Pistlar

Af útgerð og fiskvinnslu Voga hf.
Svanur KE 90.
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 5. nóvember 2021 kl. 06:51

Af útgerð og fiskvinnslu Voga hf.

Síðasti pistill fjallaði um útgerð í Vogum og þar var fjallað um ÚV, sem var skammstöfun fyrir Útgerðarfélag Vatnsleysustrandar. Það fyrirtæki lét árið 1930 smíða fyrir sig tvo báta. Áður hefur verið fjallað um bátinn Huginn GK. Hann kom til landsins snemma árs 1931. Hinn báturinn kom ekki fyrr enn nokkrum mánuðum seinna árið 1931. Sá bátur fékk nafnið Muninn GK 342. Sá bátur var reyndar aðeins gerður út af ÚV í þrjú ár, því árið 1934 var hann seldur til Haraldar Böðvarssonar í Sandgerði og síðan fór sá bátur í Miðnes hf. þegar það fyrirtæki var stofnað í Sandgerði árið 1941. 

Báturinn átti mjög fengsæla sögu í Sandgerði undir þessu nafni, Muninn GK, og árið 1949 var báturinn seldur til Þorlákshafnar og fékk þar nafnið Ísleifur ÁR.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Rétt er að fara aðeins í smá hliðardæmi. Þegar að þessi Muninn GK var seldur var nýr bátur keyptur sem var nýsmíði í Danmörku og kom sá bátur árið 1947 til Sandgerðis og fékk nafnið Muninn II GK 343. Sá bátur átti sér mjög langa sögu í Keflavík því árið 1970 var báturinn skráður Svanur KE 90 og hann gerður út alveg til ársins 2003. Hann var að lokum rifinn í Helguvík.

Aftur að Huginn GK. Í Þorlákshöfn var báturinn lengdur og sett í hann stærri vél. Báturinn var gerður út frá Þorlákshöfn í fimmtán ár eða fram til ársins 1964 að hann var seldur til Keflavíkur og fékk þar nafnið Gullþór KE 85. Saga þessa báts endaði árið 1982, en þá var báturinn talinn ónýtur og brenndur undir Hólmsbergi í febrúar árið 1982. 

Snúum okkur þá aftur að Vogum. Eftir fall ÚV var ekki mikið um útgerðir í Vogum. Það var ekki fyrr enn árið 1941 að tvö fyrirtæki hófu starfsemi sína. 

Þegar ekið er áleiðis að bryggjunni í Vogum þá er stórt hús á hægri hönd. Það var í eigu Voga hf. Húsaþyrpingin sem er vinstra meginn við Hafnargötuna tilheyrði Valdimar hf.

Jón G.Benediktsson, fyrrum framkvæmdastjóri ÚV, stofnaði ásamt fiskverkendum úr Keflavík og Reykjavík fiskverkunina Vogar hf., árið 1941. Húsið við sjóinn, hægra meginn við Hafnargötuna, var byggt árið 1943. Fyrst um sinn var fiskinum ekið til vinnslu frá Keflavík. Síðar eignaðist fyrirtækið báta og var rekið til ársins 1977 þegar að það var selt Garðari Magnússyni útgerðarmanni frá Njarðvík. Garðar hélt áfram að reka fiskvinnslu í Vogunum í þessum sömu húsum til ársins 1991 þegar að hann kaupir Sjöstjörnu-húsið svokallaða í Njarðvík. Þangað flutti Garðar fiskvinnslu Voga hf. og lauk þar með fiskvinnslu í húsinu sem Vogar hf. byggðu árið 1943. 

Vogar hf. gerðu út nokkra báta sem hétu Ari GK. Til að mynda 39 tonna eikarbát sem fyrirtækið keypti árið 1959 og fékk nafnið Ari GK 22. Þann bát gerði fyrirtækið út til ársins 1963 þegar hann var talinn ónýtur og tekinn af skrá. Árið 1970 kaupa Vogar hf. 100 tonna stálbát, sem fékk líka nafnið Ari GK 22 og var sá bátur gerður út til ársins 1974. Það vantar nokkra báta inn í þessa útgerðarsögu Voga hf., en ég þarf aðeins að grafa það betur upp.

Árið 1941 hóf Magnús Ágústsson einnig útgerð frá Vogum á litlum sex tonna báti og sú litla útgerð átti síðan eftir að stækka mjög mikið. Nánar um það í næsta pistli.