Pistlar

Erum við klár í hlaupið á Keflavíkurflugvelli?
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
föstudaginn 16. apríl 2021 kl. 06:10

Erum við klár í hlaupið á Keflavíkurflugvelli?

Það var brattur forstjóri Isavia sem Víkurfréttir hittu í vikunni sem segir eitt þúsund störf verða til í sumar með viðamiklum framkvæmdum fyrir tólf milljarða króna á næstu tveimur árum. Hann segir að þessi innspýting ríkisins inn í fyrirtækið geti orðið upphafið að endurreisn Keflavíkurflugvallar sem hefur verið rekin í mjög lágum gír eða hér um bil stopp, í heimsfaraldri.

Það var sérstakt að fara um flugvallarsvæðið þar sem fjölmargar flugvélar Icelandair stóðu hreyfingarlausar. Ekkert hljóð frá hreyflum og engin önnur hreyfing á svæðinu. Engir á ferli nema jú nokkrir starfsmenn sem voru að undirbúa framkvæmdir við austurvæng flugstöðvarinnar. Pínulítið eins og þegar Palli var einn í heiminum.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Þegar mest var voru þúsundir starfa á Keflavíkurflugvelli fyrir svo stuttu síðan. Nú er um fjórðungur íbúa á Suðurnesjum án atvinnu og bíður í startholunum og bíður eftir kalli forstjórans og frá fleiri fyrirtækjum og aðilum á Keflavíkurflugvelli í hlaupið sem vonandi verður innan tíðar. „Það verður mikilvægt að geta hlaupið hratt,“ þegar starfsemin fer í gang á ný segir forstjórinn í viðtali í Víkurfréttum og Suðurnesja­magasíni vikunnar. Störf hjá Isavia eru helmingi færri um þessar mundir en þegar mest var fyrir tveimur, þremur árum síðan. Mörg fleiri fyrirtæki eru í sárum sem reka starfsemi sem tengist fluginu – en við vonum að þau geti hafið hlaupið sem fyrst og eðlilegt líf hefjist á nýjan leik eftir heimsfaraldur. Það eru allir orðnir þreyttir á kófinu.

Þetta verður þó vonandi til þess að Suðurnesjamenn fari í nauðsynleg skref í að auka fjölbreytni í atvinnulífinu. Nú dugar ekki að tala bara um hlutina. Við þurfum að vera tilbúin áföllum á borð við heimsfaraldur þannig að það fari hreinlega ekki allt á hliðina. Vissulega má sjá jákvæð teikn á lofti en betur má ef duga skal. Þetta verða m.a. verkefni fyrir stjórnmálamenn sem fara til kosningar til Alþingis í haust. Þeir búa kannski ekki til störf en þeir geta haft áhrif á umhverfið í atvinnulífinu og hjálpað til. Hvernig má það til dæmis vera að það sé bara ein heilsugæsla í nærri þrjátíu þúsund manna samfélagi á Suðurnesjum. Reikningsdæmið er þannig að fyrir hverja sjö þúsund íbúa á að vera ein heilsugæsla. Heilbrigðisráðherra tók ekki undir það að hér hæfi einkarekin heilsugæsla starfsemi eftir fyrirspurn frá þingmanni Suðurkjördæmis. Hún lofar þó annarri heilsugæslu en í ríkiskerfinu tekur slíkt þrjú til fimm ár að raungerast. Þetta þarf að gerast hraðar og í Reykjanesbæ eru aðilar sem eru komnir langt í undirbúningi að opnun einkarekinnar heilsugæslu. Þeir hafa enn ekki fengið fund með heilbrigðisráðherra en vonast til þess að fá hann fljótlega. Nýr oddviti Vinstri grænna úr Sandgerði sem sló við þekktum núverandi og fyrrverandi alþinigismönnum í forvali VG í Suðurkjördæmi, getur kannski hjálpað til og útskýrt fyrir heilbrigðisráðherra að þetta er stórt mál á Suðurnesjum. Það gengur ekki að íbúar á svæðinu þurfti að keyra til höfuðborgarsvæðisins til að komast á heilsugæslu.