Viðskipti

Fólk er farið að þora aftur
Eðvald Heimisson verslunarstjóri og Guðmundur Ragnar Brynjarsson í verslun Slippfélagsins. VF-myndir/Marta.
Þriðjudagur 21. apríl 2020 kl. 17:35

Fólk er farið að þora aftur

Slippfélagið er eitt af elstu málningarfyrirtækjum landsins, var stofnað árið 1902. Í upphafi einskorðaðist starfsemin við skipaviðgerðir og tengd verkefni en árið 1951 hóf félagið framleiðslu á málningu. Félagið selur flestar gerðir af málningu, húsamálningu og viðarvörn. Í umhverfismálum er stefna félagsins að sem flestar vörur þess séu umhverfisvænar og því eykst sífellt framboðið á slíkum vörum. 

Við Hafnargötu 61 rekur Slippfélagið rúmgóða verslun. Þar er fagmennskan í fyrirrúmi með tveimur starfsmönnum, þeim Eðvald Heimissyni, verslunarstjóra, og Guðmundi Ragnari Brynjarssyni en báðir eru þeir með sveinsbréf í málaraiðn. 

Nóg að gera í nýrri verslun

Það eru greinilega margir að dytta að heima hjá sér þessa dagana, miðað við hversu mikið var að gera í versluninni þegar Víkurfréttir kíktu í heimsókn til að forvitnast um reksturinn. 

„Við fluttum á Hafnargötu 61 í þrefalt stærra húsnæði, opnuðum í janúar á þessu ári. Aukning í verslun hefur verið framar öllum vonum, gengið rosalega vel. Slippfélagið er gamalgróið fyrirtæki, yfir hundrað ára gamalt. Þeir eru með efnafræðinga í vinnu sem þróa innimálningu og einnig útimálningu sem hentar vel við íslenskar veðuraðstæður. Slippfélagið selur eigin framleiðslu en flytur að auki inn finnska málningu til að bjóða upp á breiðara úrval. Við erum með krítartöflumálningu frá Finnlandi, gólflökk og mublulökk, mikið af hreinsivökva sem undirbýr fyrir málningu og ótal fleira. Ef þú vilt breyta einhverju heima hjá þér þá geturðu gerbreytt með nýjum lit sem er jafnframt ódýrasta lausnin þegar fólki langar að breyta til. Það þarf ekki nema eina helgi til að umbylta heimili með nýjum litum. Fólk er sérlega duglegt að mála um páska og þegar aðrir frídagar lengja helgarnar,“ segir Elli Heimis, sem er fæddur og uppalinn í Keflavík. 

Getum umbreytt heimili með nýjum lit

Elli hefur verið lengi í bransanum en hann rak eitt sinn Litaríki við Baldursgötu í Keflavík.

„Ég er búinn að vera í þessu síðan árið 1997, alltaf verið viðloðandi málningu og lærði fyrst hjá Birgi Guðnasyni, málarameistara, tók mér pásu og kláraði svo loks sveinsprófið árið 2008. Ég var sextán, sautján ára gamall þegar ég byrjaði að vinna í dráttarbrautinni og var að mála báta þar. Svo fór ég að vinna með Atla Má Einarssyni, heitnum, en við opnuðum saman Litaríki og rákum það í nokkur ár. Sjálfur er ég alltaf að mála og dútla. Heima hjá mér mála ég á tveggja til fjögurra ára fresti, það má fríska upp á einn vegg eða svo, einnig þegar ég er ekki ánægður með einhvern lit þá er ég fljótur að breyta. Það verður allt svo fínt þegar maður er búinn að mála,“ segir hann og bætir við: „Ég man þegar ég byrjaði að selja málningu, þá hélt ég að ég kynni svo mikið en komst að því að þegar þú ferð að selja málningu þá þarftu að vita svo miklu meira en þetta lærðist með árunum. Maður bara málaði, spáði ekkert í innihald, þegar ég var að byrja. Nú er strangt eftirlit með málningu sem þarf að vera vistvæn og nánast lyktarlaus. Allt í einu er málning tekin af markaði, eins og gamla útiolíumálningin sem var sum full af blýi. Smátt og smátt hreinsast af markaði málning sem ekki er talin holl fyrir umhverfi okkar eða mannfólkið.“ 

Fagmenn eru í meirihluta hjá fyrirtækinu

Guðmundur Ragnar Brynjarsson starfar einnig hjá Slippfélaginu.

„Ég er aðfluttur andskoti, eins og bæjarbúar kalla mig, flutti úr Reykjavík í Sandgerði fyrir svona fimm árum þegar ég kynntist stelpu hér fyrir sunnan. Ég vann fyrst hjá Slippfélaginu í Hafnarfirði en gat flutt mig hingað í Keflavík þegar hentaði mér betur að starfa hér suður frá. Ég er með sveinsbréf í málaraiðn, eins en langflestir sem starfa hjá fyrirtækinu eru faglærðir, sem gerir það að verkum að viðskiptavinir okkar fá flotta aðstoð. Við getum leiðbeint viðskiptavinum okkar um hvernig á að vinna með efnið, undirbúa fyrir málningu og aðstoðað við litaval, hvaða efni á við hvar. Það er stundum auðvelt að klúðra hlutum, sérstaklega þegar fólk hefur litla reynslu.“

Málning er umhverfisvænni í dag

„Við bjóðum upp á íslenska málningu sem er mjög góð. Finnska málningin er einnig mjög góð og þekur vel, eins og sú íslenska. Málningarvörur eru í stöðugri þróun og nýju efnin eru umhverfisvænni. Málningin okkar er í meirihluta svansmerkt en krafan er meiri en áður um náttúruvænar vörur. Fólk er meira eða minna að nota vatnsmálningu í dag. Það hefur verið mikið að gera hjá okkur enda er fólk að mála fyrir fermingar, afmæli og aðrir fyrir páska og fyrir jól. Manni líður alltaf svo vel eftir að hafa málað inni hjá sér, allt verður svo hreint og fínt. Langflestir mála inni hjá sér á veturna. Þegar sumarið kemur þá vakna allir sem ætla að mála húsið að utan, grindverkið eða pallinn. Miklar breytingar verða við að mála, það er bara svoleiðis,“ segir Guðmundur Ragnar. 

Tískulitir vorsins

„Nú er fólk að byrja að mála aftur í litum, í sterkum litum, bláum, rauðum og fleiri litum, fólk er farið að þora meira aftur. Við erum mjög ánægðir með erilinn hjá okkur í nýju versluninni. Málarameistarar versla mikið hjá okkur, það er alltaf þörf fyrir þessa iðnaðarmenn sem mála af fagmennsku og gera það vel,“ segir Eðvald Heimisson að lokum. 

Margir eru að dytta að heimili sínu

Að lokum spurðum við Ella Heimis hvernig verslunin hafi gengið núna undanfarnar vikur, á tímum kórónaveirunnar: „Gríðarlega aukning hefur orðið í versluninni, mjög mikið að gera, eins og um hásumar. Það virðast allir vera að mála og gera eitthvað heima hjá sér þessa dagana, það er bara þannig.“