Tónlistin er hér
Guðjón Þorgils Kristjánsson er sextán ára Sandgerðingur sem hefur vakið eftirtekt fyrir einstaka sönghæfileika sína. Guðjón er í söngnámi í Tónlistarskóla Sandgerðis og stefnir hátt – enda fullt tilefni til. Víkurfréttir ræddu við söngvarann efnilega.
Guðjón, sem er á fyrsta ári á viðskipta- og hagfræði í Fjölbrautaskóla Suðurnesja, segir félagslífið í FS vera geggjað. „Námið sem ég er í, allir áfangarnir, er bara æðislegt og svo þekkir maður mjög marga. Þetta er samfélag af fólki sem þekkist, svo góður hópur og æðislegt,“ segir hann.
Þú kláraðir væntanlega Sandgerðisskóla í fyrra, varstu virkur þar í félagslífinu?
„Já, ég var í nemendaráði og félagsmiðstöðvarráði. Síðan í endann byrjaði ég í ungmennaráði Suðurnesjabæjar og er þar núna.“
Hvað með í FS, ertu eitthvað kominn inn í félagsmálin þar?
„Því miður komst ég ekki inn í nefnd. Ég sótti um og ég mæli með því að sækja um, þetta er svo rosalega góður lykill. Það eru svo margir sem koma hingað úr bænum og víðar út af því að félagslífið er svo gott. Þetta er svo sniðugt til að efla félagstengslin og eignast góða vini.“
Sigurvegari Samfés
„Ég byrjaði sem krakki á píanóinu en síðan fór ég yfir í sönginn,“ segir Guðjón sem hefur verið í söngnámi síðustu tvö ár. „Ég hef líka verið í kór.“
Hvað með píanónámið, ertu búinn að leggja það á hilluna?
„Sko, ég ætla að gefa mér tíma í það ef ég ætla að taka mér það aftur fyrir hendur. Núna ætla ég að geyma það en ég mun og ætla að klára það,“ segir hann og einbeitir sér nú að söngnum.
Þú ert sigurvegari Samfés, hvernig kom það til?
„Það voru prufur, þetta hét Samsuð. Þá var það þannig, þetta var mjög auðvelt, að þú sagðist bara ætla að vera með. Svo kepptir þú í keppninni Samsuð og ef maður vinnur þá kemst maður í undanúrslitin fyrir Samfés, sem heitir Kraginn hér á Suðurnesjum. Ég þurfti að fara í gegnum þessi tvö stig til að komast í Samfés.“
Og þú komst alla leið og endar á því að standa uppi sem sigurvegari.
„Já og ég var fyrsti sigurvegarinn, held ég, í Suðurnesjabæ. Það var ein önnur sem vann úr Reykjanesbæ, alveg sturluð, og það er svo geggjað að feta í þessi fótspor hérna á Suðurnesjum. Alveg æðislegt.“

Guðjón og Sigurbjörg, söngkennarinn hans, hita upp fyrir söngtíma.
Tónlistarnámið er virt hér á Suðurnesjum.
„Já, algjörlega. Mér finnst þetta stór punktur hérna í Reykjanesbæ, Suðurnesjabæ og bara öllu Reykjanesinu. Tónlistin er hér.“
Hefur það skilað einhverju, fyrir þig sem söngvara, að hafa tekið þátt í Samfés?
„Allan daginn og ég mæli eindregið með því að fara og taka þátt í Samfés. Alveg sama hvort þú ert að byggja þig upp í þessum stigum og komast inn í Samfés eða bara að taka þátt, og þá meina ég í öllu, bara að taka þátt er svo ótrúlega mikilvægt. Ef ég hefði ekki tekið þátt í að gera þetta þá hefði ég aldrei fengið þessi ótrúlega skemmtilegu tækifæri.“
Er einn þarna uppi
„Þessi bransi er mjög erfiður, þú þarft að berjast fyrir þínu, en ég hef verið mjög heppinn með tækifæri. Var t.d. að syngja á menntaþingi um daginn og fékk nýlega að koma fram í sjónvarpi með Páli Óskari. Vá, að horfast í augu við þennan mann er bara draumur.“
Guðjón hefur haft í nógu að snúast og má segja að verkefnin láti ekki á sér standa. Hann hefur verið að koma fram á allskonar viðburðum; hátíðum, ráðstefnum eða tónleikum.
Er ekkert erfitt að koma fram aleinn?
„Ég er einn þarna uppi. Ég er að taka áhættu og það er mjög krefjandi en gaman.“
Hvert stefnir þú með þetta söngnám og söngferilinn?
„Ég er að hugsa um að fara í tónlistarnám, ég er náttúrulega í tónlistarnámi, en að fara í Listaháskólann og stefna síðan í leiklist. Ég vil ekki vera bara eitthvað eitt, ég vil fara út í söngleiki, vera leikari, söngvari og bara í svona almennri sviðsframkomu. Það væri geggjað.“
En nú er þetta ekki þetta eðlilega umhverfi unglings, að fara út í það að syngja einn fyrir framan hundruðir eða þúsundir. Hvernig taka félagarnir þessu? Hvað finnst þeim um þetta?
„Þeir eru mjög stoltir af mér og hafa, eins og mínir nánustu, komið og horft t.d. á Samfés. Þeir sem komust ekki horfðu á í sjónvarpinu og ég fékk bara runu af skilaboðum, bara endalaus stuðningur úr öllum áttum,“ segir Guðjón en það er einnig rætt við hann í Suðurnesjamagasíni vikunnar.