Pistlar

Nafnið Ágúst Guðmundsson GK í sex áratugi á bátum
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 12. nóvember 2021 kl. 11:05

Nafnið Ágúst Guðmundsson GK í sex áratugi á bátum

Þá höldum við áfram að fara aðeins í útgerðarsögu í Vogum. Í síðasta pistli var fjallað um Voga hf. en sá pistill vakti mikla athygli og bárust mér þónokkrar ábendingar um að það vantaði meira í sögu þess fyrirtækis. Nánar um það síðar.

Á svipuðum tíma, um 1940, þegar verið var að stofna Voga hf., hóf Magnús Ágústsson, ásamt Guðmundi Ívari og Ragnari bræðrum sínum, útgerð frá Vogum á litlum sex tonna báti. Þeir réru frá Halakoti. Árið 1949 kaupa þeir bátinn Óðinn VE og gáfu honum nafnið Ágúst Guðmundsson GK 95. Nafnið kom frá föður þeirra og bátar með þessu nafni áttu eftir að verða alls fimm talsins.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Þennan bát áttu þeir bræður til ársins 1957 þegar hann var seldur til Keflavíkur og fékk þar nafnið Ólafur KE. Saga bátsins endaði því miður ekki vel. Árið 1973 er hann seldur til Garðs og fékk þar nafnið Sveinn Guðmundsson GK. Í september árið 1992 var báturinn á rækjuveiðum við Eldey og var á landleið en níu bátar voru á veiðum þarna þegar báturinn hvarf mjög snögglega af ratsjá. Oddur Sæmundsson, skipstjóri á Stafnesi KE, var fyrstur til þess að tilkynna um hvarf bátsins. Áhöfn bátsins, þrír menn, fórst öll. Í kirkjugarðinum að Útskálum í Garðinum er mjög fallegur minningarreitur um þetta hörmulega slys.

Höldum áfram með þá bræður í Vogum. Árið 1957 láta þeir smíða fyrir sig nýjan bát í Danmörku sem fékk nafnið Ágúst Guðmundsson GK 95 og var hann gerður út fram til ársins 1970. Það bættist í flotann hjá þeim því aftur láta þeir smíða fyrir sig bát í Danmörku og kom hann til landsins árið 1963 og fékk nafnið Ágúst Guðmundsson II GK 94 og var hann gerður út til ársins 1980. Hann var seldur til Sandgerðis og fékk þar nafnið Sigurjón GK og má geta þess að einn af eigendum bátsins var Grétar Mar Jónsson, skipstjóri. Árið 1970 selja þeir bátinn sem þeir fengu 1957 og kaupa 101 tonna bát frá Ísafirði. Sá fékk nafnið Ágúst Guðmundsson GK 95 og var gerður út fram til ársins 1982 þegar hann var seldur.

Árið 1980 þá kaupir Valdimar hf. fyrsta stálbátinn sinn þegar útgerðin kaupir Sóley ÍS frá Flateyri. Þessi bátur var ansi sérstakur því það var búið að setja skutrennu á hann Hann fékk nafnið Þuríður Halldórsdóttir GK 94, eftir móður þeirra. Sá bátur var gerður út til 1991 þegar hann var seldur, en saga bátsins náði alveg til ársins 2017 þegar að útgerð hans var endanlega hætt en þá var hann á Sauðárkróki og hét þar Röst SK og stundaði rækjuveiðar. 

Árið 1992 kaupir fyrirtækið 39 metra langan togara sem fékk nafnið Þuríður Halldórsdóttir GK 95 og var sá togari gerður út með þessu nafni í tvö ár þegar að nafni togarans er breytt yfir í Sturla GK. Þá var einn annar togari keyptur. Það var Hafnarey SU, sem var keypt frá Breiðdalsvík.  Sá togari 39 metra langur og fékk nafnið Þuríður Halldórsdóttir GK og var með þessu nafni ansi lengi eða fram til ársins 2007. Þess má geta að sá togari er ennþá til og heitir í dag Jón á Hofi ÁR. Hann var smíðaður á Akranesi og var einn af svokölluðum raðsmíðatogurum sem voru smíðaðir innanlands á árunum 1980 til 1984.

Báturinn og togarnir sem voru með nafninu Þuríður Halldórsdóttir GK voru að langmestu leyti gerðir út til togveiða og þar sem að höfnin í Vogum var nú ekki það stór og með nægilega miklu dýpi þá lönduðu þessir þrír að mestu í Njarðvík, Grindavík og Sandgerði og var aflanum ekið til Voga til vinnslu.

Það kemur fram að ofan að Ágúst Guðmundsson GK 101 tonna báturinn hafi verið seldur 1982. Þá kaupir Valdimar hf. stálbát frá Þorlákshöfn og fær hann nafnið Ágúst Guðmundsson GK 94 og er sá bátur með ansi langa útgerðarsögu því hann var gerður út til ársins 2000 þegar hann var seldur. Sá bátur var síðasti báturinn sem hafði nafnið Ágúst Guðmundsson GK því var saga nafnsins í útgerð ansi löng, eða tæp 60 ár.  

Nánar um útgerðarsöguna í næsta pistli.