Pistlar

Slagorðaslagur
Föstudagur 24. september 2021 kl. 09:24

Slagorðaslagur

Hækkum barnabætur um 900.000 fyrir einstætt foreldri með tvö börn. Fólkið fyrst svo allt hitt. Alvöru aðgerðir í loftslagsmálum. Róttækni ekkert kjaftæði. Þjónustuvæðum heilbrigðiskerfið. Það skiptir máli hver stjórnar. Orku á alla staði. Gefðu framtíðinni tækifæri. Land tækifæranna. Grænir hvatar eru framtíðin. Notum hreina orku. Hættum að nota olíu. Lægri vextir eru framtíðin. Lægri skattar betri lífskjör. Sanngjarn sjávarútvegur er framtíðin. Heilbrigðiskerfið er dýrmætt. Burt með biðlistana. Stuttir biðlistar eru framtíðin. Jafnrétti óháð búsetu. Meiri mannúð. 60.000 kr. vaxtarstyrkur fyrir öll börn. Enn fleiri friðlýsingar. Fjárhagslegt öryggi fyrir fjölskylduna. Við styðjum lítil og meðalstór fyrirtæki. Þjóðin kýs almannaþjónustu. Lýðræði ekkert kjaftæði. Velsæld. Betra og réttlátara lífeyriskerfi. Mannréttindi. Stórbætum kjör eldra fólks. Við erum rétt að byrja. Hækkum barnabætur um 77.000 á mánuði fyrir einstætt foreldri með tvö börn. 41,8% þjóðarinnar vill Katrínu áfram í embætti forsætisráðherra. Það hefur aldrei verið mikilvægara að setja X við M. Er ekki bara best að kjósa Framsókn? Fjárfestum í fólki. Framtíðin ræðst á miðjunni. Eyðum biðlistum í heilbrigðiskerfinu. Gefum framtíðinni tækifæri. Tækifæri eiga ekki að vera forréttindi. Réttlátara skattkerfi. Enginn afsláttur í loftslagsmálum. Heilbrigðisskimun fyrir alla. Lækkum kostnað heimilanna. Lækkum skatta á barnafólk.

Blanda af slagorðum í kosningabaráttu stjórnmálaflokkanna. Endurvinnsla gamalla loforða sem ekki stendur til að standa við. Þau verða öll fórnarlömb í stjórnarmyndunarviðræðna. Undanfarin tvö ár höfum við lútið stjórn sóttvarnarlæknis. Íslandi er stjórnað af embættismönnum og því má spyrja hvort kosningar skipti í raun máli. Eru kosningar lýðræðisveisla eða kappleikur um hverjir komast til valda? Þegar barátta flokkanna er skoðuð gaumgæfilega má finna mikinn samhljóm um mörg mál. Til dæmis um heilbrigðiskerfið. Það vilja allir útrýma biðlistum. Af hverju er þá ekki búið að því fyrir löngu?  Allir lofa grænni framtíð. Af hverju er þá framtíðin ekki grænni nú þegar?

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Það virkar vel í kosningabaráttu að lofa að gefa fólki peninga. Peninga sem eru sóttir úr vösum einhverra annarra. Það skiptir þá engu máli hvort menn kunni að reikna eða ekki. Bara að slagorðin hljómi vel. Gefins peningar eru góðir. Það þekkja kennararnir í Reykjanesbæ sem áttu að fá 500.000 kr. eingreiðslu að loknum síðustu sveitarstjórnarkosningum.

Kosningabaráttan er nú í hámarki og niðurstöður liggja fyrir um helgina. Ég tók sjálfur þátt í lýðræðisveislunni fyrr í vor og skíttapaði. Viðurkenni fúslega að ég hafði ekki áttað mig á því að menn sökkva miskunnarlaust mörgum milljónum í prófkjörsbaráttu bara til að halda sæti sínu á Alþingi. Hversu þungt vegur eigin sannfæring stjórnmálamanns sem eyðir þremur til tíu milljónum í kosningabaráttu innan eigin flokks og þiggur styrki frá einstaklingum og fyrirtækjum til að fjármagna baráttuna. Er viðkomandi stjórmálamaður eða málaliði?

Það er vitlaust gefið í samfélaginu okkar á margan hátt. Stjórnmálaflokkar voru í eina tíð reknir af frjálsum framlögum þeirra sem í flokkunum voru. Þeir voru frjáls lýðræðissamtök. Í dag þiggja flokkarnir milljarða úr ríkissjóði. Helsta starfssemi kerfisins er að moka undir sig sjálft – en á laugardaginn er komið að þátttöku almúgans. Einu sinni á fjögurra ára fresti. Að greiða atkvæði. Lýðræði, ekkert kjaftæði? Fyrir framtíðina. Lýðræðisveisla.

Þingmaður á að vera þjónn fólksins. Þjónn samfélagsins. Ekki öfugt. Því er gott að hafa í huga þegar gengið er í kjörklefann að sá eða sú sem þið kjósið mun á næsta kjörtímabili þiggja um 100 milljónir úr sameiginlegum sjóðum þjóðarinnar fyrir að vera þingmaður. Þið eruð að kjósa fólk til þeirra eigin velmegunar. Er viðkomandi að fara tryggja þína?

Ég hvet alla til að mæta á kjörstað og kjósa. Kjósið þann einstakling sem þið teljið að muni helst gera samfélagi ykkar gagn og á raunverulegan möguleika að komast að á þing. Ef ykkur líst ekki á neinn. Skilið þá auðu. Það væri vit ef auð atkvæði myndu telja til að fækka þingmönnum.