Nettó
Nettó

Viðskipti

Hótel og heilsulind Bláa Lónsins einn af 100 bestu stöðum heims
Laugardagur 25. ágúst 2018 kl. 06:00

Hótel og heilsulind Bláa Lónsins einn af 100 bestu stöðum heims

Time Magazine hefur valið nýtt hótel og heilsulind Bláa Lónsins sem einn af hundrað bestu stöðum heims 2018  „Þetta er mikill heiður fyrir okkur enda er Time Magazine eitt víðlesnasta tímarit heims,“ segir Már Másson, yfirmaður markaðs- og mannauðsmála hjá Bláa Lóninu. „Athyglin sem nýja hótelið, heilsulindin og veitingastaðurinn hafa fengið, á þeim stutta tíma sem liðinn er frá opnun, er enn ein rósin í hnappagat starfsfólks Bláa Lónsins.“

Þetta er í fyrsta sinn sem Time Magazine velur Heimsins bestu staði en þeim er skipt niður í þrjá flokka; þjóðgarða og söfn, veitingastaði og hótel. Ritstjórar og fréttaritarar tímaritsins stóðu að valinu ásamt hópi sérfræðinga í ferðaþjónustu. Hver staður var metinn út frá nokkrum lykilþáttum - þar á meðal gæðum, frumleika, nýsköpun og sjálfbærni.

Í Time segir meðal annars að mikil fjárfesting hafi átt sér stað í ferðamannaiðnaðinum á undanförnum árum og að Bláa Lónið sé eitt megin aðdráttarafl landsins. Þar hafi nú opnað nýtt hótel sem er umlukið 800 ára gömlu hrauni, þar sé að finna dýrindis veitingastað, neðanjarðarheilsulind og 62 herbergi, þar af fjögur sem hafi aðgang að einkalónum.

Listi Time Magazine er afar fjölbreyttur og telur 100 staði í sex heimsálfum og 48 löndum – allt frá vatnsrennibrautagarði í Texas sem er sniðinn að þörfum barna með sérþarfir yfir til neðansjávarbyggðar á Maldíveyjum og, sem fyrr segir, nýs hótels og heilsulindar Bláa Lónsins.

Sjálft Bláa Lónið er eitt þekktasta vörumerki Íslands og hefur National Geographic  meðal annars valið það sem eitt af 25 undrum veraldar.

Greinina í Time má finna hér:

http://time.com/collection/worlds-greatest-places-2018/

(e. World Greatest Places 2018).

Ljósmyndastofa Oddgeirs
Ljósmyndastofa Oddgeirs