Pistlar

Gleðilegt sumar
Laugardagur 23. apríl 2022 kl. 08:01

Gleðilegt sumar

Það er vor í lofti. Sumarflatirnar komnar í leik á golfvöllunum eftir erfiðan vetur og brúnin léttist á kylfingum. Það er alger óþarfi að láta bankasöluklúður og hópuppsagnir í verkalýðsfélagi trufla okkur. Ef lundin léttist ekki með hækkandi sól þá er gott að hlusta reglulega á Rúnar Júl syngja Hamingulagið. Textinn er beint í mark. Enginn er það sem hann á. Allt það besta fæst frítt, bæði gamalt og nýtt. Lagið ætti að duga til að peppa alla í gír. Ef það þarf að slá frekar í klárinn og peppa sig enn frekar upp, þá má snúa á B hliðina og tralla með betri bíla, yngri konur, eldra viský, meiri pening.

Það er fjör framundan á Suðurnesjum. Njarðvíkingar vinna tvöfalt í körfunni, Keflavík gerir vel í Bestu deildunum í fótbolta, fjörugar sveitarstjórnarkosningar framundan með óvæntum úrslitum og nýtt eldgos í september. Svei mér þá ef það kemur ekki bara upp rétt nærri tánni. Lásuð þetta allt fyrst hér í Lokaorðum Víkurfrétta, sem eru alltaf fyrstar með fréttirnar.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Ég hvet ykkur öll til að taka þátt í íþróttastarfi í sumar. Áhorfendur á kappleikjum eru alveg jafn mikilvægir og leikmenn. Það geta ekki allir verið inná vellinum í einu. Þeir sem standa á hliðarlínunni eru þeim sem berjast inná vellinum mjög mikilvægir. Hvatning stuðningsmanna er eldsneyti íþróttamannsins.

Það er rísandi sól. Hún mun skína á Suðurnesin í sumar. Svei mér þá ef ég fer ekki holu í höggi í sumar. Í Grindavík, Sandgerði eða Leirunni.

Þegar allt hér að ofan er búið að raungerast. Þá er setjið þið To be grateful með Trúbroti og Magga Kjartans á fóninn. Það er best. Eins og Suðurnesin. Það vita það bara alltof fáir.

Gleðilegt sumar.