Mannlíf

„Gerðu það sem þú vilt“ á 25 ára afmæli Heiðarskóla
Leikhópur Heiðarskóla sem tekur þátt í uppfærslunni á afmælissýningunni.
Mánudagur 18. mars 2024 kl. 08:28

„Gerðu það sem þú vilt“ á 25 ára afmæli Heiðarskóla

Heiðarskóli fagnar 25 ára afmæli á þessu ári og því var ákveðið að uppsetning leiklistarvalsins á árshátíð skólans yrði tengd afmælinu.

Bryndís Jóna Magnúsdóttir, skólastjóri, samdi handritið fyrir hópinn sem fjallar í stórum dráttum um unglinga sem langar að taka þátt í skólaleikriti en óttast að einhverjum þyki það hallærislegt. Lögin eru tekin úr leikritum sem hafa áður verið sett á svið Heiðarskóla og eru tengd inn í verkið.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Hópurinn hefur æft undir stjórn leikstýranna Estherar Ingu Níelsdóttur, Daníellu Hólm Gísladóttur og Guðnýjar Kristjánsdóttur en þær stöllur hafa sett upp fjölmargar sýningar með nemendum undanfarin ár.

Þátttakendur í sýningunni eru allir nemendur leiklistarvals úr 8.-10.bekk. Hópurinn er fjölmennur í ár, einhverjir eru að stíga sín fyrstu skref á sviði en aðrir hafa tekið þátt áður. Það er alltaf líf og fjör í þessari valgrein og framundan er skemmtilegur en stressandi tími þar sem árangur erfiðis undanfarinna vikna er sýndur nemendum og starfsfólki Heiðarskóla, foreldrum og öllum þeim sem hafa áhuga á að koma á sýninguna.

Að venju verða sýningar fyrir almenning að lokinni árshátíð skólans og verða þær þriðjudaginn 19. mars og miðvikudaginn 20. mars. Miðaverð er 1.000 krónur. Ekki er posi á staðnum.