Pistlar

Kosningaloforð
Föstudagur 14. janúar 2022 kl. 06:39

Kosningaloforð

300 störf á uppbyggingartíma, 60 framtíðarstörf í framhaldinu. Framleiðsla hefst vorið 2016.

Svo hljómar inngangur í blaðagrein í Víkurfréttum 27. ágúst 2014, eða fyrir rétt tæpum átta árum. Það er óþarfi að fara yfir sögu kísilversins í Helguvík. Efast um að nokkrum manni hefði tekist að skálda upp slíka atburðarás. Svikamylla.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Nú er að myndast kosningaskjálfti fyrir sveitarstjórnarkosningar í öllum smákóngahéruðuðum landsins. Sveitarfélögin á Suðurnesjum eru þar ekki undanskilin.

Kosningarnar í Reykjanesbæ ættu að verða sögulegar en tveir bæjarfulltrúar voru kjörnir inn á Alþingi nú í haust. Annar þeirra getur þakkað talningamönnum Norðvestur fyrir sitt sæti – hinn flaug inn af því það var best að kjósa bara Framsókn. Kjörið er bæjarbúum Reykjanesbæjar fagnaðarefni og ljóst að störf þeirra á þingi munu reynast bæjarfélaginu farsæl á komandi kjörtímabili.

Þegar kemur að kosningum skiptir miklu máli fyrir þá sem í kjöri eru að stíga engin feilspor – og finna einhver sýndarmálefni sem engu skipta og lofa upp í ermina á sér. Hver man ekki eftir 500.000 króna eingreiðslunni sem kennarar bíða ennþá eftir?

Hvað skyldi það verða núna? Munu kosningarnar snúast um að kennarar fái eingreiðsluna með fjögurra ára verðbótum? Verður það loforð um grímuskyldu næstu fjögur árin og vaxandi atvinnuleysi eða munu málefnin um endurræsingu kísilversins verða ráðandi?

Hvað það verður, veit nú enginn, vandi er um slíkt að spá. En eitt er víst að ég hlakka til að hlusta og er spenntur fyrir komandi kosningum. Ég vona að Reykjanesbær verði íþróttabær á ný og sveitarfélögin á Suðurnesjum verði sameinuð 2026.