Mannlíf

Upplifunarhótel þar sem er gaman að sofa, borða og njóta
Steinþór Jónsson, hótelstjóri, og Lilja Karen, dóttir hans og aðstoðarhótelstjóri.
Laugardagur 26. júní 2021 kl. 08:06

Upplifunarhótel þar sem er gaman að sofa, borða og njóta

Hótel Keflavík fagnar 35 ára afmæli á þessu ári. Hótelið var opnað á þjóðhátíðardegi Noregs, þann 17. maí 1986. Þá voru tekin í notkun 22 herbergi en þeim fjölgaði í 32 síðar sama ár. Ákvörðun um opnun hótelsins var tekin þremur mánuðum fyrr. Þá var strax ráðist í steypuvinnu og hæð byggð ofan á húsnæðið við Vatnsnesveg sem þá hýsti verslunina Bústoð og Innrömmun Suðurnesja.

Hótelstjórinn, Steinþór Jónsson, segir húsið vel byggt þó svo framkvæmdahraðinn hafi verið mikill. Þessi þriggja mánaða framkvæmdatími myndi aldrei ganga í dag þar sem kerfið er þyngra. Þar með hafði risið fyrsta hótelið á svæðinu og viðbrögðin voru misjöfn. Steinþór segir að það hafi verið raddir sem sögðu að það myndi aldrei ganga að reka hótel í Keflavík. Steinþór var þarna orðinn hótelstjóri 23 ára gamall og kominn í rekstur á hóteli með föður sínum, Jóni William Magnússyni heitnum. Jón hafði viljað opna sjúkrahótel í Keflavík en á þessum tíma voru uppi stórar hugmyndir með byggingu D-álmu við sjúkrahúsið í Keflavík. Steinþór vildi hins vegar horfa til ferðaþjónustu og það varð ofan á. „Kannski sem betur fer því D-álman kom áratugum síðar,“ segir Steinþór.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Skotar fyrstir

Skoskir sjóstangaveiðimenn voru fyrstu gestir hótelsins en Steinþór segir fyrsta árið hafa gengið ótrúlega vel. Fyrstu árin var hótelið mikið notað af Varnarliðinu fyrir áhafnir sem voru að koma hingað í styttri tíma. Á þessum tíma var Flugstöð Leifs Eiríkssonar í byggingu og túrismi eins og við þekkjum hann í dag var ekki til. „Það var ekki hægt að segja að þetta væri túristahótel fyrr en nokkru seinna,“ segir Steinþór.

Eins og fyrr segir opnaði hótelið með 22 herbergjum í maí en um haustið opnuðu tíu herbergi til viðbótar þar sem núna er fimm stjarna hótelið Diamond Suites. Fyrstu gestirnir þar voru sovésk áhöfn á vegum Mikhail Gorbachev en á þessum tíma var leiðtogafundur Reagans og Gorbachev í Höfða. Framkvæmdum við hæðina lauk korteri áður en áhöfnin kom til gistingar.

Séð inn á eitt af endurnýjuðum herbergjum Hótels Keflavíkur.

Þrjátíu árum eftir að áhöfn sovésku forsetaþotunnar gisti á efstu hæðinni á Hótel Keflavík hafði hún gengið í gegnum miklar endurbætur og þar voru innréttaðar Diamond Suites, lúxushótel með fimm stjörnur og það fyrsta með þá stjörnugjöf á Íslandi. Diamond Suites opnuðu á 30 ára afmæli Hótel Keflavíkur þann 17. maí fyrir fimm árum. Þar er andi Versace í allri innréttingu. Síðustu ár hafa svo verið unnar miklar endurbætur á öllu hótelinu þar sem stíllinn frá Diamond Suites hefur fengið að njóta sín.

Frumkvöðlarnir Unnur Ingunn Steinþórsdóttir og Jón William Magnússon.

Upplifunarfyrirtæki í Keflavík

– Er þetta hótelið sem þú sérð að sé málið næstu árin eða ertu alltaf að hugsa um eitthvað meira og frekari framkvæmdir?

„Ég ætla að segja að ég sé búinn að uppfylla minn draum um hótel sem hefur eitthvað fram að færa umfram það sem gengur og gerist. Við erum með aðstöðu sem mörgum finnst einstök á Íslandi og við erum í Keflavík þar sem margir töldu að ekki væri endilega hægt að hafa lúxus-hótel, kannski fimm herbergja Diamond Suite, en nú erum við að tala um 70 herbergja hótel. Ég er kominn þangað sem mig langaði að vera. Til að svara hinni spurningunni hvort ég sé hættur, þá er svarið nei, þetta er dagurinn sem við erum að byrja upp á nýtt. Við erum að fara að skapa hér upplifunarfyrirtæki fyrir bæjarbúa, fyrir okkar hótelgesti og gera eitthvað sem ekki hefur verið gert áður á þessu svæði. Það eru mjög margar hugmyndir í kollinum og við erum þegar byrjuð að vinna í þeim og ætlum okkur að gera stóra hluti á næstu árum.“

Spa og ráðstefnumiðstöð

Meðal hugmynda sem nú er verið að skoða er nýtt anddyri inn í ráðstefnumiðstöð hótelsins og auðvelda aðgengi á milli rýma og valda sem minnstri truflun. Einnig er til skoðunar að setja upp Spa í porti við hótelið og hæð ofan á álmu hótelsins sem stendur við Framnesveginn. Steinþór segist ekki vilja sjá einhverja línu sem er lokalína en það sé gott að fagna áfanganum, eins og nú sé gert. Þá segir Steinþór jafnframt að nú sé hann að sjá stór viðskipti verða að veruleika á hótelinu sem hefðu aldrei getað orðið að veruleika áður en ráðist var í þær breytingar sem gerðar hafa verið á hótelinu og það aukna þjónustuframboð sem þar er í veitingum og aðstöðu.

KEF Restaurant og Diamond Bar & Lounge hafa fallið í góðan jarðveg hjá bæjarbúum og gestum hótelsins.

Uppalin á hótelinu

Lilja Karen Steinþórsdóttir er aðstoðarhótelstjóri Hótels Keflavíkur. Hún er dóttir Steinþórs hótelstjóra og fædd ári eftir að hótelið opnaði. Lilja Karen hefur því nánast alist upp á hótelinu. „Ég er búin að lifa og hrærast í þessu allt mitt líf og þetta er það eina sem ég kann,“ segir Lilja Karen og hlær.

– Þið leggið áherslu á að þið séuð ekki bara hótel, heldur eruð þið líka með upplifun og viðburði.

„Já, það passar. Við ætlum að vera upplifunarfyrirtæki. Við erum með glænýjan sal, Gyllta salinn, og þar ætlum við að vera með ýmsa viðburði eins og leikhús, tónlistar- og menningarviðburði og núna er þar listasýning í gangi þar sem sýndar eru myndir eftir Þórunni Báru. Þá erum við búin að betrumbæta alla móttökuna á hótelinu sem er núna orðin samkomustaður í Reykjanesbæ.“

Áhrifavaldar hafa verið duglegir að heimsækja Hótel Keflavík og Diamond Suites og hafa birt myndir eins og þessa.

– Það er búið að vera mikið fjör hérna.

„Jú, það passar. Það er mjög mikið fjör hérna á kvöldin. Fólk mætir hérna á Diamond Bar & Lounge eða KEF Restaurant og gerir sér góða stund og það er æðislegt að sjá hvað við erum að fá góðar móttökur og að þetta er að ganga upp hjá okkur. Þetta hefur gengið vonum framar og við erum virkilega ánægð.“

– Hvernig er hótellífið?

„Það er æðislegt og ég er rosalega þakklát fyrir hótelið og að við fjölskyldan stöndum að þessu saman. Ég á yndislegar æskuminningar hérna. Svo er líka bara svo frábært að vinna hérna núna. Ég gæti ekki verið þakklátari.“

– Hvað varstu að gera fyrst?

„Ég byrjaði tíu ára gömul í blómabeðunum með hundraðkall á tímann. Ég hef unnið mig hægt og rólega upp og hef verið í öllum deildum. Ég var í sumarvinnu til að byrja með, kláraði svo háskólann og nú er ég komin hingað aftur.“

– Þú ert með föður þínum og fjölskyldu búin að upplifa gríðarlegar breytingar í hótelrekstri á þessum árum?

„Svakalegar breytingar, sérstaklega tæknilegar breytingar en einnig aukningu í ferðamennsku. Þetta er búið að vera ótrúlegt og ég hef upplifað tímana tvenna í hótelrekstri, það er óhætt að segja það.“

– Og þú heldur pabba þínum við í tæknimálum?

„Já, ég geri það og er sjálf titluð kerfisstjóri hérna og við höfum uppfært mjög mikið hjá okkur. Pabbi er af gamla skólanum í þessu en við erum núna að fara inn í nýja tíma.“

Áskorun að vera með opið í kófinu

Hótel á Íslandi hafa fundið mikið fyrir Covid-ástandinu en Steinþór segir að Diamond Suites hafi verið vel bókað í Covid og sama má segja um veitingahluta hótelsins. KEF Restaurant hefur gert mikla lukku frá því hann opnaði á Hótel Keflavík og hróður eldhússins borist víða. Þá má segja frá því að Hótel Keflavík hefur verið opið í gegnum allan kórónuveirufaraldurinn. Opið var alla daga, um jól, áramót og páska.

Steinþór segir að það hafi verið áskorun að vera með opið í kófinu. Í apríl 2020, þegar faraldurinn var nýbyrjaður hér á landi, var starfsfólk hótelsins komið í 50% starfshlutfall. Yfir páskana í fyrra og í tæpan mánuð ákváðu Steinþór og Hildur Sigurðardóttir, eiginkona hans, að sjá alfarið um hótelið ein. Þau fluttu á hótelið þennan tíma og sáu um allt og voru með hótelgesti allan tímann.

Steinþór Jónsson hótelstjóri og Hildur Sigurðardóttir eiginkona hans stóðu vaktina í Covid.

„Við komumst í gegnum mánuðinn svona og þetta var í fyrsta lagi mjög skemmtilegt og öðruvísi en þetta var líka til að sýna okkur sjálfum og öðrum að þetta voru alvöru tímar og það þurfti að taka á þeim. Við berum ábyrgð á okkar eigin fyrirtæki. Þarna gerðum við það og erum enn að. Þetta hefur verið erfiður tími vinnulega séð og mikið álag.“

– Þið hafið gengið í gegnum ýmislegt. Var þetta Covid-ár öðruvísi en það sem þú hefur áður upplifað?

„Já. Auðvitað hefur maður lent í öllu þegar maður hefur verið í rekstri í 35 ár. Það kom tími þegar herinn fór, við fórum í gegnum bankahrunið og höfum farið í gegnum allskonar breytingar. Auðvitað er maður aðeins betur undirbúinn og ég hef alltaf sagt að það þarf að hugsa um þessa tíma sem verða erfiðir. Ég hef alltaf reynt að taka lítil sem engin lán því ég veit að þegar koma erfiðir tímar er gott að eiga borð fyrir báru. Það er grunnur sem ég lærði strax frá mínum foreldrum, að gera það sem við getum og vinna út frá því. Það er ennþá í gildi og í þessu Covid-tímabili vorum við með miklar framkvæmdir og höfum í raun aldrei framkvæmt eins mikið. Við vorum sem betur fer byrjuð á þeim áður en faraldurinn skall á. Við vorum byrjuð á þeim framkvæmdum tveimur til þremur mánuðum fyrir Covid, að taka alrýmið hér á fyrstu hæðinni, svo og að breyta móttökunni. Við ákváðum að sjá hversu langt við gætum komist og kláruðum móttökuna og fórum inn í nýtt rými og erum í dag með 600 fermetra móttöku. Hún hefur síðan verið grunnurinn að þeirri velgengni sem við höfum notið í Covid.“

Gyllti salurinn er nýjasta viðbótin á Hótel Keflavík.

Þar nefnir Steinþór KEF Restaurant sem var opnaður fyrir tveimur árum og hefur þróast á síðustu misserum. Fólk hefur komið á hótelið, t.d. að gista á Diamond Suites og gera vel við sig í mat og drykk. Á tímabilinu hafa svo opnað Diamond Bar & Lounge ásamt Williams-stofu og Versace-stofu. Á síðustu vikum hafa svo opnað rými eins og Gyllti salurinn og VIP-herbergið.

„Þetta hefur blómstrað og síðustu vikur hefur verið svo mikið að gera í veitingunum að þetta er yndislegt. Við erum með einstakt starfsfólk, veitingamenn og þjóna, svo ég tali nú ekki um mína stjórnendur og fjölskyldur, sem er grunnurinn að velgengninni.“

– Það er mikil athygli á Reykjanesi nú þegar nýlega er hafið eldgos á Fagradalsfjalli. Ef þú tekur inn í myndina hvernig staðan var fyrir gos og hverjir möguleikarnir eru í dag fyrir svæðið sem ferðamannastaður.

„Þetta er allt undir okkur sjálfum komið. Við höfum besta svæðið og það er ekkert svæði sem hefur upp á eins margt að bjóða og þessi litli skagi okkar. Það er stutt á milli staða. Það eru bæði manngerðir ferðamannastaðir og einnig þeir sem skapaðir voru af almættinu. Sambland af þessu er það sem ég vil að við byggjum í rauninni á. Víkingaheimar og öll söfnin okkar, Bláa lónið og öll aðstaðan sem er þar, allar sundlaugarnar og vitarnir. Þetta í bland við eldgos, hraun og sjóinn er að búa til einstakt ferðamannasvæði. Við getum gert mikið meira og gosið er skemmtileg viðbót í þetta allt saman. Við þurfum að sjá hvernig það mun þróast uppá aðgengi fyrir fólk að komast á staðinn.

Umfjöllunin er gríðarlega mikil og kallar á fólk að koma. Hvar er gosið og við erum þar. Við segjum við útlendinga að við séum hótelið við eldgosið og við Íslendinga segjum við að við séum hótelið rétt hjá útlöndum. Við verðum að markaðssetja okkur miðað við þá markhópa sem við erum að tala við. Við eigum að geta náð Íslendingum til að koma á Reykjanesið. Það var áberandi með ferðagjöfina í fyrra að það fækkaði gistinóttum á Suðurnesjum meðan það fjölgaði annars staðar af Íslendingum. Íslendingar voru að gista hér á leiðinni úr landi, sem er gott og blessað. Í Covid höfum við náð að kynna Hótel Keflavík sem annað en viðkomustað við flugvöllinn. Við viljum að það sé hugsað um upplifunarhótel þar sem sé gaman að koma og gista, sofa, borða og njóta. Þetta sé ekki stoppistöð, heldur besta nóttin í ferðinni,“ segir Steinþór Jónsson.