Viðskipti

Grindavík getur aftur farið að vaxa og dafna
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
laugardaginn 1. júní 2024 kl. 06:09

Grindavík getur aftur farið að vaxa og dafna

Einhamar Seafood í Grindavík í góðum gír

„Það er allt komið í svipað horf og í fyrra, við erum ennþá með skrifstofuaðstöðuna líka í Hafnarfirði og verðum með út árið þannig að ég sé ekkert því til fyrirstöðu að Grindavík geti strax lifnað við og farið að vaxa og dafna,“ segir Stefán Kristjánsson, eigandi og framkvæmdastjóri Einhamars Seafood ehf. í Grindavík.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Stefán er þó eini starfsmaðurinn sem þarf ekki að keyra nema þrjár mínútur til vinnu, allir aðrir starfsmenn búa utan Grindavíkur.

„Við höfum verið með fulla vinnslu núna í talsverðan tíma og í raun er enginn munur á starfsemi okkar núna eða á sama tíma í fyrra. Bátarnir luku vertíðinni hér og eru komnir austur, veiðin hefur verið ágæt þar en áfram er allt unnið hér í Grindavík. Við erum með svipaðan starfsmannafjölda núna og í fyrra og það er í raun allt eins nema hluti skrifstofustarfsfólks vinnur enn í Hafnarfirði. Það hefur komið sér vel að vera með bækistöð þar líka, margir starfsmanna okkar búa þar og kíkja oft við í kaffi og við munum halda þessu húsnæði út árið að minnsta kosti. Þegar allt verður komið í eðlilegt horf í Grindavík og allir starfsmenn fluttir heim, geri ég nú ekki ráð fyrir að halda þessu fyrirkomulagi en þó veit maður aldrei.

Ef þú spyrð mig hvernig ég telji stöðuna verða fyrir sjómannadaginn að ári, vona ég að ennþá fleiri Grindvíkingar verði fluttir heim og síðast en ekki síst að bærinn verði opinn upp á gátt. Það er löngu tímabært að hætta með þessa tilgangslausu lokunarpósta og ég bind vonir við nýju framkvæmdanefndina sem tekur til starfa 1. júní. Það er margt sem betur mætti fara og verður vonandi hægt að laga, þá á ég t.d. við allt varðandi Þórkötlu. Vonandi fáum við fund með þeim sem þar ráða ríkjum, ég hlakka til að heyra ástæðu þess að Grindvíkingar verði að taka ákvörðun fyrir áramót hvort þeir ætli að selja húsið sitt eða ekki. Af hverju þurfum við að flýta okkur með svo stóra ákvörðun, það er eins og allt sé gert til að ýta fólki frá Grindavík, þegar stefnan ætti að vera akkúrat í hina áttina. Ég trúi því að hægt verði að laga þessi mál og er bjartsýnn á framtíð bæjarins.“

Stefán sást ekki mikið á leikjum hér áður fyrr en í dag er hann einn ef ekki harðasti stuðningsmaður UMFG.
Mynd/Ingibergur Þór Jónasson

Sálfræðingurinn Stefán

Einhamar Seafood ehf. er að klára sitt annað tímabil sem aðalstyrktaraðili körfuknattleiksdeildar UMFG. Stefán sást ekki mikið á leikjum hér áður fyrr en í dag er hann einn ef ekki harðasti stuðningsmaður liðsins, mætir á alla leiki og ekki nóg með það, mætir með bláa stríðsmálningu í andlitinu! Blaðamaður heyrði í vini hans, sem hingað til hefur ekki haft taugar til að horfa á leikina í sjónvarpinu, hvað þá að mæta, en eftir spjall við Stefán líður viðkomandi eins og hann hefði verið hjá sálfræðingi. Því lá beinast við að spyrja Stefán hvort útgerðarmaðurinn sé á leiðinni út og sálfræðingurinn inn?

„Já, ég sagði þessum vini mínum að þetta þyrfti ekki að vera svona flókið, ef við töpum fyrir Val þá áttum við einfaldlega ekki skilið að vinna. Hvort þessi vinur minn lítur á þetta sem einhverja voðalega sálfræðiaðstoð skal ég ekki segja til um, mig grunar að hann sé nú eitthvað að slá á léttu strengina en ef hann lítur svo á, mun ég að sjálfsögðu senda honum reikning fyrir sálfræðiaðstoð,“ sagði Stefán að lokum.