Mannlíf

Það eðlilegasta í heimi
Að vera ljósmóðir er líklega eitt mest gefandi starf í heimi. Þær Rebekka, Rut og Hugljúf virðast allavega hafa gaman af því. VF-myndir: JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
sunnudaginn 7. nóvember 2021 kl. 11:18

Það eðlilegasta í heimi

Heimafæðingar hafa sótt í sig veðrið – séstaklega með tilkomu Covid

Ljósmæðurnar Rebekka Jóhannesdóttir, Rut Vestmann og Hugljúf Dan Jensen sinna heimafæðingum á Suðurnesjum og víðar en það er ekki öllum verðandi foreldrum kunnugt um þann möguleika að fæða börn sín á heimavelli í stað stofnunar. Víkurfréttir ræddu við þær stöllur um heimafæðingar og hvers vegna foreldrar velji þann kostinn fram yfir að fæða á fæðingardeild sjúkrahúss.

Valkostur að fæða heima

Rebekka, Rut og Hugljúf hófu rekstur eigin fyrirtækis í febrúar á þessu ári en þær taka að sér að liðsinna konum sem kjósa að fæða heima. Þær stöllur eru allar ljósmæður á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og vinna á fæðingardeildinni þar samhliða því að sinna heimafæðingum.

Hefur orðið aukning á heimafæðingum?

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

„Það eru níu konur búnar að fæða hjá okkur í heimafæðingu en þrjár hafa dottið út á meðgöngu,“ segir Rut. „Þá hefur eitthvað komið upp á í meðgöngunni sem hefur gert það að verkum að þær eru ekki kandídatar til að fæða heima.“

„Einungis hraustum konum í eðlilegri meðgöngu er ráðlagt að fæða heima,“ bætir Rebekka við.

Hvað fékk ykkur til að fara í það að stunda heimafæðingar?

Hugljúf segist alltaf hafa verið ótrúlega hlynnt náttúrulegum fæðingum en hún lærði til ljósmóður í Danmörku og þar eru heimafæðingar hluti námsins. „Þannig að ég hef alltaf verið mjög heit fyrir þessu. Ég ætlaði að fæða fjórða barnið mitt heima en það gekk reyndar ekki eftir. Ég hef brunnið fyrir að fæða frekar heima en inni á sjúkrastofnun.“

Rut bætir við: „Fæðingar eru eðlilegt ferli, þar til annað kemur í ljós, þannig að maður vill styðja þann valkost að konur geti fætt heima hjá sér og ég sá að það var byrjuð að vera aukin eftirspurn eftir þjónustu sem þessari.“

„Sérstaklega í Covid,“ bætir Rebekka við. „Covid startaði þessu svolítið, konur voru svo hræddar við að enda einar inni á stofnun. Að maki eða annar aðstandandi mætti ekki vera með en konur vilja yfirleitt hafa einhvern nákominn, móður, systur eða vinkonu, viðstaddan til að styðja sig í þessu ferli.“

„Já, það var veruleg aukning á heimafæðingum í Covid,“ heldur Rut áfram. „Við vorum kannski með konur hérna í mæðravernd sem vildu síðan færa sig yfir í það að fæða heima. Það var líka skemmtilegt að geta haldið samfellunni og fylgja þeim í heimafæðinguna.“

Stangast þetta ekkert á við starf ykkar hér hjá HSS?

„Nei, alls ekki. Við fáum mikinn stuðning við það sem við erum að gera og það er alltaf val konunnar hvar hún vill fæða,“ segja þær. „Það hjálpar okkur að við erum þrjár í teymi, ef ein er að vinna þá eru alltaf tvær til taks. Við pössum líka upp á það að konurnar séu búnar að hitta okkur allar þrjár á undirbúningstímanum, þannig að þær þekki okkur þegar að sjálfri fæðingunni kemur.“

Rut Vestmann á vaktinni á fæðingardeild HSS.

Rannsóknir sýna að konur í eðlilegri meðgöngu eru öruggari utan hátæknisjúkrahúss

Ljósmæðurnar segja níu fæðingar vera mjög hæfilegan fjölda fyrir þær þrjár með vinnu þeirra á Heilbrigðisstofnuninni. „Flestar fæðingarnar hafa verið hér suður frá en við erum alveg að fara út fyrir Suðurnesin. Við höfum t.d. farið á Suðurlandið.“

Konurnar eru ekkert hræddar við þetta eða hvað?

„Nei,“ svarið er stutt og laggott hjá Rebekku. „Ef konan er innstillt á að fæða heima og er búin að kynna sér heimafæðingar vel, búin að kynna sér kosti og galla þeirra og ef konan er ákveðin þá fylgir þessu engin hræðsla.“

Rut segir að það sé búið að gera fjölmargar rannsóknir, þar á meðal hér á Íslandi fyrir stuttu síðan, sem sýna að hraustar konur í eðlilegri meðgöngu eru öruggari utan hátæknisjúkrahúss. Þær séu á stað sem þær þekkja en svo er annar vinkill á þær sem eru í áhættu. „Uppbygging fæðingardeildarinnar hér á HSS er samt ekkert ólík því sem við erum að gera að því leyti að hér er reynt að halda samfellunni, það er reynt eftir fremsta megni að sama ljósmóðir fylgi konunni í gegnum mæðraverndina og svo í fæðingunni. Það er reynt að hafa andrúmsloftið hér er eins þægilegt og afslappað og mögulegt er. Smá svona heimafæðingarandrúmsloft.“

En ef eitthvað kemur upp á, segjum í Suðurnesjabæ, er þá ekki er styst að fara á Landspítalann á Hringbraut?

„Það er nú bara yfirleitt þannig að maður er búinn að koma auga á svoleiðis tilvik með góðum fyrirvara. Við erum menntaðar í því að greina vandamálin áður en þau gerast og maður tekur enga áhættu hvorki hér [HSS] né í heimafæðingu,“ bendir Rebekka á.

Rut segir að þær hafi að hluta til farið út í heimafæðingar af því að þær séu vanar að vinna svona. „Við höfum ekki skurðstofur hér, baklandið er Landspítalinn, þannig að við erum vanar að þurfa að meta það hvort þurfi að flytja konur inn eftir.“

„Svo stendur konunni auðvitað alltaf til boða að fæða hér á HSS,“ segir Hugljúf; „og við höfum alveg kost á að klára fæðinguna hér á fæðingardeildinni.

Hugljúf segist alltaf hafa verið ótrúlega hlynnt náttúrulegum fæðingum en hún lærði til ljósmóður í Danmörku og þar eru heimafæðingar hluti námsins.

Og hvernig líkar fólki svo við þessa þjónstu?

„Mér finnst konurnar vera ægilega þakklátar fyrir þetta ferli, að geta verið hjá sömu ljósmóður frá byrjun og til enda,“ segja þær einum rómi. „Við erum með konunum liggur við frá viku sex eða sjö og maður er að kveðja þegar barnið er tíu daga gamalt,“ en hluti ferlisins er heimaþjónusta við móður og barn fyrstu dagana eftir fæðingu.

Þær segjast finna fyrir miklu þakklæti frá konunum sem upplifa ákveðið öryggi í því að vera með sömu ljósmóður hjá sér allan tímann og þurfa ekki að ganga í gegnum vaktaskipti og álíka rask meðan á fæðingarferlinu stendur.

Rut segir að það sé búið að gera fjölmargar rannsóknir, þar á meðal hér á Íslandi fyrir stuttu síðan, sem sýna að hraustar konur í eðlilegri meðgöngu eru öruggari utan hátæknisjúkrahúss. Þær séu á stað sem þær þekkja en svo er annar vinkill á þær sem eru í áhættu.

Valdeflandi upplifun

„Þegar kona hefur gengið í gegnum það að fæða heima fylgir því mikil valdefling,“ segir Rut. „Það er alltaf ákveðið afrek að fæða barn en að fæða barn heima er sérstakt, svona „ég gat það“ tilfinning sem fylgir því. Það er auðvitað valdeflandi fyrir allar konur að ganga í gegnum fæðingu en það er aðeins öðruvísi að fæða heima.“

„Ég finn þetta stundum hérna líka,“ segir Rebekka. „Sérstaklega hjá frumbyrjum og við höfum haft óvenju hátt hlutfall af frumbyrjum núna.“

„Við heyrum líka að það er áróður í gangi út í samfélaginu gagnvart heimafæðingum,“ segir Hugljúf. „Konur sem eru á sinni fyrstu meðgöngu fá sérstaklega að heyra það, konur sem hafa aldrei upplifað fæðingu áður en við myndum aldrei ráðleggja konum sem eru með einhverja áhættuþætti að fara út í það að fæða heima hjá sér.“

„Þetta er hægt og rólega að breytast,“ segir Rut. „Það þyrfti að kynna þetta betur, jafnvel strax í skólum. Konur vita jafnvel ekki af þessum möguleika, að það sé hægt fæða heima.“

Þær benda á að það sé svo mikilvægt að konur viti hvað sé í boði. Margar konur halda að það sé bara í boði að fæða á Landspítalanum.

Hugljúf bætir við að konur haldi oft að þær séu öruggari inni á stofnunum. „Það eru svo miklar ranghugmyndir að það sé eitthvað öruggara að fæða á sjúkrahúsi en annars staðar.“

„Spítalinn er auðvitað öruggur fyrir konur sem eru með ákveðna áhættu,“ benda þær á. „Og við mælum alveg eindregið með því að þær konur fæði þar – en ef konan er hraust og meðgangan eðlileg er best að fæða þar sem henni líður vel.“

„Ef konu líður best á hátæknisjúkrahúsi þá er það algerlega staðurinn fyrir hana,“ segir Rebekka og Rut bætir við: „Það er auðvitað aðalpunkturinn í þessu að konan fái að velja hvar hún fæðir. Ég held að það sé stór hluti ástæðunnar fyrir því að við fórum út í þetta, að konan hafi val.“

Þessi skemmtilega tafla er á fæðingardeild HSS þar sem ljósmæðurnar setja pinna fyrir hvert barn sem fæðist á deildinni. Þær ljósmæður segja að fæðingum hafi fjölgað gífurlega milli ára, eða um 30%, svo það er nokkuð ljóst hvað fólk hafði fyrir stafni í þeim takmörkunum sem fylgdu Covid.


Upplifun feðranna

Ljósmæðrunum er tíðrætt um upplifun mæðranna en hvernig er upplifun feðranna?

„Ég held að konan færi ekki út í þetta nema hún hefði manninn við hliðina á sér,“ segir Hugljúf.

Rebekka segir að rannsóknir sýni að mönnunum líði betur í heimafæðingu. „Þeir eru á sínu svæði, geta farið í ísskápinn og fengið sér að borða. Geta sest niður í sinn stól en ekki verið nokkurs konar gestur á ókunnum stað.“

„Ég upplifði þannig heimafæðingu erlendis þar sem ljósmóðirin þurfti að fylgja parinu inn á sjúkrahús,“ segir Hugljúf. „Eftir fæðinguna sagði pabbinn að þegar þau komu á sjúkrahúsið þá hafi hann ekki verið lengur á sínu svæði. Það var allt út í slöngum, allir komnir í búninga og hann varð bara hálfhræddur, dró sig til baka. Maður sem hafði verið mjög styðjandi heima var allt í einu bara kominn á stól og vissi ekkert hvernig hann átti að vera.“

„Þeir viðurkenna oft að þeir hafi verið skíthræddir en svo þegar allt gengur vel og fæðingin er yfirstaðin eru þeir jafnvel á enn bleikara skýi en mamman,“ bætir Rebekka við og Rut segir að það virðist koma þeim oft á óvart hvað þetta hafi verið geggjað. „Það er líka svo æðislegt að sjá þegar konan er búin að fæða. Þá fer fjölskyldan bara inn í sitt svefnherbergi, skríður upp í sitt rúm og fer að sofa. Þau þurfa ekki að fara á fætur daginn eftir til að taka sig til og búa til heimferðar.“

„Svo þegar fjölskyldan fer á fætur daginn eftir þá erum við búnar að ganga frá öllu og það er ekki að sjá að heimafæðing hafi átt sér stað,“ segja þær stöllur að lokum.