Pistlar

Góð veiði hjá línubátunum
Þetta er síðasta myndin sem tekinn var af Arney KE, en hún var tekinn 2017 á Hornafirði en þá hét báturinn Ársæll ÁR, og var þá að fara í brotajárn
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 13. maí 2022 kl. 06:14

Góð veiði hjá línubátunum

Nú líður að vertíðarlokum og nú strax hafa nokkrir bátar yfirgefið Suðurnesin,  t.d eru Sandfell SU, Hafrafell SU og Kristján GK allir komnir austur á firði til veiða.  

Svo til allir línubátarnir voru á veiðum utan við Grindavík og var veiðin hjá þeim góð, t.d var Auður Vésteins SU með 66 tonn í 7 róðrum,  Margrét GK 47 tonn í 7,  Óli á Stað GK 47 tonn í 7,  Indriði Kristins BA 46 tonn í 4, Daðey GK 45 tonn í 6, Vésteinn GK 35 tonn í 4róðrum,  Geirfugl GK 26 tonn í 5, Katrín GK 14 tonn í 3, Hópsnes GK 7,1 tonn í einum og  Dúddi Gísla GK 35 tonn í 4 róðrum.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Reyndar þá fóru tveir bátanna frá Grindavík til Sandgerðis og var Gísli Súrsson GK með 9,5 tonn í einni löndun og Sævík GK 7 tonn í einni löndun,

Undanfarin ár hafa engir línubátar af minni gerðinni verið gerðir út frá Suðurnesjum og væri áhugavert að sjá þó ekki væri nema einn bátur sem myndi róa á línu frá Suðurnesjunum. Í það minnsta er fiskur í sjónum og besta dæmið um það er að stóru línubátarnir frá Snæfellsnesi hafa allan apríl og núna í maí verið á veiðum utan við Sandgerði og gengið vel.

Annars er strandveiðitímabilið hafið og þá fara ansi margir handfærabátar af stað og þeir eru nokkuð margir núna.  Langflestir eru í Sandgerði og lítum aðeins á nokkra. Gola GK 1,7 tonn í 4,  Tjúlla GK 1,6 tonn í 3, Faxi GK 2,8 tonn í 3, Gréta GK 2,6 tonn í 4, Fagravík GK 2,1 tonn í 2, Stakasteinn GK 1,7 tonn í 3, Dóri í Vörum GK 1,7 tonn í 2, Von ÓF 1,6 tonn í 2, Sörvi KE 1,2 tonn í 2 og Kristín GK 1,1 tonn í 2 túrum.  Allir þessir handfærabátar hafa landað í Sandgerði og til viðbótar þeim hafa 15 aðrir færabátar landað.  

Enginn færabátur er í Keflavík en í Grindavík eru 7 færabátar núna í maí. Þar er Þórdís GK með 2,4 tonn í 1, reyndar ekki á strandveiðum, Grindjáni GK 1,6 tonn í 2, Hrappur GK 1,6 tonn í 2 og Sæfari GK 1,1 tonn í 2 róðrum.

Netabáturinn Erling KE er búinn að vera að róa á netum núna í maí frá Sandgerði og gengið bara nokkuð vel. Er kominn með 116 tonn í 7 róðrum og mest 28,5 tonn. Grímsnes GK er hættur netaveiðum því hann er að fara á rækju eins og greint var frá í síðasta pistli.  

Lítið hefur sést til dragnótabátanna og þá sérstaklega þeir sem Nesfiskur á.  Óvenjulega fáir róðrar voru hjá bátunum í apríl, því allir þrír bátarnir fóru aðeins í 4 róðra hver bátur. Og núna í maí hafa þeir ekkert farið á sjóinn, þangað til núna þegar þessi pistill er skrifaður  í upphafi vikunnar, því þá eru Siggi Bjarna GK og Benni Sæm GK á sjónum.  

Annars er pistlahöfundur staddur núna í Stykkishólmi og það er hægt að finna mjög margar tengingar við Suðurnesin og Stykkishólm. Mun hérna tæpa á nokkru. t.d að frá Stykkishólmi var frá sirka 1970 og fram til 1975 gerður út bátur sem hét Arney SH. Þetta nafn Arney er komið frá lítilli eyju sem er út frá Stykkishólmi og eiginlega nær Klofningi á Fellsströnd.  

Í Sandgerði var í vel yfir 20 ár gerður út mikill aflabátur sem hét Arney KE og þar var Óskar skipstjóri í mörg ár. Voru tveir bátar sem voru gerðir út undir þessu nafni Arney KE og sá fyrri sem var með sknr. 1014 var oft aflahæsti netabáturinn á landinu þegar kom að hrygningarstoppinu í apríl en þá var líka kvótinn svo til búinn á bátnum. 

Það má geta þess að myndin sem fylgir með er síðasta myndin sem tekinn var af Arney KE, en hún var tekinn 2017 á Hornafirði en þá hét báturinn Ársæll ÁR, og var þá að fara í brotajárn.  Mikill aflabátur sem Suðurnesjamenn þekktu mjög vel. Seinni Arney KE var lengi Skarðsvík SH og sá bátur er ennþá til í dag og heitir Sighvatur GK, en búið er að breyta bátnum mikið frá því að báturinn hét Arney KE.

Önnur tenging er að eitt elsta sjávarútvegsfyrirtækið í Stykkishólmi heitir Þórsnes ehf. og gerir það út bát sem heitir Þórsnes SH.  Frá árinu 2012 til 2018 þá gerði fyritækið út netabát sem hét Þórsnes SH og sá bátur átti sér mjög langa sögu á Suðurnesjunum því að hann hét mjög lengi Keflvíkingur KE, síðan Bergur Vigfús GK og Marta Ágústdóttir GK. Og meira er hægt að tengja við Þórsnes ehf. því í ansi mörg ár hefur legið við bryggju í Njarðvík bátur sem heitir Fjóla KE. Hann var reyndar tekinn í slipp í Njarðvík núna fyrir stuttu og allur málaður og gerður fínn. Þessi bátur var í hátt í 20 ár gerður út frá Stykkishólmi og hvað hét hann þar,  jú Þórsnes SH. Þannig að já ansi margt hægt að finna til um þessa tvo staði, Suðurnesin og Stykkishólm.

Gísli Reynisson
aflafrettir.is