Flugger
Flugger

Viðskipti

Góð afkoma HS Orku árið 2023
Föstudagur 10. maí 2024 kl. 09:40

Góð afkoma HS Orku árið 2023

Rekstur HS Orku gekk vel á árinu 2023 og var afkoma góð þrátt fyrir áskoranir af völdum náttúruvár á síðasta ársfjórðungi. Rekstrartekjur námu um þrettán milljörðum króna og hækka um 22% á milli ára. Munar þar mestu um aukna raforkusölu á hinum almenna markaði með  meiri eigin framleiðslu og aukinni sölu upprunaábyrgða. Fjárhagsstaða félagsins er sterk og nam eigið fé 31,5 milljörðum í árslok og eiginfjárhlutfall er 42%.

Alls fjárfesti HS Orka fyrir tæpa ellefu milljarða króna á árinu, annars vegar til frekari innviðauppbyggingar á Reykjanesi og hins vegar með kaupum á Íslenskri Orkuvirkjun Seyðisfirði ehf. (ÍOVS) en félagið á og rekur tvær vatnsaflsvirkjanir í Fjarðará í Seyðisfirði. Kaupin á ÍOVS voru fjármögnuð að stærstum hluta með hlutafjárhækkun beggja hluthafa.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Framkvæmdir við stækkun og endurbætur orkuversins í Svartsengi hófust af fullum krafti á árinu en fyrsta skóflustungan að þessu stóra innviðaverkefni var tekin í árslok 2022. Heildarkostnaður við framkvæmdina er áætlaður ríflega tólf milljarðar króna.

Eldsumbrot og jarðhræringar á síðari hluta árs 2023 höfðu óveruleg áhrif á afkomu og orkuvinnslu HS Orku á árinu. Framkvæmdir við stækkun og endurbætur í Svartsengi lágu niðri um tíma vegna jarðhræringa en vel hefur gengið að vinna upp seinkun sem af því hlaust.

Rekstrarhagnaður (EBITDA) var 6.037 milljónir króna árið 2023 samanborið við 4.591 milljón króna árið áður og hækkar því um 32% á milli ára.

Hagnaður fyrir skatta nam 1.784 milljónum króna á árinu 2023, samanborið við hagnað fyrir skatta að fjárhæð 87 milljónir árið 2022. Fjármagnsliðir setja verulegt mark á liðinn í samanburði á milli ára en í stórum dráttum skýrist breytingin annars vegar af hagfelldri gengisþróun íslensku krónunnar á árinu 2023, gengishagnaður nam 1.019 milljónum króna samanborið við gengistap 1.807 milljónum króna árið áður og hins vegar af auknum vaxtagjöldum samhliða hærra vaxtastigi og fjárfestingum.

„Við erum stolt af afkomu ársins 2023 en HS Orka sýndi styrk sinn svo um munar á árinu þrátt fyrir aðsteðjandi náttúruvá. Styrkurinn speglast annars vegar í kaupum á Fjarðarárvirkjunum og umfangsmikilli uppbyggingu í Svartsengi og hins vegar í skjótum viðbrögðum og aðlögunarhæfni félagsins í kjölfar jarðhræringanna við Sundhnúksgíg. Upp úr stendur gott samstarf við almannavarnir og aðra viðbragðsaðila í kjölfar eldsumbrota í Fagradalsfjalli í mars 2021, sem skilaði sér m.a. í skjótri uppbyggingu varna fyrir byggð í Grindavík og samfélagslega mikilvæga innviði í Svartsengi.

Frá upphafi jarðhræringanna hefur orkuvinnsla félagsins á Reykjanesi verið órofin en frá reikningsskiladegi hafa fleiri áskoranir blasað við. Fjórða eldgosið við Sundhnúksgíg stendur yfir, hraun rann yfir mikilvægar stofnæðar og flytja hefur þurft stóran hluta af starfsemi félagsins úr Svartsengi. HS Orka stendur engu að síður á styrkum stoðum sem gera félaginu kleift að takast á við slíkar áskoranir samhliða því að vinna áfram að metnaðarfullum þróunarverkefnum í orkuvinnslu og sjálfbærni,“ segir Tómas Sigurðsson, forstjóri HS Orku.