Pistlar

Léleg veiði, norðanbræla og kuldi
Föstudagur 1. nóvember 2019 kl. 15:23

Léleg veiði, norðanbræla og kuldi

Október er að líða undir lok og eins og fram hefur komið í pistlum októbermánaðar þá hafa aflabrögðin ekki verið neitt til að hrópa húrra yfir.

Ekki bætti úr skák að norðanbræla var í tæpa fimm daga með tilheyrandi kulda. Þegar talað er um aflabrögðin þá er best að horfa á stóru línubátana. Október hefur vanalega verið einn af stóru mánuðunum í afla línubátanna og aflinn hjá stóru bátunum hefur náð því að komast yfir 500 tonn. Eitt sinn komst gamli Sighvatur GK í 600 tonna afla í október en núna er nýi Sighvatur GK aflahæstur þegar þetta er skrifað með aðeins 384 tonna afla í fjórum róðrum. Fjölnir GK er með 376 tonn í fjórum róðrum, Páll Jónsson GK 323 tonn í fimm, Sturla GK 321 tonn í sex, Valdimar GK 315 tonn í fimm, Jóhanna Gísladóttir GK 314 tonn í fjórum, Kristín GK 302 tonn í fimm og Hrafn GK 300 tonn í fimm.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Eins og sést að ofan þá er þetta enginn sérstakur afli miðað við aðra októbermánuði undanfarin ár. Merkilegast við þetta er að ekki hefur einu grammi af þessum afla verið landað í heimahöfn bátanna sem er Grindavík. Flestir bátanna hafa landað á Norðurlandi sem þýðir að flutningarbílstjórar hjá Jóni og Margeiri í Grindavík hafa haft nóg að gera við að sækja fiskinn og aka honum til Grindavíkur.

Skoðum aðeins minni línubátana. Óli á Stað GK er með 115 tonn í 21 róðri, Margrét GK 112 tonn í sautján, Auður Vésteins SU 78 tonn í tíu róðrum, Vésteinn GK 76 tonn í tíu, Daðey GK 68 tonn í tólf, Gísli Súrsson GK 61 tonn í níu, Sævík GK 57 tonn í níu, Geirfugl GK 52 tonn í fimmtán, Dóri GK 34 tonn í sjö, Guðrún GK 59 tonn í fjórtán, Dúddi Gísla GK 51 tonn í tólf, Gulltoppur GK 32 tonn í ellefu, Beta GK 28 tonn í sex – og það þarf varla að taka það fram að allir þessir bátar eru að landa við Norður- og Austurlandið.

Eru þá engir línubátar á Suðurnesjunum? Jú, reyndar. Þeir eru tveir. Addi Afi GK, sem minnst var aðeins á í síðasta pistli og hefur landað um átta tonnum í þremur róðrum. Svo Guðrún Petrína GK sem fór fyrsta róður sinn sama dag og þessi pistill er skrifaður og var hann með um 2,5 tonn þá. Reyndar kom Alli GK líka til Sandgerðis en hann er búinn að vera fyrir austan í sumar og í september, það verður fróðlegt að sjá hvernig honum mun ganga því hann er með beitningavél en hinir eru balabátar.

Netaveiðin í október er búin að vera mjög léleg og öfugt við október árið 2018, þegar Grímsnes GK mokveiddi upp ufsa austur með suðurströndinni og landaði yfir 200 tonnum. Þá hefur Grímsnes GK aðeins landað fimmtán tonnum núna í átta róðrum. Inni í þessu er smá tilraun en þeir fóru alla leið norður í Skjálfandaflóa og utanverðan Eyjafjörð. Maron GK er með 33 tonn í fimmtán róðrum, Hraunsvík GK ellefu tonn í sex, Sunna Líf GK átta tonn í níu, Halldór Afi GK 7,4 tonn í þrettán.

Þá eru það dragnótabátarnir, þeir eru fáir eins og við vitum en aflinn hjá þeim var þokkalegur. Siggi Bjarna GK með 54 tonn í ellefu róðrum, Benni Sæm GK 52 tonn í tíu, báðir í Bugtinni. Sigurfari GK aftur á móti má ekki veiða í Bugtinni og var hann að veiða á Hafnarleirnum sem eru þekkt dragnótamið undir Hafnarberginu. Nú hefur báturinn farið á smá flakk því hann hefur verið að róa frá Þorlákshöfn og er nú ekkert að fara eitthvað stutt til veiða heldur hefur Sigurfari siglt alla leið að Vík í Mýrdal, það stím tekur um sjö klukkutíma, en aflinn hefur ekkert verið neitt sérstakur þar. Nokkuð merkilegt er með þau mið, því að í október 2018 var Grímsnes GK á netaveiðum á ufsanum svo til á sömu slóðum og Sigufarinn GK er á dragnót þarna undir suðurströndinni. Sigurfari GK er kominn með 68 tonn í fjórtán róðrum og mest 27,5 tonn sem landað var í Sandgerði.