta eru því fimm mismunandi vertíðir sem og fimm gerólíkir markaðir sem Royal Iceland er að fást við. Lúðvík Börkur segir flækjustigið hátt en með samstilltu átaki og mikilli reynslu hans og meðeigandanna, Kristjáns Hjaltasonar, Jóns Magnús Kristjánssonar og Jóns Guðmanns Péturssonar, hefur fyrirtækið styrkt sig í sessi og vaxið í það að halda uppi atvinnu fyrir 20–40 manns eftir vertíðum.

Tollfrjálst aðgengi að Evrópu

Til þess að komast nær sínum helstu mörkuðum í Evrópu opnaði Royal Iceland verksmiðju í Póllandi í fyrra. Lúðvík Börkur segir ávinninginn af því margháttaðan. Leiðin inn á markaðinn styttist, tollar eru ekki lagðir á vörur verksmiðjunnar, allur kostnaður í tengslum við aðföng sé mun lægri og launaliðurinn er mun lægri en menn eiga að venjast á Íslandi.

„Við tókum strax þá stefnu að hefja dreifingu til lítilla heildsala í stað þess að selja til stórra innflutningsfyrirtækja. Það sem við fáumst við þarna kallast á ensku „asian food distribution“, eða dreifing á matvælum fyrir asíska eldhúsið í Evrópu með aðaláherslu á japönsku veitingastaðina. Saga sushi-veitingastaða í Evrópu er ekki löng. Hún hefst raunar ekki að ráði fyrr en í byrjun tíunda áratugar síðustu aldar. Gömlu rógrónu fyrirtækin í matvæladreifingu í Evrópu lögðu sig ekki eftir því að skilja flækjustigið sem fylgir dreifingu á sushi. Það dugar til að mynda ekki að bjóða sushi-veitingastað þrjár tegundir af hrísgrjónum því hann þarf að minnsta kosti átján tegundir. Af þessari ástæðu varð til alveg ný dreifingarleið innan Evrópu. Alls staðar voru stofnuð sérhæfð „asian food distribution“-fyrirtæki. Sérhæfingin felst í hinu mikla vöruúrvali,“ segir Lúðvík Börkur.

Sérhönnuð verksmiðja

Framleiðslustjóri hjá Royal Iceland er Pólverjinn Mariusz Andruszkiewicz sem hefur starfað þar alveg frá því fyrirtækið hér Bakkavör Ísland. Reyndar eru allir millistjórnendur Pólverjar. Það lá því beinast við að setja upp framleiðslueiningu í Póllandi þar sem millistjórnendurnir eru á heimavelli. Eftir mikla leit að hentugu húsnæði keypti Royal Iceland 50 ára gamla brauðverksmiðju í bænum Znin í Mið-Póllandi. Eitt og hálft ár tók að endurbyggja húsið nánast frá grunni. Vinnsla hófst þar í fyrra. Japanskir viðskiptavinir sem hafa skoðað verksmiðjuna hafa lokið miklu lofsorði á hana og segja hana vera fyrstu verksmiðjuna í Evrópu sem er sérstaklega hönnuð til að framleiða slíkar vörur inn á asíska markaðinn. Framleiðslugeta verður fimmföld á við það sem hún er í verksmiðjunni í Njarðvík. Einkum þrennt vinnst með því að flytja hluta af vinnslunni til Póllands; í fyrsta lagi mun lægri launakostnaður, minni fraktkostnaður frá Íslandi, lægri kostnaður í tengslum við aðföng og tollfrjálst aðgengi að mörkuðum í Evrópu.

„Launaliðurinn breytir auðvitað miklu. Við getum leyft okkur að vera í mannaflsfrekri framleiðslu eins og makrílvinnslu. Þarna skerum við til dæmis makrílflök í átta gramma sneiðar og tuttugu sneiðum er raðað í hvern bakka. Hver sneið passar ofan á einn sushi-rétt.“

Royal Iceland er fyrirtaks dæmi um fyrirtæki sem hefur vaxið og dafnað í gegnum sérhæfingu í veiðum, vinnslu og ekki síður sölu- og markaðsmálum. Það skapar mikinn virðisauka eftir leiðum sem á Íslandi eru óhefðbundnar, eins og í vinnslu hrogna úr bolfiski og ígulkerjum og áherslu á matvæladreifingu fyrir asíska eldhúsið í Evrópu.

Viðtalið er eftir Guðjón Guðmundsson og birtist í Fiskifréttum, það er birt með leyfi blaðsins.

Royal Iceland greiðir helmingi hærra verð fyrir heil hrogn.

Lúðvík Börkur ásamt Mariusz Andruszkiewicz, framleiðslustjóra, við þorskhrognamassa.

MARGT FLEIRA Í FJÖLBREYTTUM 76 BLS. VÍKURFRÉTTUM VIKUNNAR