Viðskipti

Fullkomnasta eldhús landsins og stærra húsnæði
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
föstudaginn 29. september 2023 kl. 06:12

Fullkomnasta eldhús landsins og stærra húsnæði

Skólamatur framreiðir 15.000 máltíðir á dag fyrir leik- og grunnskólabörn | Þjónustar áttatíu og fimm skóla | Húsnæðið stækkað um 1.500 fermetra

Skólamatur fagnaði í síðustu viku að búið er að byggja 1.500 fermetra fullkomið og sérhæft húsnæði við Iðavelli í Keflavík fyrir starfsemi fyrirtækisins. Þar af er nýbygging upp á samtals 830 fermetra. Húsnæðið hentar til að þjónusta mötuneyti leik- og grunnskóla þannig að hægt sé að senda mat frá eldhúsinu í Reykjanesbæ sem er tilbúinn til eldunar í skólum sem eru í viðskiptum við Skólamat. Alls þjónustar Skólamatur 85 leik- og grunnskóla á suðvesturhorni landsins. Hjá Skólamat starfa 170 manns.Nýja húsnæðið í Reykjanesbæ er stór áfangi í rúmlega tveggja áratuga sögu Skólamatar. Jón Axelsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, sagði í opnunarhófinu að starfsemi fyrirtækisins hafi vaxið um ca. 10% á ári í tuttugu ár. „Og til þess að takast á við vöxt þurfa innviðir að vaxa með, ekki of hratt og alls ekki of hægt,“ sagði Jón.

Skólamatur fagnaði árið 2016 breytingu á miðlægu eldhúsi fyrirtækisins sem er 380 fermetrar og í kjölfarið var vöruafgreiðslulager stækkaður ú 170 í 340 fermetra. Strax í kjölfarið á þeim breytingum hófst undirbúningur þessa húsnæðis sem nú hefur verið opnað. Þar var áður trésmiðja í hluta hússins og Fjölbrautaskóli Suðurnesja var með hluta af iðnnámi sínu í húsinu á árum áður. Ráist var í mikla endurnýjun á eldri 680 fermetrum og viðbyggingu á tveimur hæðum upp á 830 fermetra, eins og áður segir. Til viðbótar við þessa 1.500 fermetra nýtir Skólamatur einnig aðra 1.000 fermetra í næsta húsi við hliðina.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

„Fyrir mikilvægasta fólkið,“ er slagorð Skólamatar en fyrirtækið framreiðir um 15.000 máltíðir í hverju hádegi, auk morgunmatar og síðdegishressinga þar sem við á. Eldhús Skólamatar við Iðavelli er án efa með stærstu og fullkomnustu eldhúsum landsins, ef ekki það stærsta.

„Axel Jónsson stofnandi Skólamatar segir oft „Þú uppskerð eins og þú sáir“. Og uppskera Skólamatar hefur svo sannarlega verið góð. Það eru forréttindi að fá að vinna við að bjóða upp á hollan mat fyrir mikilvægasta fólkið okkar, börn og unglinga. Þau eru framtíðin,“ sagði Jón í ávarpi sínu.

„Allur árangur okkar gerist vegna þess að starfsfólkið er að skila góðu starfi sem viðskiptavinum líkar og þannig vex umfangið.

Gildin sem við vinnum eftir eru: Jákvæðni, virðing, fjölskylda. Og það eru leiðarljós sem hafa skilað okkur miklum árangri,“ sagði Jón.

Skólamatar fjölskyldan. Axel Jónsson og Þórunn Halldórsdóttir, Jón og Fanný Axelsbörn. VF/pket

Skólamatur er 24 ára gamalt fjölskyldufyrirtæki sem Axel Jónsson stofnaði á sínum tíma en hann hefur verið veitingamaður á Suðurnesjum í áratugi. Í viðtali við Suðurnesjamagasín Víkurfrétta í síðustu viku sagði Axel að ævintýrið með skólamatinn hafi byrjað þegar Magnús Gunnarsson, þáverandi bæjarstjóri í Hafnarfirði, hafði samband við Axel. Hafnfirðingar höfðu þá verið í vandræðum með að ráða til sín matráða á fjóra leikskóla. Úr varð að fyrirtæki Axels tók að sér eldun fyrir leikskólana. Fljótlega bættist svo grunnskóli á höfuðbrogarsvæðinu við. Boltinn hélt áfram að rúlla og Grunnskóli Grindavíkur varð fyrsti skólinn á Suðurnesjum til að koma í viðskipti við Skólamat. Í dag eru leik- og grunnskólarnir orðnir áttatíu og fimm talsins.

Í spilara hér að neðan má horfa og hlusta á viðtöl við Axel Jónsson og börnin hans, þau Jón og Fanný, sem sjá um rekstur Skólamatar í dag. Jón er framkvæmdastjóri og Fanný sér um starfsmannamálin. Myndir frá opnunarhófinu eru í myndasafni neðst á síðunni.

Skólamatur | Opnunarhóf 21. september 2023