Pistlar

Árni Theódór 1910–1920 – og ófarir skólanefndar
Sunnudagur 26. júní 2022 kl. 07:34

Árni Theódór 1910–1920 – og ófarir skólanefndar

Sagt er frá Árna Theódór Pétursyni í 18. þætti og mynd af honum þar. Hann kenndi hér í sveit og víðar á Suðurnesjum á árunum 1885 til 1910 við góðan orðstír. Hann hafði ekki kennarapróf en skrifleg meðmæli margra. Hann varð svo kennari (skólastjóri) við Suðurkotsbarnaskóla í áratug (1910–1920) og segir hér frá því. 

Strax eftir setningu fræðslulaganna 1907 og stofnun Kennaraskólans 1908 (sjá mynd) fara fræðsluyfirvöld að amast við þeim sem kenna við skóla sem njóta ríkisstyrks en hafa ekki kennarapróf. Dæmi um það er bréf Jóns Þórarinssonar, umsjónarmanns fræðslumála, dagsett 8. nóvember 1908, þar sem hann svarar fyrirspurn Árna Theodórs um hvort hann hafi ekki leyfi til að vera kennari framvegis við skóla sem fær opinberan styrk, þótt hann hafi ekki tekið kennarapróf. Svarað er, með skírskotun til laganna, að ekki sé ástæða til að spyrjandanum, sem hefur verið barnakennari mörg undanfarin ár, verði bægt frá opinberri barnakennslu, né að neita þeim skóla, sem hann kann að starfa við, um opinberan styrk, fyrir þá sök að hann hafi ekki tekið kennarapróf. 

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Þetta álit, ásamt skriflegum meðmælum margra, hefur Árni í höndunum þegar hann sækir um og fær kennarastöðuna við Suðurkotsskóla 1910. Þá sótti einn á móti honum, Egill Hallgrímsson frá Austurkoti í Vogum, f. 1890. Var hann með kennarapróf frá því þá um vorið. Kannski hefur tveggja ára kennslureynsla Árna og meðmæli verið látin ráða. Þarna lágu fyrir skrifleg meðmæli frá þremur prófdómurum,  tveimur sóknarprestum, hreppstjóra, oddvita, fomanni skólanefndar og frá sjálfum Guðmundi Finnbogasyni (1904), allt aðilar sem höfðu eitthvað af kennslu hans að segja. Þeim verður tíðrætt um dugnað, alúð, ástundun, samviskusemi, að börnin taki framförum, hlýði honum og þyki vænt um hann.

Ekki er vitað annað en Árni hafi verið farsæll kennari þau tíu ár sem hann kenndi samfellt við Suðurkotsskóla og á þessu tímabili var hann kosinn oddviti hreppsins. En Adam var ekki endalaust í paradís. Í fundargerðum skólanefndar 1917 og 1918 má lesa milli línanna að fræðsluyfirvöld séu farin að amast við Árna og nefndin þurfi nú að verja áframhaldandi veru hans. Á þeim tíma hækka launin verulega, úr átján í 30 krónur á viku og kann sú hækkun að tengjast auknum kröfum um menntun kennara.

Skólanefndin hélt engan bókaðan fund 1919 en það ár breyttist ýmislegt. Í fræðslulögunum frá 1907 er ekki gerð krafa um kennaramenntun en í erindisbréfi fyrir skóla- og fræðslunefndir frá 1908 segir: „Skólanefnd ræður kennara skólans og sjer um að þeir geri skyldu sína; hún skal láta sér annt um að ráða góða og vel hæfa menn, og skulu þeir, sem staðist hafa kennarapróf, jafnaðarlega vera látnir ganga fyrir öðrum.“ 

Árið 1919 eru svo sett lög um skipun barnakennara og laun þeirra (nr. 75/1919). „Til þess að verða skipaður kennari við barnaskóla eða forskóla, sem njóti styrks af landssjóðsfé, er nú krafist, auk annars, að hafa lokið kennaraprófi, eða stúdentsprófi auk prófs í uppeldisfræði og kennslufræði eða stundað barnakennslu að minnsta kosti þrjú ár og hafi vottorð sóknarprests síns og fræðslunefndar ... um góða kennarahæfileika og árvekni í starfi.“ 

Árni Theodór hafði hvorki kennarapróf né heldur stúdentspróf en mikla kennslureynslu og meðmæli frá mörgum og virðist hafa verið frekar vinsæll kennari. Það kemur því á óvart þegar lesin er fundargerð fræðslunenfndar frá mars 1920 að kennarastaðan við Suðurkotsskóla hefur verið auglýst og ræðir nefndin þar um hverjum umsækjanda „skyldi veita meðmæli til starfans framvegis og var um það atriði í einu hljóði samþykkt að veita kennaranum Árna Theodór Pjeturssyni hin fullkomnustu og bestu meðmæli  ... Öðrum en nefndum kennara veitir skólanefndin því ekki meðmæli sín.“ Sá mun hafa verið Kristmann Runólfsson, heimamaður sem lokið hafði kennaranámi 1910 og kennt tvö ár á Vatnsleysu. 

Þrátt fyrir fullkomin meðmæli fræðslunefndar með Árna var Kristmann ráðinn og kenndi þann vetur (1920–1921). Á fundi 19. september ræðir nefndin beiðni foreldra um að taka börn sín úr skólanum. Var samþykkt að veita undanþágu, með því skilyrði þó að sá sem tæki við börnunum sæi þeim fyrir góðu húsi og hita. Ekki er ljóst hve margir nýttu þessa undanþágu, né hvort Árni hafi annast kennslu einhverra barna utan skóla þennan vetur, en yfirvöld fræðslumála neituðu bón fræðslunefndarmanns um að hús Suðurkotsskóla yrði nýtt til þess.

Sumarið 1921 er tekist á um það í nefndinni hvort ráða skuli Kristmann áfram eða auglýsa stöðuna. Það endar með því að Kristmann telur sig ekki geta verið áfram og er staðan auglýst. 

Í ágúst er svo tekist á um bréf frá fræðslumálastjóra með umsókn frá Viktoríu Guðmundsdóttur, sem er reyndur kennari með kennarapróf. Einnig hafði komið fram umsókn frá Árna Theodór. Nefndarmenn vildu enn halda í Kristmann og einnig er bent á Pál Pétursson í Landakoti en þeir styðja ekki Viktoríu. Það fer svo að fræðslunefndin er hryggbrotin öðru sinni. Viktoría er ráðin og gegnir stöðunni 1921 til 1922. 

En það var áfram heitt í kolunum. Sumarið 1922 hefur verið skipuð ný fræðslunefnd sem á fyrsta fundi ákveður að auglýsa stöðuna. Þá koma fjórar umsóknir, ein þeirra frá Viktoríu sem fékk engan stuðning nefndarinnar. Önnur var frá Árna Theodór og studdu tveir nefndarmenn hann en aðrir tveir studdu Ásgeir Magnússon frá Hvammstanga. Í þriðja sinn var nefndin hunsuð, því Viktoría, umsækjandinn sem enginn nefndarmaður mælti með, var ráðin! Varð nefndinni skiljanlega misboðið og þótti tilvera sín orðin þýðingarlaus. Nefndarmenn skrifuðu bréf og ræddu við stjórnvöld í Reykjavík, þar á meðal forsætisráðherra, en lögðu síðan niður nefndarstörf daginn sem Viktoría byrjaði að kenna sinn annan vetur. Segir meira frá Viktoríu í næstu þáttum.

Það er af Árna Theodór að segja að hann bjó í Hábæ í fimm ár eftir að kennslustarfinu lauk og stundaði sjó en skildi svo við konuna og flutti til Hafnarfjarðar. Löngu síðar (1933) var hann dæmdur í tveggja mánaða fangelsi fyrir að tæla fjórtán ára stúlku, frá Móakoti. Árni viðurkenndi aldrei slíkt brot, var hugsanlega dæmdur saklaus, en þetta var andstyggðarmál, rekið með hléum fyrir dómstól í þrjú ár og mikið til umræðu, nefnt Móakotsmál.


Heimildir: Þuríður J. Kristjánsdóttir 1992: Embættisgengi og réttindanám.
Gjörðaðbók barnaskólanna á Vatnsleysuströnd. Fleiri óbirt skjöl.
Blaðagreinar og bæklingar um Móakotsmálið.