Mannlíf

  • Tónaflóð í Gígnum
  • Tónaflóð í Gígnum
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
fimmtudaginn 9. júní 2022 kl. 18:02

Tónaflóð í Gígnum

Ný tónleikastaður á Fish House í Grindavík. Stærsta helgi ársins framundan.

Matsölustaðurinn Fish House í Grindavík á sér ekki langa sögu en húsnæðið sem hýsir reksturinn geymir sögu skemmtanahalds og veitingarekstrar í Grindavík allt til ársins 1989 en þá hóf hinn goðsagnakenndi Hafurbjörn upp raust sína. 

Hafurbjörninn hélt uppi stemmningu fyrir Grindvíkinga allt til ársins 2003 en eftir nokkur eigendaskipti með nafnabreytingum þá hefur staðurinn gengið undir nafninu Fish House síðan 2016. Við rekstrinum tók framkvæmdarmaðurinn Kári Guðmundsson en segja má að Kári sé þúsundþjalasmiður, hann lemur bæði húðir og nagla en hafði unnið talsvert fyrir sér sem kokkur og þá mest á bátum. Í honum blundaði alltaf rekstrarmaður og hann dreymdi um að eignast og reka veitingastað og lét loks drauminn rætast með sinni heittelskuðu, Ölmu Guðmundsdóttur.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Víkurfréttir kíktu í heimsókn á Fish House en ekki nóg með að Kári sé búinn að taka allt útlit staðarins algjörlega í gegn, þá hefur hann stækkað hann en hann keypti næsta bil við hliðina og breytti því í frábæran tónleikastað, „Gíginn“.

Hvernig byrjaði þetta ævintýri og hvar liggja rætur Kára?

„Mig var búið að dreyma lengi um að fara út í sjálfstæðan rekstur og selja mat, þessi staður hér, sem þá hét Kanturinn, var til sölu og við hjónin skelltum á okkur á þetta. Það er mjög mikið búið að gerast síðan, mikill uppgangur í ferðamannabransanum en svo kom Covid sem kom að sjálfsögðu mjög illa við okkur eins og aðra í þessum bransa. Ég tók ákvörðun í miðju Covid að gjörbylta útliti staðarins og fljótlega eftir það hófst gosið fræga og þá fjölgaði fljótt mjög mikið svo það má segja að þetta hafi verið stormasamir tímar. Stuttu síðar var svo bilið við hliðina á Fish House sett á sölu og ég sá í því tækifæri, keypti það og breytti í þennan frábæra tónleikasal sem mér fannst rétt að nefna Gíginn – eftir að gosið færði mikinn fjölda inn á staðinn.“

Fjölbreyttur matseðill

Kári leggur mikla áherslu á fjölbreyttan og góðan matseðil:

„Þegar við byrjuðum með matseðilinn þá var hann tiltölulega einfaldur, þessi týpíski hamborgari en að sjálfsögðu höfum við alltaf boðið upp á fisk, eins og nafn staðarins ber með sér.  Ég er mjög stoltur af „Fish & Chips“-réttinum okkar en hann hefur alltaf verið sá vinsælasti hjá mér.  Ég býð upp á flottari steikur og ekki fyrir svo löngu byrjaði ég að bjóða upp á pizzur.  Þær hafa mælst mjög vel fyrir.“

Þegar Kári keypti bilið við hliðina á Fish House og innréttaði sem tónleikastað, þá opnuðust nýir möguleikar.

„Ég lagði mikla vinnu í að innrétta „Gíginn“ þannig að hljóðgæði yrðu sem best. Fékk Exton, en þar vinnur Grindvíkingurinn Guðjón Sveinsson, til að hanna staðinn með það fyrir augum að hljóðgæði yrðu sem best. Ég tel mjög vel hafa tekist til en þetta er frábær staður fyrir hljómsveitir að troða upp, hægt er að koma 200 manns fyrir í sæti. Staðurinn er líka hannaður með það fyrir augum að fyrirtæki geti haldið hér ráðstefnur og í raun er hægt að taka allan pakkann hjá mér, ráðstefna á daginn og kvöldmat og skemmtun um kvöldið.“

Kári er ekki aldeilis hættur framkvæmdum.

„Ég ákvað að klæða þetta nýja bil á sama máta að framan og Fish House svo heildarútlitið að verði eins. Svo verður frábært þegar pallurinn að aftan verður tilbúinn en þar verður æðislegt að sitja í skjóli og sól og njóta góðra veitinga.“

Sjómannahelgin stærst

Sjómannahelgin er framundan, ein stærsta helgi ársins í Grindavík, og eftir tveggja ára pásu frá hátíðarhöldum má búast við stærri síkátum sjóara en nokkru sinni fyrr! Hvað mun Fish House bjóða upp á?

„Þetta verður stærsta helgi Fish House frá upphafi en við byrjum á tónleikum með Dimmu á fimmtudagskvöldinu. Nýju fötin keisarans mæta með sveitaball á föstudagskvöldinu og Heiður & félagar verða á laugardagskvöldinu. Á sunnudeginum mætir mótorhjólaklúbburinn Sleipnir og kynnir góðgerðarferð sína um landið til styrktar Umhyggju, félags langveikra barna. Helginni lokum við svo með frábærum PROG-rokktónleikum með úrvali grindvískra söngvara og einvalaliði hljóðfæraleikara. Grindavík er staðurinn til að vera á, á sjómannahelginni og ég hvet alla til að mæta, ég held að að bærinn verði troðfullur.“